04.05.1936
Efri deild: 64. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (1788)

120. mál, jarðræktarlög

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Þetta frv. er hv. þm. svo kunnugt, að það ætti ekki að vera þörf að hafa langa framsöguræðu. Þessi lagabálkur hefir verið undirbúinn af n., sem ég fékk til þess að rannsaka þetta mál milli þinga.

Eins og gefur að skilja, eru lög eins og jarðræktarlögin þannig — þar sem engin lög um sama efni voru til áður og reynslu vantaði á þessu sviði —, að þegar búið er að framkvæma þau í nokkurn tíma, þá kemur ýmislegt í ljós, sem menn telja óhjákvæmilegt að breyta samkv. reynslunni, og svo hefir einnig verið um jarðræktarlögin. Í frv. því, sem fyrir liggur, hefir verið reynt að fara eftir þessari reynslu, sem fengizt hefir undanfarin ár á þessu sviði. Ég get í því sambandi sérstaklega bent á fyrsta kafla laganna, sem er um stjórn ræktunarmálanna; hann er að miklu leyti sniðinn eftir því, sem raunverulega hefir verið tekið upp nú tvö síðustu ár, eftir að reynslan hefir sýnt, að það virðist vera hagkvæmt. — Um annan kaflann, sem fjallar aðallega um það, hversu mikinn styrk eigi að greiða út á hverja einingu, er það að segja, að hann er sniðinn eftir því, sem reynslan hefir skorið úr um; aðallega er breyt. fólgin í því, að það er borgað meira fyrir framræslu en verið hefir. Það hefir þótt skorta í hinum eldri jarðræktarlögum, að greitt væri fyrir framræslu eins og þurft hefði að gera. Að öðru leyti er styrknum breytt í samræmi við það, sem menn telja nú hagkvæmast samkv. reynslu undanfarinna ára.

Fleiri breyt. hafa verið gerðar á þessum lögum, og koma þær að sjálfsögðu aðallega til umr. við 2. umr. þessa máls. Ég skal þess vegna ekki lengja frekar umr. um málið að svo komnu, en ég óska eftir því, að málinu verði vísað til 2. umr. og til landbn., og vona ég, að menn fallist á að láta málið ganga umræðulítið til 2. umr. og ræða aðallega um það, þegar það kemur frá nefnd.