04.05.1936
Efri deild: 64. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (1790)

120. mál, jarðræktarlög

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég skal vera fáorður, en vil benda á það, að þar sem hér er um mikinn lagabálk að ræða, þarf að vanda meir til smíðis hans en horfur eru á, að eigi að gera. Ég tel, að alveg sjálfsagt hefði verið, áður en frv. yrði endanlega samþ., að gefa búnaðarsamböndunum kost á að segja sitt álit og skjóta málinu undir búnaðarþing. Á það eru kosnir menn, sem yfirleitt eru reyndir að þekkingu og gætni; því var sjálfsagt að leita umsagnar þeirra, áður en Alþingi gengi frá frv. En sú aðferð, sem hér virðist eiga að beita, er allt of harkaleg og mun að makleikum mælast illa fyrir.

Ég skal ekki fara út í efni frv. Það miðar yfirleitt í þá átt að lækka jarðræktarstyrkinn til þeirra manna, sem stórtækastir eru í framkvæmdum. Svo ég bendi á dæmi, sem mér er kunnast, get ég sagt frá því, að samkv. frv. lækkar þessi styrkur til mín, sem er landseti ríkissjóða, um 1/3.

Ég get lýst yfir því, að ég er algerlega andvígur frv. eins og það er. Það er sagt, að það skuli vel vanda, sem lengi á að standa, en það sýnist ekki eiga við hér. Og þegar þar við bætist, hve harkalega á að ganga að Búnaðarfélagi Íslands með öðrum lögum, get ég ekki annað séð en dagar þeirrar stofnunar séu brátt taldir. Ég á hér við brtt. við 16. gr. fjárh. 2. lið.