06.05.1936
Efri deild: 66. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í B-deild Alþingistíðinda. (1793)

120. mál, jarðræktarlög

Frsm. meiri hl. (Páll Hermannsson):

Ég þarf ekki að segja margt af hálfu n. um þetta mál. Tíminn síðan málinu var vísað þangað er stuttur og því ekki verið mikið tækifæri til athugunar. En þar á móti er það mjög þungt á metunum, að máli þessu hefir frá upphafi verið veitt vakandi athygli af öllum þm., og það hefir verið rætt mjög síðan það kom fram, bæði í blöðum og manna á milli. Í hv. Nd. var málið og mikið rætt og athugað. Það er nú svo, að allt, sem lýtur að jarðræktarlögunum, vekur mikla athygli utan þings og innan, og svo hefir einnig orðið um frv. þetta. Ég býst því við, að hv. þdm. séu öllu betur undir það búnir að ræða og taka ákvarðanir um þetta mál en almennt gerist um þingmál, enda þótt stutt sé síðan d. fékk það til meðferðar.

Landbn. hefir klofnað í þessu máli. Einn nm. vill fella frv., eða a. m. k. breyta því mjög, áður en það gangi fram, sem þá getur ekki orðið á þessu þingi. En ég og hv. 4. landsk. teljum, að breyt. þær, sem í frv. felast, miði til svo verulegra bóta, að sjálfsagt sé að samþ. það á þessu þingi.

Þetta mál er óvenjulega vel undirbúið. Frv. fylgir ýtarleg grg., sem ég þykist vita, að hv. þdm. hafi kynnt sér. Ég tel því, þar sem engar brtt. liggja nú fyrir, að óþarfi sé að hafa þessa framsögu lengri, þar sem hún yrði aðeins endurtekning á grg. og efni frv. Ég þykist geta ráðið af ýmsum sólarmerkjum, að ýms ákvæði frv. muni mæta allmikilli andstöðu, og býst því við því, að málið skýrist betur við umr. en þótt ég færi að rekja það í framsögu.

Ég vil þó geta þess, að skorað hefir verið á landbn. að leita álits Búnaðarfélags Íslands um málið, áður en áliti væri skilað. N. hefir þó ekki gert þetta, þar sem afstaða búnaðarfélagsins er alþingi alkunn, svo að slíkt hefði aðeins orðið til að tefja málið. Einn af 4 stjórnarnefndarmönnum félagsins hefir þegar samþ. frv. og hafði framsögu fyrir því í Nd. Hinsvegar er kunnugt um aðra, að þeir eru frv. andvígir, og var því álit þeirra fyrirfram vitað, og þýðingarlaust að leita þess nú.

hv. nm., sem skrifar undir álit meiri hl. með mér, hefir gert það með fyrirvara. Ég veit, að hann muni gera grein fyrir því, í hverju sá fyrirvari er fólginn, en þykist vita, að hann sé ekki um nein stóratriði.