06.05.1936
Efri deild: 66. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1198 í B-deild Alþingistíðinda. (1794)

120. mál, jarðræktarlög

*Þorsteinn Briem:

Það var hafður sá háttur á, þegar þetta frv. var fyrst rætt hér í d, að leitað var afbrigða til þess að það mætti koma fyrir, og frv. sjálfu var útbýtt þá á fundinum. Það má því af líkum ráða, að frv., eins og það er eftir 3. umr. í Nd., hefir ekki getað fengið rækilega athugun við 1. umr. málsins, enda óskaði hæstv. forsrh. beinlínis eftir því, að umr. um málið yrðu þá sem stytztar. Ég varð við ósk hæstv. ráðh. um það efni og fór ekki mörgum orðum um frv. þá, en ég beindi þeirri ósk til landbn. þessarar d., að hún athugaði það vendilega og leitaði umsagnar Búnaðarfélags Íslands um frv. Nú ber málið þannig að við 2. umr., að leita þarf enn afbrigða frá þingsköpum, til þess að það megi komast að, og afgreiðslu málsins er meira að segja svo hraðað, að ekki er beðið eftir því, að öll n. hafi sagt álit sitt um það, því að ég ætla, að minni hl. landbn. hafi ekki gefizt tími til þess að skila nál. Þetta er alveg óvenjuleg aðferð um slíkt stórmál sem þetta, þar sem þetta frv. er ekki aðeins allmikill lagabálkur í 60 gr., heldur gerir og stórmiklar breyt. og jafnvel grundvallarbreyt. á þessum þætti búnaðarlöggjafarinnar. Það gerir algerða grundvallarbreyt. á skipulagi Búnaðarfélags Íslands, og það gerir og ýmiskonar grundvallarbreyt. á ákvæðum laganna um styrkveitingar til jarðræktar í landinu. Það hlýtur því að vekja undrun manna, að slík afgreiðslu skuli vera viðhöfð á slíku stórmáli sem þessu. Hv. frsm. meiri hl. viðurkenndi þetta óbeinlínis, en hann færði þá ástæðu fyrir þessari afgreiðslu málsins og sérstaklega fyrir því, að meiri hl. hafði ekki viljað verða við þeirri áskorun minni við 1. umr. málsins, að leita umsagnar Búnaðarfélags Íslands, að málið hefði verið svo rækilega undirbúið. Ef maður ber saman þá aðferð, sem höfð hefir verið við undirbúning þessa máls nú, og þá aðferð, sem höfð var við undirbúning hinna fyrstu jarðræktarlaga, og breytinguna á þeim 1928, þá er þar mikill munur á. Það frv. var ekki aðeins rækilega undirbúið frá n. valinna manna, heldur og rækilega rætt í blöðum og jafnvel á fundum, áður en það var flutt hér á Alþingi, og auk þess hafði búnaðarfélagið og búnaðarþingið frv. til rækilegrar meðferðar. Hér er hinsvegar algerlega gengið fram hjá Búnaðarfélagi Íslands. Hér eiga bændur landsins ekki kost á að athuga þær breyt., sem í þessu frv. felast. Og hér hafir a. m. k. nær helmingur þm. ekki átt þess kost, fyrr en í mesta annríki síðustu tíma þingsins, að athuga þetta mál. En það er ætlun manna, að frv. hafi verið látið læðast með bekkjunum meðal hinna útvöldu í stjórnarmeirihlutanum og þeir hafi átt kost á að athuga það, en ekki þingið í heild. Ég vil segja, að slík aðferð á afgreiðslu jafnmikils stórmáls sem þessa sé ekki aðeins næsta óvenjuleg, heldur og næsta vítaverð.

Við 1. umr. málsins gerði ég að umtalsefni þær breyt., sem í fyrsta kafla þessa frv. felast um stjórn ræktunarmála, þar sem það er látið heita svo í aths., sem fylgdu frv., að verið sé að auka lýðræðisfyrirkomulagið á skipulagi Búnaðarfélags Íslands. En hinsvegar er samtímis kippt til baka til ríkisstj. því valdi, sem búnaðarfélagið hingað til hefir haft og var aukið á síðasta þingi með þeirri breyt., sem gerð var á jarðræktarlögunum þá. Því hefir verið haldið fram og er haldið fram í aths. þeim, sem fylgdu þessu frv. af hálfu flm., að það fyrirkomulag, sem nú er um kosningar til búnaðarþings, sé ekki samkv. lýðræðisskipulagi. Ég benti á það við 1. umr., að þetta skipulag, sem Búnaðarfélag Íslands setti sér eftir rækilegan undirbúning, 1931, er alveg hliðstætt því skipulagi, sem er í S. Í. S., og er það nokkuð harður dómur, að það sé ekkert lýðræðisfyrirkomulag að hafa samsvarandi reglur eins og í því félagi. Ég benti á það, hversu hér kenndi mikils einræðisanda, þar sem lagt er til að gerbreyta skipulagi þessa stærsta félagsskapar, sem bændur hafa hér á landi, að þeim algerlega fornspurðum. Og ég benti á það, að á sama hátt gæti Alþingi leyft sér að breyta þeim skipulagsreglum, sem S. Í. S. hefir sett sér, og vil ég þá vænta, að mönnum megi ljóst verða, hvernig hér er einmitt í meðferð þessa máls og í till., sem hér eru, horfið langt frá öllu lýðræðisfyrirkomulagi og lýðræðisreglum, þar sem í stað þess lýðræðisfyrirkomulags, sem frjáls félagsskapur, eins og Búnaðarfélag Íslands, hafði sett sér með lögum sínum, er látið koma valdboð og lagaþvingun að ofan. Það skal að vísu játað að í þessum kafla hafa verið gerðar nokkrar breyt. til bóta í Nd., en það fyrirkomulag, sem hér er lagt til, að lögleitt verði, horfir allt í einræðisáttina, og er þess vandlega gætt að taka með annari hendinni til baka allt það vald, sem bændum er rétt með hinni. Auk þess verður að líta svo á, að niðurlagsákvæði frv. í sambandi við fyrsta kafla bendi beint til þess, að kúga eigi búnaðarfélagið til beinna lögbrota á þeim lögum, sem það hefir sett, og mér skilst, að búnaðarfélagið geti ekki tekið við þessum lögum, nema með því einu móti að brjóta sín eigin lög.

Þá skal ég víkja að 2. kafla frv., og þá sérstaklega höfuðgr. hans, fl. gr. Þar eru í nokkrum einstökum atriðum gerðar breyt. til bóta frá því, sem nú er, þannig að styrkir til nokkurra einstakra jarðræktarframkvæmda eru lítilsháttar hækkaðir frá því, sem nú er í lögum. Og það er eftirtektarvert, að þær einu breyt. til bóta eru einmitt á þeim atriðum, sem lagt hefir verið til, að styrkir yrðu hækkaðir samkv. því frv., sem ég hefi flutt á undanförnum þingum. Svo að það hefir verið tekið lítilsháttar tillit til till. minna, en vitanlega aðeins að mjög litlu leyti. Vegna þess að hér er breytt um þann mælikvarða, sem styrkir eru reiknaðir eftir, frá því, sem nú er í jarðræktarlögunum, og horfið frá þeim dagsverkamælikvarða, sem áður hefir verið miðað við, þá hefi ég gert lítilsháttar athugun á því, hversu mikil breyt. væri í 9. gr. á styrkveitingum, ef miðað væri við dagsverk, eins og áður hefir verið. Það hefir verið hækkaður lítilsháttar styrkur fyrir alsteyptar þvaggryfjur, þ. e. a. s. úr kr. 1,50 upp í kr. 1,70 á dagsverkið, en samkv. frv. Bændafl. átti þessi styrkur að vera kr 2,00 á dagsverkið. Aftur er styrkur fyrir safnþrær, steyptar með járnþaki, óbreyttur eins og hann er nú í lögunum, og er þar ekkert tillit tekið til hækkunartillagna þeirra, er fólust í frv. Bændafl. Þá er lítið eitt hækkaður styrkur fyrir eina tegund áburðarhúsa, sem sé alsteypt áburðarhús, úr kr. 1,50 upp í 1,75 á dagsverkið. Ég hafði ekki beint búizt við því, að þessi tegund áburðarhúsa yrði tekin fram yfir allar aðrar tegundir áburðarhúsa, vegna þess að þegar mitt frv. var hér til umr., þá tók form. Framsfl. það sérstaklega fram, að það ætti algerlega að banna að byggja alsteypt áburðarhús. Mér þykir nú vænt um að sú n., sem hefir undirbúið þetta frv., hefir ekki verið sammála formanni Framsfl. um þetta álit hans á alsteyptum áburðarhúsum. — Aftur hefir styrkur til annara áburðarhúsa, steyptra og með járnþaki, verið látinn haldast óbreyttur. Þá hefir lítið eitt verið hækkaður styrkur til framræslu. Styrkur fyrir skurðgerð, sem er 1 m. og grynnri, er hækkaður úr kr. 1,00 upp í kr. 1,08 á dagsverkið, en styrkur til skurða, sem eru 1 m. til 1,3 m., er hækkaður um 20 aura á dagsverkið, og styrkur til skurða, sem eru þar yfir, er einnig hækkaður um 20 aura á dagsverkið, svo að þar hefir svolítið tillit verið tekið til frv. Bændafl. Styrkur til lokræsa hefir verið lítilsháttar hækkaður. Grjótræsi hafa verið hækkuð um 2 aura á dagsverkið, eða úr kr. 1,00 upp í kr. 1,02 og má þar segja, að stjórnin ætlist til, að þar dragi lítið vesalan, ef munar um 2 aura. Styrkur fyrir viðarræsi er hækkaður um 8 aura, og styrkur fyrir hnausræsi er hækkaður um 26 aura, eða úr kr. 1,00 upp í 1,26 á dagsverkið, og fyrir pípuræsi er styrkurinn hækkaður úr kr. 1,00 upp í 1,20. Munar hér allmiklu frá því, sem var í frv. mínu, þar sem gert var ráð fyrir, að styrkur til lokræsa væri hækkaður um helming, eða upp í kr. 2.00 á dagsverkið. En jafnhliða því, sem hér er veitt nokkur hækkun á styrk til einstakra framkvæmda, sem ég get veitt viðurkenningu fyrir, þótt lítið sé, þá er stórlega dregið úr styrk til ýmsra annara jarðræktarframkvæmda. Fyrir þaksléttur í nýrækt hefir styrkurinn verið lækkaður um 20 aura, úr kr. 1.00 niður í kr. 0.80. Fyrir græðisléttur í nýrækt er styrkurinn lækkaður um 16 aura, úr kr. 1.00 niður í kr. 0.84. Fyrir sáðsléttur í nýrækt er styrkurinn þó óbreyttur. Fyrir þaksléttur í túni er styrkurinn lækkaður um 30 aura, eða úr kr. 1.00 niður í kr. 0.70. Fyrir græðisléttur í túni er hann lækkaður um 25 aura. úr kr. 1.00 niður í kr. 0.75, og fyrir sáðsléttur í túni er styrkurinn lækkaður um 20 aura, úr kr. 1.00 niður í kr. 0.80. Fyrir matjurtagarða er styrkurinn aðeins lítið eitt hækkaður, um 8 aura á dagsverkið. Fyrir þurrheyshlöður, steyptar með járnþaki, er styrkurinn eins, eða kr. 0.50 á dagsverkið. En í mínu frv. var sá styrkur ætlaður kr. 1.00. Fyrir þurrheyshlöður úr öðru efni, með járnþaki, sem enginn styrkur var veittur til áður, eru nú veittar kr. 0.50 á dagsverkið, og ber það náttúrlega að viðurkenna, þó að lítið sé og aðeins helmingur þess, sem var í frv. Bændafl. Fyrir votheyshlöður, þar sem í frv. Bændafl. var lagt til, að styrkurinn yrði fjórfaldaður, hækkaður úr kr. 0.50 upp í kr. 2.00, með því að þar er um að ræða búnaðarframkvæmdir, sem miklu skipta og við höfum fengið rækilega áminningu af hálfu veðráttunnar um að kippa sem fyrst í lag, er styrkurinn hækkaður um aðeins 25 aura á dagsverk, hækkaður upp í 75 aura, í staðinn fyrir 50 aura áður, og má segja, að þar skammti faðir vor smátt smjörið.

Það væri nú dálítið freistandi að gá að því, hvernig þetta tæki sig út, þegar þetta er athuguð með tilliti til hinna einstöku bænda. Nú er gert ráð fyrir því í 11. gr. frv., að viss hluti býla fái uppbót á þennan styrk, sem sé að þau býli, sem enn hafa ekki fengið 1000 kr. í styrk til jarðabóta, njóti þeirra hlunninda að fá 20% hækkun á þennan styrk. Við skulum nú athuga, hvernig þetta tæki sig út hjá bónda, sem nýtur þessara „sérstöku vildarkjara“, sem talað er um í grg. frv., því að þar er talað um, að þessi hluti bænda hafi búið við svo slæm kjör vegna leiguáþjánar, fátæktar og annara erfiðleika, að nauðsyn sé að bæta verulega úr aðstöðu þeirra að því er snertir jarðabótastyrki. Við skulum hugsa okkur, að bóndinn hafi ekki séð sér fært að slétta svo sem neitt í túni sínu, sem við skulum segja, að sé 4 ha., en að hann vilji á næstu árum reyna að vinna það verk samkv. þeim hlunnindum, sem frv. veitir honum. Ef hann sléttar túnið með sáðsléttum, — hvað fær hann þá samkv. þessu frv.? Ef hann nyti ekki þessara sérstöku vildarkjara, sem því fylgja að hafa fengið innan við 1 þús. kr. styrk áður, þá fengi hann, í stað þess sem hann hefði fengið áður kr. 1000.00 fyrir að slétta 4 ha., aðeins kr. 800.00 samkv. frv. M. ö. o., það eru dregnar kr. 200.00 af honum. En nú skulum við gera ráð fyrir því, að hann njóti þessara hlunninda, að fá þessa 20% viðbót, sem svo mörgum fögrum orðum er farið um í grg. frv., — og hvað fengi hann þá? Þá fengi hann kr. 960.00. M. ö. o., að í stað bættra kjara eru dregnar af honum kr. 40.00. Ég tala nú ekki um, ef svo stæði á, sem ekki er að vísu víða, að bóndinn hafi sléttað svo mikið utan túns í nýrækt og byggt áburðarhús, þvaggryfjur og hlöðu, þannig að hann væri kominn yfir kr. 4000.00 alls í styrk, en ætti eftir 4 ha. í túni, sem hann vildi slétta. Þá væru dregnir 20% frá styrknum, þannig að hann fengi aðeins kr. 640.00, í stað kr. 1000.00, sem hann hefði áður fengið. M. ö. o., það yrðu dregnar kr. 360.00 af honum. Nú skulum við gera ráð fyrir, að sá fátæki bóndi, sem búið hefir við „fátækt og leiguáþján“ og hefir þess vegna ekki getað sléttað tún sitt, og því fengið innan við kr. 1000.00 í styrk, sjái þess ekki þörf að slétta þetta 4 ha. tún með sáðsléttu, heldur slétti það með græðisléttu, eins og allflestir bændur mundu gera, þar sem graslag er gott á túnum. Og hvaða vildarkjara nýtur hann þá? Eftir núgildandi lögum mundi hann fá fyrir 4 ha. græðisléttur kr. 664.00, en eftir ákvæðum frv. mundi hann fá aðeins kr. 500.00, ef hann er búinn að fá kr. 1000.00 áður. M. ö. o., kjör hans versna um kr. 164.00. Nú skulum við gera ráð fyrir, að hann hafi ekki fengið neinn styrk áður, eða þá aðeins örfáar kr., — og hvað fær hann þá, ef hann nýtur þessara sérstöku vildarkjara, sem frv-. býður upp á, og fær 20% hækkun? Þá fengi hann kr. 600.00 fyrir að slétta þetta 4 ha. tún. M. ö. o., hann fengi kr. 64 minna heldur en eftir núgildandi lögum. Þetta er nú þessi stórkostlega náðargjöf, sem flm. frv. þykjast vera að gefa þessum mönnum, sem hafa verið þjakaðir af leiguáþján og búið við fátækt vegna ómegðar og annara slíkra erfiðleika. Það er ekki að lasta þennan tilgang, sem með mörgum fögrum orðum er lýst í grg. frv., en svona tekst nú tilgangurinn í framkvæmd. Það er einkennileg aðferð að lofa gulli og grænum skógum með hinum átakanlegustu blíðmælum í grg. frv., en láta efndirnar verða svona í frv. sjálfu. Hafi það virkilega vakað fyrir stjórnarfl. að bæta kjör þessara manna, þá hefði átt að ganga öðruvísi frá þessu frv. heldur en hér er gert. Því hefir verið haldið fram í umr. um barnafræðslufrv., sem hér var til umr. áðan, að prósentureikningur væri sumum börnum innan við 14 ára aldur allerfiður, en ég sé, að hann er erfiður fleirum en börnunum.

Ég skal ræða um Hrafnagilið við hv. þm., þegar þar að kemur. Það hefir nýlega verið upplýst, hvað maður með launakjörum þessa hv. þm. þyrfti að vinna marga tíma til þess að borga þá jörð. Það voru 411 vinnustundir í embætti hans. Það hefir tekizt heldur báglega prósentureikningurinn hvað snertir þessa menn, en það hefir tekizt einkennilega um prósentureikninginn hvað snertir aðra bændur í landinu en þessa, og skal ég víkja nokkuð að því í sambandi við ákvæði 9. gr. Þetta ákvæði um að veita þeim bændum, sem hafa fengið minna í jarðræktarstyrk en þús. kr., þau sérstöku hlunnindi að láta þá fá 20% viðbót, snertir nokkra fleiri bændur en þá leiguliða, sem búið hafa við mikla ómegð, leiguáþján og skuldabasl, og hafa þess vegna ekki getað ræktað jörð sína. Það snertir fleiri jarðir en niðurníddu kotin. Það eru fjölmargar jarðir á þessu landi, þar sem svo hagar til, að þær eru frá náttúrunnar hendi þannig gerðar, að þær hafa slétt tún, og sumar ekki aðeins slétt tún frá náttúrunnar hendi, heldur líka véltækar engjar. Ábúendur þessara jarða hafa vegna sinnar góðu aðstöðu ekki lagt mikið kapp á túnrækt eða aðrar jarðræktarframkvæmdir, af því að þeir hafa búið á þeim jörðum, þar sem þörfin rak ekki á eftir. Ég skal nú til dæmis nefna eina jörð (ég gæti nefnt margar, en ég tek sem dæmi eina jörð), sem hefir fengið rúmar 200 kr. í jarðræktarstyrk, en heyskapurinn á þessari jörð er allur á véltæku túni og véltækum engjum. Samkv. fasteignamati er heyskapurinn að meðaltali á þessari jörð hvorki meira né minna en 1650 hestburðir. Og ég veit með sannindum, að þrátt fyrir það, að heyskapurinn hefir verið þetta mikill, þá hefir jafnvel orðið útundan óslegið mikið af ágætum vélslægum engjum. Bóndinn á þessari jörð hefir ekki komizt yfir að nytja jörðina og leigt þar af leiðandi mikið af vélslægum engjum, jafnvel mönnum úr annari sýslu. Þessi jörð, sem hefir upp undir 2000 hesta heyskap, á að fá að njóta þeirra hlunninda, ef bóndinn vill nú gera jarðræktarframkvæmdir, að hann fær til viðbótar við þessa ágætu aðstöðu 20% uppbót á sinn jarðræktarstyrk. Ég hefi fyrir framan mig lista, sem er að vísu gerður í flýti, og þó sýnir hann, að hægt er að telja upp fjölda jarða, sem líkt er á komið með. Ég skal nefna aðra jörð, sem hefir um 1000 hesta heyskap, hefir véltækar engjar og ekki fengið neinn jarðræktarstyrk. Ég vil nefna aðra jörð, sem ég þekki vel; hún hefir fengið 107,90 kr. í jarðræktarstyrk. — en hvaða heyskap hefir hún? Hvorki meira né minna en 2270 hesta heyskap, á sléttu túni og engjum með kúgæfu heyfalli. Þessi jörð á að njóta þessarar 20% uppbótar fyrir þær jarðabætur, sem unnar kunna að verða hér eftir, allt þangað til hún kemst upp í 1000 kr. styrk. Svona má nefna fjölda jarða víðsvegar á landinu. Ég get nefnt jörð, sem ekki hefir náð 1000 kr. styrk og hefir samkv. fasteignamati 1260 hesta heyskap og mikið af túni og engjum véltækt. Ég get nefnt höfuðbólið, sem Kolbeinn ungi o. fl. menn hafa gert frægt; þar eru rennisléttar engjar og slétt tún frá náttúrunnar hálfu. Þessi jörð er ekki komin upp í 1000 kr. í styrk, og hefir samkv. fasteignamati 1320 hesta heyskap. Hún nýtur þessarar 20% uppbótar á styrkinn. Ég get nefnt aðra jörð í Skagafirði, sem hefir sléttar ágætisengjar, þar sem menn geta slegið 20–30 hesta á dag; þar hefir styrkurinn numið 11,40 kr. og heyskapurinn á þessari ágætu jörð er 1500 hestburðir. Hún fær 20% uppbót! Hefir það vakað fyrir stjórnarflokkunum að styðja þá menn sérstaklega, sem hafa slíka aðstöðu? Eða á maður að trúa því, að hroðvirknin hafi verið svona ógurleg? Frsm. meiri hl. landbn. sagði, að þetta frv. væri sérstaklega vel athugað og rækilega undirbúið. Þegar slík atriði sem þessi eru ekki betur athuguð en þetta, þá verð ég að segja, að það þarf talsverð brjóstheilindi til þess að fullyrða, að það sé afsökun fyrir því að hafa slíka aðferð sem á að hafa um afgreiðslu þessa mál. að frv. sé „sérstaklega vel undirbúið“.

Ég hefi orðið að fara allmörgum orðum um þessa einu gr. frv., en hún gaf líka tilefni til margra athugana og gæti gefið tilefni til miklu fleiri athugasemda, ef tími væri til. Ég hefi hér fyrir framan mig skýrslu um jarðabætur í næsta hreppi við heimili mitt, litlum hreppi að vísu, þar sem ekki eru nema 13 jarðabótamenn, sem hafa fengið jarðræktarstyrk síðastl. ár. Ég vildi bera saman, hver styrkurinn er nú í þessum hreppi og hver hann mundi verða eftir því, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Samkvæmt gömlu l. er allur jarðabótatyrkurinn til hreppsins eftir jarðabótaskýrslu síðasta árs kr. 2352,00, en samkv. þessu frv. yrði allur jarðabótastyrkurinn aðeins 1953,09 kr. Svona kemur þessi endurbót á l. út gagnvart þessum hreppi. Þarna er styrkurinn lækkaður um 400 kr. Og má þó geta þess, að eftir því, sem hagar til í sveitunum á Íslandi. þá er þar aðallega um að ræða smábýli, en þar, sem um stærri býli er að ræða, er munurinn ennþá meiri. Þess má að vísu geta, að sumir þeir, sem minnst hafa gert, þeir fá nokkrar kr. í hækkun. Einn fær t. d. eftir þessu frv. 2,96 kr. hækkun. Hann lifir víst lengi á þessum 2,96 kr. Svo eru á öðrum jörðum menn, sem hafa sýnt sérstaklega ástundun og lagt á sig mikið erfiði og hleypt sér í skuldir til þess að geta bætt jörð sína og komið henni nokkurnveginn í rækt. Þeir fá refsingu fyrir þetta verk sitt. Styrklækkunin kemur tilfinnanlega niður á þeim. Það má segja, að maður getur orðið forviða, þegar hv. frsm. meiri hl. er að tala um, hversu vel þetta frv. sé undirbúið, og þegar því er haldið fram, að það hafi verið svo rækilega undirbúið og athugað áður en það var borið fram hér í þingi, að það megi hespa það af í flughasti á næturfundum, án þess að n. gefist kostur á að athuga það, og jafnvel skila áliti, og án þess að þeim aðiljum, sem hingað til hafa farið með þessi mál fyrir bændanna hönd, sé gefinn kostur á að gera sínar athuganir og láta í ljós álit sitt.

Ég hefi neyðzt til að tala nokkuð um þessa einu gr. frv., og hefði þó þurft, ef ég hefði átt að taka hana til rækilegrar athugunar, að fara um hana fleiri orðum. En ég get látið staðar numið hér um þetta atriði, og mun víkja nokkrum orðum að öðrum gr. þessa frv.

Maður rekur sig á það, að hér á það við, sem skáldið góðu á Bægisá orti forðum, að hér rekur sig margt hvað „á annars horn“, og nenni ég ekki að tilgreina mörg dæmi þess. Við þennan fljótlega yfirlestur, sem maður verður að hafa á þessu frv. með þeim afskammtaða tíma, sem getinn er, rekur maður sig þó á margt. Það stingur einkennilega í augun t. d., að frv. byrjar á því að taka allan rétt af Búnaðarfélagi Íslands, en í hinum síðari köflum eru þó ýmis ákvæði, sem gefa búnaðarfélaginu fullt vald um nokkur mikilsverð atriði. Mér virðist það undarlegt, að þar sem því er treyst til að hafa fullt vald í sumum mikilsverðum atriðum hvað snertir jarðræktarframkvæmdir, þá sé byrjað á því að taka af því allan rétt til að ráða starfsemi sinni og réttinn til að mega ráða sínum eigin l. og skipulagi, sem það hefir byggt upp á mörgum árum og komið sínu skipulagi algerlega í lýðræðishorf. Það sýnist þó vera sá minnsti réttur, sem eitt mikilsverðasta félagið í landinu mætti eiga, og það er að mega ráða sínum l. og skipulagi sjálft. Það kemur þráfaldlega fyrir, ef maður les þetta frv. eins og það nú er orðið, að maður rekur sig á það, að í einni gr. er vísað í ákvæði annarar gr., en svo þegar maður les þá gr., eru engin ákvæði, sem minnt gætu á þau tilvísuðu ákvæði. T. d. er í 25. gr. vísað til ákvæða um frumverð landa í 43. gr., en þegar maður les 43. gr., er hvergi talað um frumverð landa. Þetta er eitt með öðru, sem sýnir, hve afskaplegt öfugmæli það er, sem huldið er fram af frsm. meiri hl., að þetta frv. sé svo rækilega undirbúið og athugað, að enginn þurfi eiginleg, á það að líta. Það má benda á ýmiskonar vansmíði, sem vart hafa átt sér stað í nokkurri lagasmíð, hvað þá heldur slíkri lagasmið, sem sérstaklega á að vera til vandað. Hér er t. d. 29. gr.; hún byrjar svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Reikningshald verkfærakaupasjóðs og innheimtu lána hans annast Búnaðarfélag Íslands, og lætur hann hverju búnaðarfélagi árlega í té samrit af viðskiptum þess við sjóðinn.“

Hér er sennilegt, að hafi verið allt annað orðalag í upphafi, því að þetta kemur hér allt öfugt út. Hvaða „hann“ er hér átt við? Það mun hafa verið svo ákveðið í frv. í fyrstu, að einn sérstakur starfsmaður skyldi annast þetta reikningshald. En svo hefir gr. verið breytt og ekki aðgætt að breyta þessu í samræmi við það. Málsgr. hefir ekki einu sinni verið lesin til enda. Það skyldi maður þó ætla, að þegar eitt mál er sérstaklega vel athugað, þannig að Alþingi þarf ekki á það að líta, þá hafi þeir, sem um málið fjölluðu, áður en þeir breyttu upphafi einnar gr., lesið hana til enda.

Það væri náttúrlega ástæða til þess að tala um hverja einstaka gr., en ég verð þó að stikla á einstaka gr. Skal ég þá næst drepa á ákvæði 17. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að þessi „styrkur“, sem á að veita, sé aðeins lán, og ef jörðin breytir um eiganda, er gert ráð fyrir, að þetta lán verði að allmiklu leyti endurgreitt öðrum aðilja, — svo sem í sveitar- eða bæjarsjóð. Þó er svo að sjá, sem styrkurinn sé að þessu leyti kvaðalaus, ef jarðir eða býli eiga ekki í hlut. Ef bóndi, sem býr á sveitabýli, ræktar blett, þá er jarðræktar„styrkur“ hans ekki styrkur, heldur lán. En ef maður í kaupstað ræktar jafnstóran blett, þá er jarðræktarstyrkur hans styrkur, en ekki lán.

Hér er því tvennskonar réttur. Kaupstaðarbúinn fær styrk fyrir verk sitt, en bóndinn fær aðeins lán til hins sama verks, þangað til hann flytur á mölina. Þá getur hann fengið styrk.

Hér ætti þó a. m. k. að ganga jafnt yfir alla. Nema tilgangurinn sé, að ekki verði ræktað nema í kaupstöðunum. Svo er gert ráð fyrir, að ef jörð selst yfir fasteignamat, þá greiðist viss hluti af verðinu í sveitarsjóð. Ef menn vilja hindra verðhækkun jarða með slíkum kvöðum, þá verða menn a. m. k. að búa þannig um, að þessari endurgreiðslu, sem hér er gert ráð fyrir á jarðabótastyrknum, verði hagað þannig, að hún komi jörðinni sjálfri að notum, en greiðist ekki í sveitarsjóð, til þess að verða þar að eyðslueyri. Það mætti t. d. leggja hana í sérstakan sjóð sem jörðin síðan um aldur og æfi nyti góðs af til viðhalds og endurnýjunar jarðabótunum, eða annara umbóta. Annars er svo að sjá sem stjórnarflokkarnir hafi ekki komið auga á neitt, sem geti skapað verðhækkun á fasteignum nema ræktunarstyrkinn. En ef litið er á allt það fé, sem varið er úr ríkissjóði til atvinnuveganna og umbóta á landinu, þá má finna fleira en ræktunarstyrkinn. Munu ekki lóðir í kaupstöðum og lönd þar umhverfis hækka neitt í verði við hafnargerðirnar, sem víðast eru þó að 2/5 hlutum gerðar fyrir ríkisfé? Hafa ekki vegir, brýr og símar líka nokkur áhrif á verð fasteigna? Og er þetta þó ekki víðast gert að öllu leyti fyrir ríkisfé? Á þá að gera þessi framlög ríkisins að einshverskonar „fylgifé“ hlutaðeigandi fasteigna eftir samskonar mati og hér á að gilda um jarðræktarstyrkinn? Ef svo er, hví er þetta þá ekki tekið allt samhliða? Eða mega lögin ekki ganga jafnt yfir alla? Eru þeir svo miklu réttlægri en aðrir, sem leggja sjálfir vinnu í að bæta landið sitt?

Um 3. kafla frv. skal ég ekki ræða, þó að sum ákvæðin séu þar næsta óskýr, en önnur erfið í framkvæmd og ekki vandalaust eftirlit. — Hver á t. d. að hafa eftirlit með því, að ákvæði 23. gr. verði haldin? Ef það er B. Í., hver á þá að tilkynna því um öll kaup og sölur þeirra landa, er þar ræðir um? Má það mikið vera, ef ekki smjúga margir í gegnum götin á þeirri grein.

Um 4. kafla laganna, sem ræðir um verkfærakaupasjóð, verð ég að láta í ljós undrun mína yfir því, að stjórnin skyldi fyrst leggja til að lækka styrkinn til hestaverkfærakaupa til jarðræktarinnar. Samkvæmt núgildandi lögum njóta slík verkfæri helmingsstyrks, en hér var lagt til, að þau fengju aðeins styrk að 1/3. Þetta var eins og fleira í frv. stórt spor aftur á bak, því að það skiptir ekki litlu máli, að bóndinn fái aðstöðu til þess að eignast sín eigin jarðyrkjuverkfæri. Og þetta skiptir ekki minnstu máli fyrir héruð eins og t. d. sumstaðar í kjördæmi hæstv. forsrh. og Barðastrandarsýslu og víðar, þar sem samgöngum er svo háttað, að ekki er auðvelt að flytja stórar jarðyrkjuvélar milli býla. En þótt hæstv. landbúnaðarráðh. ætlaði hér að skerða rétt bænda. þá varð þó flokksmanni hans, hv. þm. Mýr., það ágengt í Nd., að hann fékk hinu upphaflega ákvæði frv. að því leyti breytt til bóta, að nú má þessi styrkur þó nema „allt að helmingi“ kaupverðs. Og þó að það ákvæði segi að vísu ekki svo mikið, að úr skeri, þá sýnir það þó vilja hans til þess að umbæta gerðir húsbónda síns.

Ég verð nú að fara fljótt yfir sögu. Ég get ekki farið verulega út í ákvæði 5. kafla, en þar er t. d. gefin út lagaheimild fyrir vissa jarðabótamenn til þess að taka lán. Ég veit ekki, hvort ástæða er til að lögheimila þessar sérstöku lántökur, og held ég, að menn hafi hingað til tekið lán, bæði hver í sínu lagi og í félagi, án þess að hafa sérstaka heimild til þess í lögum. Hitt hefði verið annað mál, ef í frv. hefði verið heimild fyrir ríkisstj. til þess að veita ábyrgð fyrir slíkum lánum, svo að líkindi væru til, að lán fengist. En hér er nú ekki svo vel. Bændunum er aðeins veitt heimild til að taka lán, ef þeir fá þau.

Þá eru ákvæði um reikningshald Búnaðarfél. Íslands fyrir hönd vélasjóðs, og eru þau ákvæði heldur óákveðin; mér skilst, að það vanti a. m. k. ákvæði um það, hvort Búnaðarfél. Íslands á að hafa á hendi reikningshald yfir rekstur á skurðgröfum eða ekki. Ákvæði 30. gr. er of óákveðið. Þar er sagt, að ríkið skuli kaupa, starfrækja og gera tilraunir með vélknúnar jarðræktarvélar og skurðgröfur, sem ætla má, að hæfi hérlendum staðháttum. Það stendur ekkert um, hver eigi að dæma um það, hvort þær vélar, sem kaupa á, hæfa hérlendum staðháttum. Það virðist þó ástæða til að hafa eitthvert ákvæði um þetta, því að menn muna ýmis dæmi um slík vélakaup, sem hafa orðið hinu opinbera alldýr móts við gagnið og árangurinn.

Ákvæði 33. gr. eru einnig óákveðin, þar sem rætt er um, að kaup á stórum skurðgröfum til tilrauna séu því aðeins gerð, að þörf sé á þeim til meiri háttar framræslu og þurrkunar. Hver á að dæma um þetta? Er það B. Í., eða á ríkisstj. að fara þar eftir eigin geðþótta?

Ákvæði 6. kafla um búferlaflutning virðist mér þurfa umbóta við að ýmsu leyti. Sumpart er hér nokkuð harkalega af stað farið gagnvart einstökum mönnum, og jafnvel einstökum héruðum, sem halda tryggð við gömul ættaróðul og gamlar menningarbyggðir. Því að það verð ég að segja, að í sumum byggðum, sem liggja undir hættu af jökulhlaupi, skriðuhlaupi eða jafnvel landbroti, er enn mikil og lofsverð menning, og það svo, að menning eins af þessum byggðarlögum hefir, af einum viðurkenndum menntamanni og menningarfrömuði þessa lands, verið talin öðrum sveitum og byggðarlögum til sérstakrar fyrirmyndar. Þó að nokkur ástæða geti verið til þess að setja einhver lagaákvæði í þessa átt, þá tel ég ekki rétt að fara mjög harkalega að mönnum í því efni. En það verð ég að segja, að hér er ekki sýnd nein sérstök sanngirni, þar sem svo er fyrir mælt, að ef maður verður — að tilstuðlan þess opinbera — að hverfa burt af jörð sinni, þá skuli honum að vísu gefinn kostur á landi til nýbýlisstofnunar, en ekkja hans skuli þegar í stað greiða fullt eftirgjald, ef hann fellur frá t. d. á sjálfu flutningsárinu.

Mér gefst ekki tími til þess að ræða verulega um 6. kafla. Ég hefi áður bent á ýmsar vansmíðar á honum, eins og t. d. það, að í 50. gr. er vísað í ákvæði í 43. gr., sem nú eru a. m. k. ekki til í gr., þó að þau kunni að hafa verið til í einhverju frumuppkasti að frv. Þá verð ég að álíta, að í 51. gr. sé allósanngjarnt ákvæði. Þar segir, að ef ríkið telur sig þurfa á erfðaleigulandi að halda, sem leigutaki hefir tekið við í órækt og fullræktað, þá eigi hið opinbera kröfu á landinu gegn bótum eftir mati, en frá því mati eigi að draga allan þann opinbera styrk, sem veittur hefir verið til ræktunarinnar. Nú er það kunnugt, að fasteignamat á ræktuðu landi er víða á landinu a. m. k. ekki hærra en svo, að það nemur ekki meira en ræktunarkostnaðinum, og varla það. Ég hygg, að hér þurfi að koma til meiri sanngirni. Hér þyrfti að vera til undantekningarákvæði. Við gætum t. d. hugsað okkur, að leigutaki hefði tekið á leigu erfðaleiguland í nánd við kauptún, þar sem svo hagaði til, að sjór bryti verulegan hluta af landinu, og segjum, að leigan næði til 75 ára, eins og gert er ráð fyrir í núgildandi jarðræktarlögum; sjórinn getur þá verið búinn að taka væna sneið af erfðaleigulandinu áður en landið er tekið af honum. Á þá að draga frá matsverði allan þann opinbera styrk, sem veittur hefir verið til þeirra jarðræktarmannvirkja, sem komin eru í sjóinn? Þetta er aðeins dæmi, sem sýnir, hversu hroðvirknislega er gengið frá ákvæðunum um þetta atriði, og sama er að segja um mörg önnur atriði frv. Annars kemur þessi ósanngirni einkennilega fyrir sjónir, þar sem ræktendum í kaupstöðum er annars hlíft við þeim kvöðum, sem lagðar eru á jarðabótamennina í sveitunum skv. 17. gr.

Ræktendum í kaupstöðum er yfirleitt hlíft við þeim kvöðum, sem lagðar eru á sveitabændurna. En þarna eru örfáir einstakir kaupstaðaræktendur teknir út úr og leiknir engu síður hart en þó þeir væru sveitamenn. Það er einkennileg réttarhugsun, að gera engum ræktanda erfðaleigulands að skila aftur fengnum jarðræktarstyrk, eins og sveitabændunum, — nema þeim einum, sem landið er tekið af líka!

Þá má benda á það, að hvergi er í frv. gert ráð fyrir því, að nein skrá sé haldin yfir styrk til ræktunar á erfðaleigulöndum, eða öðrum ræktunarlöndum í eða við kaupstaði, heldur aðeins yfir styrk til ræktunar á sveitabýlum, sbr. 11. gr. 1. mgr. Ætli það verði þá ekki stundum leit úr því að finna styrkinn til þessara einstöku ræktunarlanda, sem ríkið eða einhver annar opinber aðili kann að vilja taka í sínar hendur, eftir t. d. 50 til 100 ár? Þá á þó sá, sem þá kann að hafa landið, að skila öllum ræktunarstyrknum, þó að skurðir hafi verið saman fallnir og uppgrónir og ræktun úr sér gengin áður en hann tók við landinu, eða hlaða fallin og haughús og girðingar úr sér gengið áður en hann varð eigandi.

Þetta eru líklega einhverjar leifar af frv. eins og það var í frummynd sinni, eins og hæstv. landbrh. vildi hafa það, áður en honum réttsýnni menn í hans flokki, eins og hv. þm. Mýr., fóru að reyna að kara fóstur hans. Það hefir líklega átt að vera barnshuggun fyrir ráðh. að lofa þessu að standa í frv. Þannig er þessi gr., eins og svo margar aðrar, áberandi fyrir hroðvirkni.

Annars er frv. og öll aðferð við þessa lagasetningu rétt eins og sagt er í sögunni um það, þegar Rússakeisari fyrirskipaði, að leggja skyldi járnbraut frá Pétursborg til Moskva. Verkfræðingarnir spurðu hinn einvalda keisara að því, hvar járnbrautin ætti að liggja, og keisarinn gerði blýantsstrik fríhendis á kortið og sagði, að þarna ætti hún að liggja. Verkfræðingarnir fóru algerlega eftir skipun hins alvalda keisara og tóku ekkert tillit til þess, þó að þarna, sem blýantur keisarans hafði hlaupið yfir landabréfið, væru hólar og hæðir eða forir og kviksyndi. Ekkert var um það hugsað, hvar hentugast væri að leggja brautina. Það var ekki skynsemin eða verksvitið eða landslagið, sem þar átti að ráða, heldur blýanturinn keisarans. Það virðist vera sama stefnan að baki þessarar löggjafar, sem hér á að framkvæma. Hér er þetta eins. Allt hefir átt að gera eftir valdboði einvaldans, en víða ekkert tillit tekið til hins praktíska lífs eða staðreynd, þess.

Frv. ber þessa enn merki, jafnvel þótt sumir flokksmenn hæstv. landbúnaðarráðh. hafi í hv. Nd. gert tilraun til að umbæta frv. dálítið.

Ég ætla ekki að eyða tíma til þess að tala um síðasta kaflann. Í 56. gr. virðist blandað saman afbrotum, sem varða sektum og afbrotum, sem varða refsingum. Ég er ekki lögfræðingur og hætti mér því ekki út á þann ís að fara að tala um þetta. En ekki held ég, að það sé venjulegt orðalag að kalla sektir refsingar, þótt vera megi, að mínu leikmannsviti fatist um þetta atriði. Hér er og talað um refsingar, sem trúnaðarmaður eða annar starfsmaður Búnaðarfélags Íslands á að sæta, ef hann brýtur erindisbréf sitt. En reglur þær, sem þessum starfsmönnum eru settar í erindisbréfi, eru fleiri en þær, sem varða þessi lög, og því verður 2. mgr. 56. gr. ambaga eins og hún hljóðar í frv. Hér stendur í 2. mgr. 56. gr.:

„Brjóti trúnaðarmaður eða annar starfsmaður Búnaðarfélags Íslands þær fyrirskipanir, er honum eru settar í erindisbréfi“, o .s. frv. „skal hann sæta sömu refsingu og að ofan getur, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.“

Eins og mrg. hljóðar getur hún átt við hvaða starfsmann Bf. Ísl. sem vera skal, t. d. nautgripa- og sauðfjárræktarráðunautinn. En hann starfar ekki að framkvæmd jarðræktarlaganna, svo kunnugt sé.

Í ákvæðum til bráðabirgða er svo að orði komizt, að þegar lög þessi hafi öðlazt staðfestingu, skuli landbrh. hlutast til um, að stjórn Bf. Ísl. kveðji búnaðarþing til aukafundar til ákvörðunar um þær skipulagsbreyt., sem þessi lög gefa tilefni til. Ég veit ekki til þess, að heimilt sé, að Bf. Ísl. megi breyta skipulagi sínu eða lögum á aukafundi. Mér er óhætt að fullyrða, að slíkt er ekki löglegt að gera nema á aðalbúnaðarþingi, sem ekki er fyrr en að ári. Þetta ásamt ýmsu öðru sýnir, að frv. er ekki svo vel undirbúið sem skyldi. Ég skal engu spá um það, hvernig Bf. Ísl. tekur í þessar breytingar. En a. m. k. eitt búnaðarsambandið hefir þegar látið álit sitt í ljós. Önnur búnaðarsambönd hafa ekki haldið fund síðan frv. þetta kom fram. Búnaðarsamband Vestfjarða gerði um daginn á aðalfundi sínum svo hljóðandi samþykkt:

„Vegna hinna miklu breytinga á gildandi lögum, er jarðræktarlagafrumvarp Jörundar Brynjólfssonar felur í sér, skorar aðalfundur Búnaðarsambands Vestfjarða fastlega á Alþingi að fresta afgreiðslu málsins á þessu þingi, svo búnaðarþingi og búnaðarsamböndum gefist kostur á að athuga frv.“

Ég verð að segja það, að þessi samþykkt er ekki að ófyrirsynju fram komin, og mikið má vera, ef fleiri búnaðarsambönd vildu ekki svipaðar samþykktir gert hafa, ef þau hefðu getað komið á fundi síðan frv. þetta varð kunnugt.

Ég tel það alveg óforsvaranlegt að afgr. þetta mál án þess að bændum og búnaðarfélögum gefist kostur á að athuga þær miklu breytingar, sem hér á að gera á jarðræktarlögum, m. a. um afstöðu búnaðarfélagsskaparins í landinu. Slík afgreiðsla myndi minna allt of mikið á járnbrautarlagningu Rússakeisara. Hún myndi minna allt of mikið á einræði keisarastjórnarinnar gömlu, á fasisma og nasisma eða þá ofbeldisstjórnarfar kommúnismans. Ég vil því leyfa mér að lesa upp svo hljóðandi rökst. dagskrá frá mér og hv. 2. þm. Rang.:

„Þar sem frv. gerir grundvallarbreytingu á skipulagi Búnaðarfélaga Íslanda og á styrkveitingum samkv. jarðræktarlögunum, en bændum og búnaðarfélagsskap landsins hefir eigi gefizt kostur á að athuga breytingar þær, er í frv. felast, þá telur deildin eigi rétt að afgreiða málið á þessu stigi og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þessa rökst. dagskrá skal ég leyfa mér að afhenda hæstv. forseta með tilmælum um, að hann, að lokinni þessari umr., beri hana undir atkv. hér í þessari hv. deild.