08.05.1936
Efri deild: 68. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (1802)

120. mál, jarðræktarlög

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Hv. 2. þm. Rang. sagði hér nokkur orð um þetta frv., sem hér liggur fyrir, og gekk ræða hans öll í þá átt að andmæla því, að frv. yrði samþ. — Fyrsta atriðið, sem hann fann þessu máli til foráttu, var það, að meðferð þess hér á þingi væri óvenjuleg og jafnvel óverjandi. Hann vefengdi ekki að vísu, að frv. mundi vera vel undirbúið áður en það var lagt fyrir Alþingi, en taldi hinsvegar, að sá tími, sem þingið, og þá sérstaklega þessi hv. d., hefði fengið til þess að athuga frv., væri of stuttur. — Ég lét þau ummæli falla við 2. umr. frv., og ég álít, að þau séu rétt, að þó að frv. liggi fyrir þinginu langan tíma, þá sé venjan sú, að þingtíminn sé ekki notaður til þess að rannsaka þau, nema þegar þau koma fram, og þá eru þau venjulega sett í nefnd og athuguð þar. Þessu máli var útbýtt jafnt í þessari d. eins og hv. Nd., svo að sá tími, sem þingið hefir haft þetta mál til meðferðar, hefir jafnt verið til umráða fyrir þessa hv. d. og hv. Nd.

Ég geri ráð fyrir, að þetta mál sé þannig vaxið, að hv. þm. hafi þann áhuga fyrir því, að þeir hafi tekið málið strax til athugunar og yfirlestrar, þegar það var lagt fram. Enda sýna þær umr., sem þegar hafa farið fram um málið í blöðunum, að menn utan þings hafa haft tíma til þess að kynnast málinu. Og umr., sem fram hafa farið um málið á þingi, sýna og sanna, að hv. þm. hafa haft tíma til þess að kynna sér málið ýtarlega. Ég hefi líka bent á það, og þarf ekki að endurtaka það nú, að hér er aðeins verið að breyta löggjöf, sem búið er að framkvæma í milli 10 og 20 ár og flestir hv. alþm. og mjög margir utan þings hafa áhuga fyrir og hafa myndað sér skoðun um.

Þá var minnzt á það, að ekki væri þörf á að hraða frv. svo mjög, vegna þess að flest atriði þess eigi ekki að koma til frumkvæmda fyrr en eftir 2 ár. Um þetta atriði er það að segja, að hvenær sem breyt. yrði gerð á jarðræktarlögunum, þarf sú breyt. eðlilega nokkurn undirbúning, til þess að hægt sé að framkvæma hana. Jafnframt er bent á, að þetta frv. hafi ekki verið sent til umsagnar og athugunar Búnaðarfélagi Íslands, og jafnvel búnaðarsamböndunum, sem helzt ættu að segja álit sitt um þetta mál. Frv. var að vísu sent til Bf. Ísl., sem hefir svarað heiðni um umsögn á þann veg, sem fyrir liggur.

Það er bent á það í þessu sambandi, að frv., sem hér var lagt fram á þinginu um vinnulöggjöf, hafi verið sent þeim samtökum, sem þar áttu hlut að máli, og sé samtökum bænda þannig gert lægra undir höfði heldur en samtökum verkamanna. En þessu er því til að svara, að þar er um nýja löggjöf að ræða hér á landi, en um jarðræktarlögin liggur hinsvegar fyrir um 10 til 20 ára reynslu og að hér á aðeins að gera breytingu á jarðræktarlögunum í samræmi við þá reynslu, sem fengizt hefir, — reynslu, sem í öllum höfuðatriðum a. m. k. er saman söfnuð hjá þeim mönnum, sem hafa undirbúið þetta mál. Þess vegna er allt öðru máli að gegna um þessa breyt. á jarðræktarlögunum heldur en nýja löggjöf, sem á að fara að setja um vinnudeilur, þar sem engin reynsla liggur til grundvallar, hvað þá heldur milli 10 og 20 ára reynsla eins og hér.

Eins hefir verið á það bent af hv. 2. þm. Rang., að það eigi að svipta Bf. Ísl. sínu sjálfstæði með því að leiða í lög þau ákvæði, sem gert er ráð fyrir með þessu frv. að verði leidd í lög. Ég minntist á þetta svo rækilega við 2. umr. málsins, að ég tel ekki þörf á að endurtaka það nú. En ég vil þó aðeins í stuttu máli benda á það, að í milli 10 og 20 ár hefir Bf. Ísl. orðið að hlíta því, að landbúnaðarnefndir Alþingis, eða réttara sagt landbrh. eftir till. landbúnaðarnefnda skipaði meiri hl. í stjórn félagsins og réði framkvæmdarstjóra, sem voru hafðir tveir þrátt fyrir eindregin mótmæli bænda. Þannig gekk það ár eftir ár, að þingið lét skipa stjórnina og ekki aðeins ráða búnaðarmálastjórana, heldur og starfsmenn. Og Bf. Ísl. réð ekki öðru en því að samþ. sína fjárhagsáætlun, sem það þó varð að leita til Alþingis um samþykki á. M. ö. o., það er ekki hægt að mótmæla því með nokkrum rökum, að Bf. Ísf. og búnaðarþing var gersamlega háð Alþingi og þeirri stj., sem landbrh. að tilhlutun landbúnaðarnefnda þóknaðist að skipa því á hverjum tíma. Þetta gilti ekki aðeins um málefni, sem búnaðarfélagið fór með í umboði ríkisvaldsins, heldur öll einkamál búnaðarfélagsins sjálfs.

Það, sem nú er gert, eins og liggur greinilega fyrir í frv. og ekki þarf að deila um, er það, að veru skuli einn sameiginlegur framkvæmdarstjóri, búnaðarmálastjórinn, sem á að framkvæma ýms málefni, sem búnaðarfélagið fer með í umboði ríkisstj., og jafnframt vera framkvæmdarstjóri fyrir búnaðarfélagið sjálft í þess málefnum. Búnaðarmálastjórinn á, eins og eðlilegt er, að vera skipaður með samkomulagi beggja þeirra aðilja, sem hann á að vera framkvæmdarstjóri fyrir. Og vitanlegt er, að þar sem búnaðarþing á að skipa sjálfu sér stjórn og á að ráða að öðru leyti yfir sínum málefnum, eins og greinilega er tekið fram í frv., þá skipar þessi stjórn vitanlega búnaðarmálastjóranum fyrir verkum um öll þau málefni, sem búnaðarmálastjóri framkvæmir í umboði þessarar stj., sem fer með vald búnaðarþings. Ég get ekki betur séð en að sá búnaðarmálastjóri, sem neitar að hlýða þessum fyrirskipunum, geri þannig fyrir sér, að hann hafi ekki lengur tiltrú þeirrar stj., sem honum skipar fyrir verkum, og þá er ekki nema um eitt að ræða fyrir hann, og það er að láta af störfum. — Um 99% af þeim málefnum, sem Bf. Ísl. fer með í umboði ríkisstj., geri ég ráð fyrir, að búnaðarmálastjóri og búnaðarfélagsstj. yrðu sammála um, ef þá ekki um öll þau málefni, og það hefir ekki borið á því, þó að búnaðarmálastjóri sé ekki skipaður eftir samkomulagi milli landbrh. og búnaðarfélagsstj., að það hafi komið ágreiningur milli félagsstj. og hans, sem leitt hafi til nokkurra vandræða í félaginu, því að ágreiningur hefir yfirleitt ekki verið milli þessara aðilja, a. m. k. ekki þannig, að þeir hafi fundið ástæðu til þess að skjóta honum til mín. Ég veit ekki til, að ágreiningur hafi nokkurntíma orðið verulegur. En nú er því haldið fram, að ef ágreiningur verður og þeir aðiljar, sem framkvæmdin kemur fram við, er búnaðarfélagsstjórnin gerir í umboði ríkisstj., þá geti þeir aðiljar áfrýjað til landbrh. Þetta er ekki annað en eðlilegt öryggi, sem ríkisvaldið óskar eftir að hafa viðvíkjandi þeim framkvæmdum, sem það fær öðrum aðilja í hendur. Ég get sannast sagt ekki séð eða skilið, að þetta geti á nokkurn hátt skert rétt félags eða einstaklinga í félagi, sem fengnir eru til þess að framkvæma málefni, sem annar aðili á að fara með að lögum. Ég hefi hingað til álitið, að það væri heldur til þess að auka vald þess aðilja, sem umboðið er fengið í hendur. Það verður þess vegna ekki hægt að sannfæru neinn um það, að vald búnaðarfél. hafi verið skert með þessum ákvæðum í frv., því að þvert á móti verður stórkostlega aukið frelsi þess, og það á þann veg, að félagið er gert sjálfstætt um öll málefni, sem það fer með fyrir sjálft sig og um þau mál, sem það fer með í umboði ríkisstj. gildir þessi áfrýjunarréttur til öryggis. Ég álít, að þetta sé ákaflega mikilsvert, að leiða þetta í lög, vegna þess að eftir að þær takmarkanir voru gerðar á frelsi Bf. Ísl., sem gerðar voru með jarðræktarlögunum frá 1923, voru uppi meðal ýmsra ákaflega sterkar raddir um það að breyta til um Bf. Ísl. á sama veg og gert var í Danmörku og Noregi. Má í því sambandi benda á till. Sigurðar Sigurðssonar búnaðarmálastjóra, sem hann bar fram á búnaðarþingi 1933. Þar voru leidd rök að því, að búnaðarfél. yrði lagt niður sem aðili, er framkvæmdi nokkuð fyrir ríkisvaldið. En Sigurður búnaðarmálastjóri stakk hinsvegar upp á því, að búnaðarmálastjóri stæði beint undir valdi landbrh. á sama hátt og vegamálastjóri og landssímastjóri, og að öll málefni, sem Bf. Ísl. væri falið að fara með í umboði ríkisstj., þyrfti aldrei að bera undir stjórn Bf. Ísl. — Ég bendi á þetta til þess að sýna, í hvað mikilli hættu Bf. Ísl. var, þegar núv. stjórn tók við, og hvað mikilsvert er að geta lögleitt slíkt frelsi fyrir Bf. Ísl. Ég hefi verið og er á þeirri skoðun, að það sé heppilegast eins og er í frv., að búnaðarfél. fari bæði með þau mál, sem það hefir sjálft með höndum, og þau, er það fer með í umboði ríkisvaldsins, aðeins með þessum litlu takmörkunum til öryggis. Með því álít ég tryggt fyrst um sinn, að ekki verði haldið áfram á þeirri braut, sem byrjað var á að ganga og búið að ganga svo langt, áður en núv. ríkisstj. tók við, og leit út fyrir, að haldið yrði áfram á, eins og ég hefi bent á í sambandi við tillögu Sigurðar Sigurðssonar fyrrverandi búnaðarmálastjóra, sem lögð var fram á búnaðarþinginu 1933.

Um kosningarnar skal ég ekki fara mörgum orðum, vegna þess að ég minntist á þær nokkrum orðum áðan. En ég vil aðeins benda á það, hvernig mönnum mundi þykja, ef farið væri að leiða í lög, að t. d. sýslunefndirnar ættu að kjósa alþingismenn. Fyrst ættu kjósendurnir heima í héraðinu að kjósa sýslunefnd og síðan ætti hún að útnefna alþingismenn. En það er ekki slíkt, sem er verið að gera hér, heldur einmitt það gagnstæða. Það er með þessu frv. verið að veita bændum beinan kosningarrétt, og ég vil aðeins spyrja: Hvers vegna mega bændur ekki fá beinan kosningarrétt, þegar þeir velja til búnaðarþings fulltrúa, sem eiga að fara með þau málefni, sem bændur varðar mestu um? Þetta er atriði, sem ég sé ekki, að sér hægt að mæla í gegn. Ég sé ekki betur en að beinn og frjáls kosningarréttur sé fyrst og fremst bændum í hag, því að þeir eiga mikið undir því, hvernig búnaðarþingið er skipað.

Ég fæ sannast sagt ekki séð, á hverju þau mótmæli eru byggð, að bændur megi ekki hafa beinan kosningarrétt, og mér sýnist gilda sama um þetta atriði og kosningar þeirra manna, sem að öðru leyti fara með umboð þjóðarinnar. Mér virðist eins miklu skipta fyrir bændur að hafa beinan kosningarrétt í þessu efni eins og við almennar kosningar.

Um hitt atriðið, að styrkurinn megi ekki vera ójafn, vil ég aðeins segja það, að sú ívilnun sem jarðræktarlögunum frá 1923 var ætlað að veita bændum almennt, hefir ekki náð til þeirra bænda, sem búið hafa á leigujörðum við léleg kjör. Til þess að sannfærast um, að þetta sé rétt þarf ekki annað en líta yfir þær jarðir í landinu, sem þannig ábúð hefir verið á, og sjá hversu mjög þær hafa orðið útundan með allar umbætur. Og það er ekki fyrr en með lögunum um erfðaábúð og óðalsrétt, og svo með þeirri breytingu á jarðræktarlögunum, sem hér liggur fyrir, að þessi olnbogabörn eiga að geta fengið aðstöðu til þess að njóta réttinda þessara laga eins og aðrir. Annars er það svo, að fyrstu framkvæmdirnar á sviði jarðræktarinnar eru alltaf erfiðastar, en þegar menn eru búnir að framkvæma töluvert, er jafnan nokkuð hægara um vik, því að þá fara fyrstu jarðabæturnar að gefa nokkurn arð, eða a. m. k. að standa undir sér sjálfar.

Það hefir allmikið verið rætt um 17. gr. frv., og þarf ég ekki miklu að bæta við það, sem þar hefir verið sagt. — Hv. 10. landsk. virtist við 2. umr. vera mér sammála um það, að það væri nauðsynlegt að koma í veg fyrir, að sú verðhækkun jarðanna, sem stafaði af ríkissjóðsstyrknum, lenti á þeim, sem jarðirnar keyptu eða tækju við þeim til ábúðar. Og ég býst jafnframt við, að flestir bændur líti svo á, að það sé ekki réttmætt að láta þá byrði lenda á komandi kynslóðum. Það, sem okkur hv. 10. landsk. bar því á milli í þessu efni, var það, að hann vildi láta þetta renna í sérstakan eða annan sjóð en ég tel rétt, að það renni. Mér finnst ekkert eðlilegra en að þessi verðhækkun jarðanna verði látin verða hlutaðeigandi sveitarsjóði til hagsbóta, því að ég sé enga ástæðu til þess, að t. d. bændur, sem hætta að búa, en hafa fengið allmikið fé frá ríkinu í styrk fyrir unnar jarðabætur, stingi á sig þeim sjóði. Því verður tæplega með rökum í móti mælt, að það eðlilegasta er, að þessi sjóður verði eftir í sveitinni.

Ég held, að það sé svo ekki öllu fleira, sem ég þarf að svara að þessu sinni. Umr. hafa snúizt um sömu atriðin aftur og aftur: Hversu málið sé illa undirbúið, hve stutt Alþingi hafi fengið að hafa það til meðferðar, um 17. greinina, og síðast, en ekki sízt, um reglurnar fyrir skiptingu jarðabótastyrksins. Þó að ég færi nú að fara nokkru nánar inn á þessi atriði, myndi það ekki verða nema endurtekning á því, sem ég hefi áður sagt, og læt ég því máli mínu lokið.