11.03.1936
Neðri deild: 21. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

32. mál, landssmiðja

Jón Ólafsson:

Hv. frsm. meiri hl., 1. landsk. þm., gaf mér tilefni til að segja hér nokkur orð út af því, sem hann minntist viðvíkjandi ályktun þeirri, er síðasta fiskiþing lét frá sér fara um væntanlegt mótorsmíði hér á landi. Sú ályktun, sem hér um ræðir, ber það ótvírætt með sér, að til hennar hefir ekki verið vandað. Allar rannsóknir á aðalatriðum málsins gersamlega forsmáðar, ekki svo mikið sem talað hafi verið við innlenda fræðimenn í þessum efnum, auk heldur að leitað hafi verið upplýsinga utanlands.

Það hefir verið bent á, að fyrsta skilyrðið væri að flytja inn vinnu við smíði vélanna, en mér er sagt, að ekki sé meiningin að svo komnu að vinna að steypu á vélhlutum, og þá heldur ekki mótursmíði, en einmitt þetta tvennt skapar mesta vinnu. Kunnugt er, að hér á landi eru notaðar margar tegundir mótora, jafnvel svo tugum skiptir. Þeir, sem smíða þessa mótora erlendis, eiga vitanlega mót að hverju stykki, sem þeir hafa framleitt. Það mundi því aldrei þola samkeppni, sem kynni að verða framleitt hér af mótorhlutum, og myndi því aðeins bera sig með því einu, að getin væri einkaréttur til sölu, þ. e. bannaður yrði innflutningur á öllu því í þessari iðn, sem framleiða mætti hér á landi, og þannig skattleggja þá, sem máske sízt mega við því, sem sé útgerðina.

Mér finnst fólgin í frv. þessu mikil hætta fyrir útveginn, ef þekkingarlausum mönnum er ætlað að ráðast í slíka smíði, án þess nokkur vissa sé fyrir, hvort fáist minnsti sparnaður á gjaldeyri, og e. t. v. ekki einn eyrir í vinnu. Það eru nú orðin mörg dæmi þess, að menn hafi byrjað með iðnaðarfyrirtæki og fengið síðan vernd fyrir þau, til að standast erlenda samkeppni, þó að hráefnin hafi kostað oft eins mikið í gjaldeyri eins og fullunnin vara. Ég vil því benda á, að þetta mál þarf vel að athuga, áður en sett er í lög, að smíða skuli mótora hér á landi.

Þá vil ég benda á sem óhrekjandi staðreynd, að fyrirtæki einstaklinganna sækjast eftir fullkomnum fagmönnum, til að vera samkeppnisfær og geta yfirunnið þá, sem miður kunna og eru afkastaminni. Því það er nú svo, að það getur borgað sig að greiða jafnvel tvöfalt kaup til að tryggja sér góða starfskrafta; það hefir reynslan sýnt.

Nú er það gefinn hlutur, að í ríkisfyrirtæki sækja þeir menn, sem verða útundan í samkeppni um vinnu, og er ekki dæmalaust, að þeir gerist flokksmenn þeirra flokka, sem yfirráð hafa í ríkisfyrirtækjum, — gildir það jafnt, hvaða flokkur sem með þau fer —, og sjá allir, hvílík hætta þetta hlyti að vera fyrir framþróun iðnaðarins. Þetta er ekki eftirsóknarvert ástand.

Að lokum vil ég endurtaka það, hvílík hætta getur í því legið fyrir atvinnuvegina, þ. e. fiskveiðarnar, ef á að fá pólitískri stofnun vald í hendur til að skattleggja þá, eins og getur falizt í þessu frv. Þarf miklu fremur að styðja útveginn og hlífa honum en að leggja hann í þvílíka hættu.