11.03.1936
Neðri deild: 21. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (1816)

32. mál, landssmiðja

Guðbrandur Ísberg:

Það hefir allmikið verið á það minnzt, að það kenndi pólítíkur í þessu máli. Frá mínum bæjardyrum séð, þá furðar mig ekkert á því, þó að á slíkt sé minnzt, því að með þessu frv. er ráðizt inn á einstaklingsframtakið á enn einu sviði athafnalífs íslenzku þjóðarinnar. Við þekkjum það allir og vitum, að það er tiltölulega stutt síðan ríkisvaldið hreyfði sig fyrst í þessa átt, og það var fyrst gert á verzlunarsviðinu. Á stríðsárunum var byrjað að hafa ríkiseinokun á verzlun. Því var hætt aftur að mestu, og þó lengst af haldið í einhverri mynd síðan. En nú á síðustu árum hefir verið stigið áfram hröðum skrefum á þessari braut.

Með stofnun landssmiðjunnar er tekið fyrir nýtt svið atvinnulífsins til að leggja það undir ríkisrekstur, sem sé iðnaðurinn. Hingað til hefir þó landssmiðjan haft sitt takmarkaða verksvið, aðallega bundið við smíði brúa og annars, sem hefir þurft við verklegar framkvæmdir hins opinbera. En nú er farið fram á, að lögfest verði, að hún skuli hafa hverskonar almennu járnsmíði, og þá auðvitað í fullri og harðvítugri samkeppni við hliðstæð einkafyrirtæki.

Höfundur þessa frv. — ég býst við, að ég megi telja, að hv. þm. Hafnf. sé það — hann orðar það svo, að höfuðtilgangur frv. þessa sé að skapa þá festu um landssmiðjuna, sem ekki hafi áður verið. — Hvað er nú hér á ferðinni? — Það er ekki fyrst og fremst um það að ræða að gefa vísbendingar um það, hvað sé hagkvæmast, að landssmiðjan hafi með höndum. Um það hefir hún frjálst val, eins og hingað til. En hér á að skapa henni þá sérstöðu á kostnað einstaklinga, að þegar hana vantar verkefni, þá geti hún tekið það frá öðrum. (EmJ: Þetta er rangt). Nei. því að hv. þm. Hafnf. undirstrikaði það, að það væri engan veginn víst, að hér væri um nýja atvinnu að ræða, heldur tilfærslu á atvinnu. Þetta er alveg rétt. Það gæti verið um tilfærslu á atvinnu að ræða, þannig að í stað þess að landssmiðjan hefir fasta 30 menn í vinnu, gæti hún haft 60–100 menn í fastri vinnu, með því að taka vinnuna frá öðrum, án þess að skapa nein ný verkefni fyrir menn.

Til þess að hægt sé að mæla með þessu frv. á þeim grundvelli, að æskilegt sé, að nýsköpun komi fram á iðnaðarsviðinu, þá þarf a. m. k. að færa einhverjar líkur fyrir því, að með þessu fyrirkomulagi, sem í frv. getur, verði framkvæmdum í þágu þeirrar stefnu betur borgið. Nú höfum við á undanförnum árum, og sérstaklega á síðustu árum, haft það fyrir augum, að einstaklingsframtakið hefir gert byltingar í íslenzkum iðnaði í framfaraátt, og það með ótrúlegum hraða. Ég vil út frá því draga þá ályktun, að þessari nýsköpun í íslenzkum iðnaði, að svo miklu leyti, sem hún er æskileg og kann að borga sig, sé langbezt borgið í höndum einstaklinga, eins og iðnaðurinn hefir verið hingað til. Og í raun og veru er frv. sjálft sönnun þess. Því að hvers vegna þarf að skapa landssmiðjunni fríðindi og varnir á alla kanta vegna þessarar nýsköpunar, ef ekki til þess einmitt að standa betur að vígi en einstaklingar og til þess, að landssmiðjan geti keppt við einstaklinga, sem annars væri hætta á, að hún gæti ekki?

Ég vil benda á það, að í grg. þessa frv., eins og það var flutt á síðasta þingi, var það einmitt undirstrikað, að það hefði nú farið svo, að landssmiðjan hefði ekki verið samkeppnisfær við einstaklingsfyrirtæki. Og þá er nú sannarlega langt gengið, þegar í grg. fyrir frv., sem á að sýna ágæti þessarar nýju stefnu, er samtímis neyðzt til að játa þetta. Þetta er orðað þannig í þessari grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Eitthvað kann þetta að hafa staðið í sambandi við þá staðreynd, að tilboð landssmiðjunnar hafa stundum reynzt óaðgengilegri en tilboð frá einkafyrirtækjum.“

Það er ekki hægt að kveða öllu fastar á um þetta. Og þetta er nú á meðan landssmiðjan er starfrækt „ólögbundin“, eins og hv. þm. komst að orði. En nú á að tryggja með löggjöf, að hægt sé að ganga inn á svið einstaklinga ákveðnar heldur en gert hefir verið áður og tryggja þessu iðnfyrirtæki velvegnan á þann hátt.

Það er nú búið að segja margt um þetta frv., og hv. þm. V.-Sk. tók þar margt réttilega fram. Hefi ég ekki miklu við að bæta hans ýtarlegu ræðu. Ég vil þó benda á atriði, sem fram kom hér í umr. og lögð var sérstök áherzlu á af hv. þm. Hafnf. Samtímis því að hann játar, að engan veginn sé víst, að það yrði nema tilfærsla á atvinnu, sem ákvæði frv. mundu kom, til leiðar, þá undirstrikar hann, að hér sé þó um að ræða að afla atvinnu. Já, ég get vel skilið, að þeir menn, sem vinna við landssmiðjuna, vilji gjarnan tryggja sína atvinnu, ekki sízt vegna þess að hún hefir ekki reynzt samkeppnisfær. Þessir 30 menn vilja gjarnan fá tryggða ársatvinnu, og ef ekki vill betur til, þá á kostnað annara atvinnufyrirtækja. Þannig gæti verið um að ræða öflun atvinnu handa þessum mönnum, þó að ekki væri um annað að ræða en tilfærslu á atvinnu. Það geta líka orðið aðrir 30 menn, sem mjög gjarnan vilja komast að launakjörum, sem veita laun, er fara langt fram úr launum fastra embættismanna ríkisins. Mér dettur ekki í hug að kasta steini á menn, sem gera vilja þessar kröfur um auka, atvinnu og tryggingu hennar. En þegar hv. þm. rekur erindi þessa flokks manna, þá á hann að segja það hreinlega, en ekki að segja: „Við erum að vinna að heill alþjóðar með þessu máli.“

Þróun íslenzks iðnaðar síðustu árin er sönnun þess, að okkar iðnaði er bezt borgið í höndum einstaklinga, Það er því með öllu ástæðulaust, að ríkisvaldið fari að seilast inn á það svið.