02.05.1936
Sameinað þing: 16. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

105. mál, fjáraukalög 1935

*Hannes Jónsson:

Á síðasta þingi hreyfði ég nokkrum aths. um samningu fjáraukalagafrv. Ég hefi ekki haft tíma til, vegna lasleika, að ganga frá athugun á samningu fjáraukalagafrv. fyrir árið 1934, sem verið var að samþ. áðan. En að því er snertir fjáraukal. fyrir 1935 vil ég beina því til hæstv. fjmrh., hvort ekki sé rétt að hætta við þá reglu, sem höfð hefir verið við samningu frv., því að hún er í rauninni eftirlegukind frá gömlum tímum. Þá var það eðlilegt, að teknar væru upp í þessi l. fjárveitingar, sem áttu að fara fram síðar. En hér er um greiðslur að ræða, sem búið er að inna af hendi. Hér er aðeins tekið á nokkrum umframgreiðslum sem fram hafa farið. Mér sýnist því óþarfi að leggja fyrir slíkt frv. sem þetta og vil því mælast til þess við hæstv. fjmrh., hvort hann vilji ekki athuga, hvort ekki sé kominn tími til að afnema þessa úreltu aðferð. Hér hafa heldur ekki verið teknar upp allar þær greiðslur, sem ekki eru lagafyrirmæli fyrir. Mér finnst því, að þær greiðslur, sem upp eru teknar í frv. þetta, megi bíða, eins og aðrar, þar til endanleg fjáraukalög verða borin fram fyrir þetta ár.