16.03.1936
Neðri deild: 25. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (1830)

32. mál, landssmiðja

*Jakob Möller:

Ég þarf ekki að tala langt mál fyrir þessari till. Það var í raun og veru um hana rætt við 2. umr. málsins. Hún fer fram á, að það sé skýrt ákvæði í l. sjálfum um það, sem haldið hefir verið fram af hv. aðalflm. málsins, hv. þm. Hafnf., að opinber útboð skuli hafa á öllum opinberum verkum, sem til mála komi að láta landssmiðjuna vinna, og að hún sé því aðeins látin sæta þeirri vinnu, að hennar tilboð sé lægra en annara. Till. er í 2 liðum í samræmi við þau fyrirmæli, sem felast í 1. málsgr. 2. gr. Ég vænti þess eftir undirtektum hv. þm. Hafnf., að till. sæti ekki andmælum og geti orðið gott samkomulag um hana. Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið að þessu sinni.