16.03.1936
Neðri deild: 25. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í B-deild Alþingistíðinda. (1832)

32. mál, landssmiðja

*Jakob Möller:

Það kann að vera, að hv. þm. Hafnf. hafi að einhverju leyti rétt fyrir sér í því, að það sé nokkuð mikils krafizt af ríkinu, að það láti fara fram útboð á öllu, sem það lætur gera, hversu smátt sem það er. En það má nú gera ráð fyrir því, að ef t. d. væri um það að ræða að setja nagla í skip, sem fyrir kynni að koma, þá væri álitið, að l. næðu ekki til þess, vegna þess að það er ekki hægt að koma við útboði á ýmsu svona smávegis. Það er eðlilegast að skilja þessi fyrirmæli á þann hátt, eins og hv. þm. vék að, að þau ættu við, þegar um meiri háttar verk væri að ræða. Því að þó að stofnun hafi yfirleitt útboð á öllu, sem hún þarf að láta gera og kaupa, þá er alltaf margt, sem ekki er hægt að koma útboði við með, og yrði að sjálfsögðu eins með þetta. Það væri auðvitað eðlilegast, að ríkið léti ríkisstofnun sitja fyrir vinnu við þá hluti, en léti hinsvegar bjóða út alla meiri háttar vinnu. Auðvitað væri þetta dálítið varasamt, því að þetta ákvæði getur verið svo teygjanlegt. Það geta verið skiptar skoðanir um það, hvað sé meiri háttar og hvað minni háttar í þessu sambandi. Ég vildi gjarnan komast að samkomulagi við hv. þm. um það. Nei, það er í sjálfu sér algerlega í sjálfsvaldi ráðh. eftir sem áður, hvort hann lætur landssmiðjuna vinna verkið eða aðra. Munurinn er aðeins sá, að það er í dálítið öðru formi, sem í þessu tilfelli er það, að ráðh. eigi að skera úr, hvað sé meiri háttar og hvað sé minni háttar. Ég verð að segja, að mér finnst, að þetta vera bara undanfærslur hjá hv. þm. Hafnf. Ég verð að segja, að mér kemur þetta ekkert á óvart; ég minnist þess, að hv. þm. Hafnf. hafði svipuð orð um þetta á síðasta þingi, en þá kom svipuð till. fram, sem náði þó ekki fram að ganga. (EmJ: Till. frá í fyrra var tekin upp í frv. nú). Ég ætla nú til samkomulags að stinga upp á því, og mun koma með skrifl. brtt. við brtt. mína um þetta efni, og vona ég, að hv. þm. Hafnf. og þeir, sem honum fylgja, geti fallizt á þá breyt. Brtt. hljóðar svo: Tillagan orðist svo: og sannað með útboði, að svo sé, ef forstöðumaður hlutaðeigandi fyrirtækis eða stofnunar æskir þess. Ég vænti þess, að forseti gefi mér tækifæri til að koma með þessa skrifl. brtt.