01.04.1936
Efri deild: 39. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í B-deild Alþingistíðinda. (1847)

32. mál, landssmiðja

*Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Fjhn., sem hafði þetta mál til meðferðar, hefir ekki getað orðið á eitt mál sátt um afgreiðslu þess, og hefir n. klofnað.

Um nokkur ár hefir landssmiðjan starfað, og á þeim tíma, þegar hún var stofnuð, var það álitið nauðsynlegt, að ríkið ætti slíka viðgerðarstofu, þar sem ríkið rekur margvíslega starfsemi, sem útheimtir ýmiskonar viðgerðir og smíði, sem þarf að láta verkstæði inna af hendi. Það hefir sýnt sig, að þessi smiðja hefir undanfarin ár getað framkvæmt fyrir ríkið þessa vinnu með betri árangri en einstök fyrirtæki hafa getað og auk þess hefir smiðjan gefið dálítinn arð síðustu ár. Nú er ætlunin með þessu frv., sem hér liggur fyrir, að lögfesta ákvæði um þessa stofnun, og er það í rauninni það sama og gert er með

önnur ríkisfyrirtæki, og er ekki sízt þörf á því að festa landssmiðjuna á pappírnum, þar sem hún hefir þegar verið lengi við lýði.

Við, sem erum í meiri hl. fjhn., höfum mælt með þessu frv., en það gæti vel hugsazt, að fram kæmu brtt., sem við gætum fellt okkur við. Hv. 1. þm. Eyf. hefir áskilið sér sérstöðu, og mun hann gera grein fyrir því, ef hann álítur þess þörf, við þessa umr.

Þetta frv. ætlast til þess, að landssmiðjan annist smíði fyrir einstaklinga og félög og auk þess alla smiði, sem hún getur tekið að sér fyrir starfrækslu, sem ríkið hefir með höndum, og svo er gert ráð fyrir því, að landssmiðjan geti skipt við önnur fyrirtæki, sem styrkt eru með fé úr ríkissjóði, en vitanlega er ætlazt til þess, að sú vinna verði boðin út á frjálsum markaði, en hinsvegar er ekki gert ráð fyrir því, að svo verði gert að því er snertir smíði fyrir ríkisstofnanirnar.

Í 3. gr. frv. er heimilað að leggja landssmiðjunni fé til starfrækslunnar, og auk þess er gert ráð fyrir að afhenda henni lóð, sem er ekki annað en formið eitt, því að hún hefir slíka lóð. Það á aðeins að lögfesta það. Svo er ætlazt til þess, að landssmiðjan byggi smátt og smátt yfir sig og verði það fyrirtæki, sem geti innt af hendi fullkomna smíði, svo að ekki þurfi annað að leita.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. þar sem enn liggja ekki brtt. fyrir, og legg ég til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir, en samt gæti ég, eins og ég tók fram áðan, hugsað mér að vera með í því að gera einhverja breyt. á frv., en það verður þá athugað til 3. umr. málsins.