02.04.1936
Efri deild: 40. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (1850)

32. mál, landssmiðja

Bernharð Stefánsson:

Aðeins nokkur orð út af því, að ég hefi skrifað undir nál. meiri hl. á þskj. 248 með fyrirvara. Hv. frsm. meiri hl. boðaði það í n., að hann myndi flytja brtt. við frv. Ég vissi nú ekki, hvernig þær brtt. myndu verða eða hverja mynd frv. tæki á sig á síðustu stundu hér í d. vildi ég því ekki binda atkv. mitt og skrifaði undir með fyrirvara, bæði að því er snertir einstök atriði og málið í heild. En þessi fyrirvari minn gaf hv. 1. þm. Reykv. í gær tilefni til ýmiskonar hugleiðinga um stefnumál flokkanna í sambandi við þetta mál. Mér þótti þessar hugleiðingar hans ærið kyndugar. Virtist hann líta svo á, að afstaða nm. til þessa máls sýndi afstöðu flokkanna til ríkisrekstrar, en hún væri sú, að Alþfl. væri með ríkisrekstri, Sjálfstfl. á móti, en Framsfl. vissi ekki, hvar hann ætti að vera í málinu, og það væri mín afstaða. Ég sé nú ekki, að þetta frv. komi við spurningunni um ríkisrekstur. Landssmiðjan hefir verið til í mörg ár. Maður, sem verið hefir leiðtogi sjálfstæðismanna, átti forgöngu að stofnun hennar. Hér er þegar til landssmiðja. Hér er því bara um það að ræða að setja l. um rekstur hennar, en ekki að stofna neitt að nýju. Hv. þm. hefir ekki flutt frv. um að leggja landssmiðjuna niður. Því stenzt ekkert af því, sem hann var að segja. Annars tel ég, að afstaða Sjálfstfl. til ríkisrekstrar sé ekki eins ákveðin og hann vill vera láta, og raunar heldur ekki jafnaðarmannaflokksins, svo að ég held, að það fari hjá öllum flokkum nokkuð eftir ástæðum, hvenær þeir eru með ríkisrekstri. Hann nefndi sjálfur tvö atriði, þar sem Sjálfstfl. vill hafa ríkisrekstur, sem sé í póst- og símamálum, og býst ég við, að það nái einnig til fleiri hluta. Ég býst t. d. ekki við, að nokkur sjálfstæðismaður vilji hafa áfengisverzlun landsins í einstaklingsrekstri. Eins býst ég við, að enginn sósíalisti vildi hafa allt í ríkisrekstri. Svipað er þá að segja um Framsfl.

Ég er með ríkisrekstri, þegar starfsgreininni er þannig háttað, að ég tel hann hentugan, annaðhvort af því að koma þarf af stað nýjum atvinnugreinum, sem ekki er hægt að koma af stað á annan hátt, eða ekki líklegt að gert verði af einstaklingum. En með tilliti til þessa frv., sem hér liggur fyrir, vil ég taka það fram, að ég tel það sjálfsagt, úr því að landssmiðjan er komin upp og hefir verið starfrækt og gefizt vel, að hún þá haldi áfram og hafi það með höndum, sem ríkið þarf sérstaklega að láta vinna.

Að sjálfsögðu vil ég ekki leggja þann skilning í frv., og um það gildir meðal annars fyrirvari minn, að landssmiðjan eigi að keppa við atvinnufyrirtæki einstakra manna um smíði fyrir einstaklinga og félög. Ég finn heldur ekki neitt í frv., sem bendi á, að svo eigi að vera, þótt í 2. gr. sé svo ákveðið, að hún skuli annast smíði fyrir einstaklinga og félög, þegar þess er óskað, sem yrði í þeim tilfellum, þegar aðiljar teldu sér það betur henta eða landssmiðjan ein gæti innt það verk af hendi, sem þeir þyrftu að láta vinna. Sá hv. þm., sem gaf mér tilefni til þessara orða, er ekki viðstaddur, en eigi að síður gat ég ekki verið af því að láta þessi orð niður falla. (MJ: Ég er viðstaddur). Nú, er hv. þm. viðstaddur? Hann var þó fjarverandi áðan þegar greidd voru atkv. að viðhöfðu nafnakalli.