02.04.1936
Efri deild: 40. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (1855)

32. mál, landssmiðja

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það mál, sem hér liggur fyrir, er í raun og veru ekki annað en það, hvort heldur eigi að lögfest, það fyrirkomulag, sem nú er á landssmiðjunni, eða hvort ríkisstj. eigi að hafa ótakmarkað vald án l. til þess að reka hana eins og henni þóknast.

Eftir frv., ef að l. verður, eru ríkisstj. sett takmörk um, hvernig smiðjan skuli rekin. Ég skil þess vegna ekki í hv. 1. þm. Reykv. og öðrum þeim, sem ekki ætlast til, að landssmiðjan sé lögð niður, að vera á móti því, að sett séu með l. ákvæði um, hvernig ríkisstj. lætur reka fyrirtækið. Það ætti ekki að vera verra en láta ríkisstj. reka það alveg eftir eigin geðþótta. (MJ: Ég skal leggja prófstein á það við 3. umr.). Ég skal ekki fara mikið út í það, sem hv. 1. þm. Reykv. talaði um frjálsa samkeppni. En hann minntist á eitt atriði, sem var athyglisvert, að atvinnurekendurnir gerðu allt, sem í þeirra valdi stæði, til þess að lama hina frjálsu samkeppni. Í því sambandi nefndi hv. þm., að í Ameríku hefði orðið að setja stranga löggjöf til þess að fyrirbyggja vald hringanna (trustanna). En það var ekki íhaldið, sem kom þeirri löggjöf á, heldur ákveðnasti andstæðingur þess. (MJ: Heldur hæstv. forsrh., að það hafi verið Roosevelt?). Ég vildi benda hv. þdm. á, að sá, sem stofnaði landssmiðjuna, var Jón Þorláksson, og að hann gerði það vegna þess, að hann fann til þess, að þegar þurfti að láta vinna verk fyrir ríkið, gerðu vélsmiðjurnar samtök um að halda verkinu svo dýru, að hann fann, að ekki varð komizt hjá að stofna landssmiðju til þess að fyrirbyggja slíka misnotkun á aðstöðu. Landssmiðjan er þess vegna sett á stofn í alveg sama tilgangi og l. í Bandaríkjunum — til þess að fyrirbyggja, að atvinnurekendurnir komi í veg fyrir samkeppni um þau verk, sem ríkið þarf að láta vinna. Það væri fróðlegt að heyra frá hv. 1. þm. Reykv., hvað annað muni hafa komið Jóni Þorlákssyni til að stofna landssmiðjuna en samtök atvinnurekenda um að nota aðstöðu sína til þess að eyðileggja samkeppnina. Og það, sem við erum að gera með þessu frv., er ekki annað en halda fyrirtækinu áfram í sama anda og til þess var stofnað af fyrrv. flokksform. hv. 1. þm. Reykv. og annara andmælenda frv., og koma í veg fyrir, að haldið sé uppi verðlagi, sem ekki nær nokkurri átt á verkum, sem ríkið þarf að láta vinna. En hitt er vitanlegt, að það þarf að reka svona fyrirtæki með allri gætni, og ég verð að segja, að ég get tekið undir með hv. 1. þm. Reykv. um það, að ég hefi ekki miklu trú á, að um verulega mótorsmíði verði að ræða fyrst um sinn, en ég skal jafnframt játa, að ég hefi ekki mikinn kunnugleika á þeim málum. Þó tel ég fulla ástæðu til, að halda áfram tilraunum í þá átt. Ef rakið væri upp og skýrt fyrir hv. þm. hvernig gekk með þau verk, sem ríkið þurfti að láta vinna, meðan landssmiðjan lá niðri, mundi vera hægt að sannfæra þá um, að hún er nauðsynleg til þess að vernda ríkið gegn okri vélsmiðjanna. Því það er mjög auðvelt fyrir 2–3 verkstæði að koma sér saman um tilboð í verk, sem ríkið býður út, upp á fleiri tugi þús. kr., svo að þau geti öll tekið á því stórfelldan gróða, þegar ekki er neitt annað hægt að fara og ríkið verður að taka tilboðinu, þó það sé 50% yfir sannvirði, eins og stundum mun hafa komið fyrir. Eins og ég sagði, þá vakti þetta fyrir þeim, sem stofnuðu landssmiðjuna, og eru enn sömu rök fyrir því að halda henni áfram.