03.04.1936
Efri deild: 41. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1311 í B-deild Alþingistíðinda. (1859)

32. mál, landssmiðja

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Sumt af því, sem ég vildi minnast á, hefir hæstv. atvmrh. þegar sagt. En ég vildi benda hv. 10. landsk. á það, að hann hefir ekki fært fram nein rök fyrir því, að þótt þetta frv. verði samþ., verði veruleg breyt. á landssmiðju frá því, sem var, eða a. m. k. frá því, sem getur verið, ef engin l. eru sett. Hann viðurkenndi það, að ríkisstj. gæti, ef engin l. eru sett um landssmiðjuna, hagað rekstri hennar svo að segja eftir geðþótta. En þau rök, sem hann færði fram í þessu efni, voru þau, að ríkisstj. hefði ekki farið eftir lögum, og hún gæti alveg eins brotið lög viðvíkjandi rekstri verksmiðjunnar eins og önnur lög! En hvað sem þessu skrafi líður, þá verður ekki komizt í kringum það, að rétt sé að setja lög, sem setji takmörk og reglur um rekstur þessa fyrirtækis, eins og annara fyrirtækja. Og þeir, sem eru á móti því að samþ. þessi l., hljóta að vera á móti því að reka þessa vélsmiðju. Þetta er það, sem allir verða að gera upp við sig. Andúð gegn því, að smiðjan væri yfirleitt rekin, kom líka fram hjá hv. 1. þm. Reykv. og 10. landsk. vil ég þá minna hv. 10. landsk. á, að hann var einu sinni yfirmaður þessa fyrirtækis og átti þá sjálfur tök á því að leggja það niður. En hann lét þetta fyrirtæki halda áfram þau tvö ár, sem hann sat á ráðherrastóli. Það skýtur þess vegna nokkuð skökku við, þegar þessi hv. þm. er nú að færa fram rök fyrir því, að fyrirtæki þetta sé í raun og veru óþarft, gamla fyrirtækið, sem hann hreyfði ekki við sjálfur í sinni valdatíð, því að ekki er um að ræða að stofna nýtt fyrirtæki. Og ég vil spyrja þá, sem eru andvígir þessu máli, einnar spurningar: Hvernig á ríkisstj. að fara að, þegar tvær vélsmiðjur í bænum er reknar af einstaklingum og bjóða í eina brú 25 þús. kr., sem að réttu lagi kostar 15 þús. kr. að byggja? Þegar slíkir atvinnurekendur taka sig saman um að taka þannig af ríkinu 10 þús. kr. fyrir ekki neitt, hvað á ríkisstj. að gera í slíkum tilfellum og hliðstæðum? Það voru þessi miskunnarlausu samtök atvinnurekendanna, sem hv. 1. þm. Reykv. talaði um, sem komu því til leiðar, að landssmiðjan var byggð. Og það eru þau, sem koma því til leiðar, að það er nauðsynlegt að halda henni áfram, því að ríkisstj. stendur annars uppi í algerum vandræðum gegn ásælni einstaklingsfyrirtækjanna. Það þarf ekki að rekja þá sögu lengur. Manni dettur strax í hug eitt fyrirtæki í bænum, sem gaf ár eftir ár 50% ágóða af sínum hlutabréfum, og vissu allir, að mestur gróðinn var af að byggja fyrir ríkið fyrir okurverð. Og allir vissu, að það fyrirtæki gat með naumindum starfað, eftir að landssmiðjan tók til starfa og það hætti að græða af byggingu fyrir ríkið. Og það er þetta og þvílíkt, sem er verið að reyna að fyrirbyggja með landssmiðjunni.