20.04.1936
Efri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (1870)

32. mál, landssmiðja

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Nú er orðið svo langt um liðið, síðan orðaskipti fóru fram milli okkar hv. 10. landsk þm., að hafi verið hiti í þeim umr., þá er sá eldur liðinn hjá.

Ég get þó ekki látið hjá líða að svara aths. hv. 10. landsk. þm., þó að ég yrði í raun og veru ekki var við, að hann hnekkti neinu af því, sem ég hefi haldið fram. Hann byrjaði ræðu sína á því, að ég væri sanntrúaður á ríkisrekstur og lifði í þeirri trú, og sagðist hann virða það. Þetta er mér gleðiefni, því að það getur verið fyrr eða síðar, að hugur hans hneigist í þessa átt, og þá er gott að hafa sagt svona orð áður.

Ég skal ekki fara inn á skuldirnar. Hæstv. atvmrh. hefir gefið fullnægjandi skýrslu um það atriði.

En að hv. þm. skyldi lýsa því yfir, að hann væri ekki á móti því, að landssmiðjan væri rekin, tel ég allgóða játningu, það sem hún nær, þó að hann vilji ekki löggjöf í þessu efni. Því hefir verið lýst, hvílík nauðsyn væri á um fyrirtæki sem þetta að hafa löggjöf til stuðnings, svo, ekki væri hægt að rífa það niður til grunna, án þess að brjóta lögin, eða þá að kæmi fyrst til meðferðar á löggjafarþingi þjóðarinnar. Þetta öryggi er það, sem við viljum fá, er hlynntir erum þessum rekstri, og mér skilst, að hv. 10. landsk. sé ekki á móti því.

Um það atriði, hvort rétt hafi verið að innleysa kröfu fyrir vélar, sem pantaðar voru í leyfisleysi stj. fyrirtækisins og ráðh., þá býst ég við, að hér verði eins og víðar, að framkvæmdarstjóri geti ekki alltaf komið því við að kalla saman stjórnarfund, hvað þá ráðuneytisfund, og hygg ég, að meiri hl. landssmiðjustj. hafi litið svo á, að þetta væri sjálfsögð ráðstöfun, eins og gert var. Enda sjálfsagt, að framkvæmdarstjóri hafi á hendi jafnsjálfsagðar ráðstafanir. — Þá minntist hann á gjaldeyrisspursmálið í þessu sambandi. Ég hygg, að það sé einn liður í okkar gjaldeyrisreikningi, enda viðurkennt af þinginu og gjaldeyrisnefnd, að okkur sé nauðsynlegt að fá öll þau tæki inn í landið, sem þarf til rekstrar atvinnuveganna og til að halda starfseminni gangandi. Ég hefi ekki orðið var við unnað en bændur hafi fengið innflutning fyrir sínar landbúnaðarvélar, og að iðnaðurinn hafi fengið innflutning á sínum nauðsynjum að svo miklu leyti, sem þörf hefir krafið. Það, sem gerist í sambandi við landssmiðjuna, er ekki annað en að hún þarf að fé vélar, sem sumpart eru ekki til hjá öðrum smiðjum og sumpart eru nauðynlegar til að halda rekstrinum gangandi. Mun gjaldeyrisnefnd segja til um það, hvort hún telur þann innflutning borga sig, þannig að með þessum vélakaupum sparist gjaldeyrir fyrir vörukaup, sem annars hefði orðið eða verður að gera.

Ég minntist á það í fyrri ræðu minni, að það væri margt í járniðnaðinum, sem gæti komið til greina að vinna í landinu sjálfu, þar á meðal skipaviðgerðir. Mér skildist, að hv. 10. landsk. þm. vildi draga í efa, að þar væri um verulegar upphæðir að ræða. Ég hefi ekki gögn til að sanna þetta til fulls, en ég hefi nefnt ½ millj. kr., og mun það sízt ofmælt, því okkar skipastóll þarf miklar viðgerðir, eins og skipin eru orðin gömul. Nauðsynlegt viðhald er mikið, og t. d. má þar nefna okkar 37 togara; mun klössun og viðhald á þeim skipta hundruðum þúsunda, og árlega mun þurfa í viðgerðir á okkar flutningaskipum 30–40 þús. kr., að svo miklu leyti sem unnt er að framkvæma þær viðgerðir hér heima. En það skal játað, að okkar tæki eru ekki svo fullkomin, að hægt sé að gera við þau stærstu. Þá vil ég í þriðja lagi benda á viðgerðir á erlendum skipum, sem verða fyrir sjótjóni hér við land og þurfa oft á stórfelldum viðgerðum að halda. Það er beinlínis fundin vinna inn í landið. Við höfum sorgleg dæmi um, að orðið hefir að lappa upp á skipin, svo þau með aðstoð annara skipa hafa getað flotið út yfir pollinn. En ef við hefðum aðstöðu til vandaðri viðgerð., værum við hér að skapa okkur vinnu, sem nú er framkvæmd af erlendum þjóðum, en þetta er ekki hægt, nema hafa þær vélar, sem álitið er sómasamlegt á skipaviðgerðarverkstæðum. Því hefir verið haldið fram af hv. þm., að aðrar smiðjur hefðu þessar vélar, en þær hafa það ekki nema að nokkru leyti. Ég er þeirrar skoðunar, að landssmiðjan, sem hefir 1/3 af járniðnaði bæði að mannafla og verkefnum, eigi að hafa aðstöðu til þess að vera samkeppnisfær við aðrar smiðjur, eða a. m. k. ekki verri aðstöðu en aðrar smiðjur, og það ætti að vera þjóðarmetnaður, að ríkið hlypi undir bagga, svo unnt yrði að annast þessar viðgerðir.

Um starfsmannhald skal ég ekki deila við hv. þm. Hann játaði að vísu, að nú væri annað um nemendahald en hefði verið í hans ráðherratíð, enda eru nú, eins og ég hefi upplýst, komnar um þetta fastar reglur hjá sveinunum, hversu marga nemendur fyrirtækin megi taka í hlutfulli við sveinatölu, og með þessu er fyrirbyggð óeðlileg fjölgun. — Þá komst hann inn á, að viss tímabil þyrfti fleiru fólk vegna mikilla verkefna. Því er til að svara, eins og ég hefi gert, að oft má haga því svo til, ef smiðjan getur fengizt við mörg verkefni, að þá er sumt látið bíða, meðan mesta annríkið er og lokið er því, sem mest er aðkallandi.

Skal ég þá víkja að því, sem vakir fyrir mörgum, að landssmiðjan komist að raun um, hvað býr í okkar lagtæku og hugvitssömu iðnaðarmannastétt, og í því sambandi hefir verið minnzt á mótorasmíði, sem er nú e. t. v. ekki eins mikið galdraverk og menn hafa haldið. Í fyrsta skipti er þeir sáust hér, fannst mönnum, að hér væri hið mesta völundarsmíði og hreint galdraverk, en nú þykir mönnum þetta ekki, því margir fást nú við viðgerðir á þessum hlutum. Hitt er annað mál, hvort við getum smíðað svo þessar vélar, að standist samkeppni; úr því verður reynslan að skera. En um það verður ekki deilt, að þetta mótorafargan er komið svo langt, að til stórvandræðu horfir, og er til stórtjóns fyrir alla fiskimenn, jafnt þá, sem stunda þessa atvinnu, og hina, sem reka hana. Ég get upplýst hv. þm. um það, að í skipum, sem eru yfir 12 smál. að stærð, eru nú 405 tegundir, og er í mörgum tilfellum aðeins til ein vél; svo eru þar að auki öll smærri skip fyrir neðan 12 smál., bæði trillubátar og smámótorbátar, og segja mér kunnugir menn, að vélar í þeim skipti hundruðum tegunda. Nú er vitanlegt, að margar þessar vélar eru úreltar að gerð og eyðslu. Og er þeim laumað inn á menn með skrumauglýsingum um lágt verð, litla eyðslu, góða greiðsluskilmála o. s. frv. En svo þegar eitthvað bilar, þá standa menn uppi í vandræðum um miðja vertíð; engir varahlutar til. Gæti ég nefnt um það mörg sorgleg dæmi, ef ég vildi eyða tíma í það; jafnvel eru dæmi um vélar, sem taldar eru góðar teg., að þess hafi ekki verið gætt að hafa til varahluti í hlutfalli við vélafjöldann. Ég hefi m. a. tvö dæmi frá Ísafjarðardjúpi, þar sem svo stóð á, að leggja varð tveimur bátum um miðja vertíð af þessum sökum. Mundi mikið unnið, ef landssmiðjunni yrði gert kleift að hafa til nægilega varahluta. Annars þarf ég ekki að deila við hv. þm. um þetta; ég fann, að hann var að vakna til skilnings um þetta atriði. Taldi hann, að fiskifélagið væri á góðum vegi með að sannfæra menn um, hvert gildi val mótoranna hefði, en þó fræðsla fiskifélagsins hafi mikið að segja í þessum efnum og hafi e. t. v. vakið menn til umhugsunar, þá er það hvergi nærri nægilegt. Er hætt við, að menn fari ekki alltaf að ráði þeirra, sem bezt, hafa þekkinguna.

Nú hefi ég orðið var við, að menn gera lítið úr þessari fyrstu tilraun: en einhverntíma verðum við að byrja. Það eru ekki mörg ár síðan allir þeir, sem vildu fá sér húsgögn, urðu að fá þau frá útlöndum. En reynslan hefir sýnt, að menn vilja heldur innlend húsgögn, ef þeir geta fengið þau.

Þá gerði hv. þm. gys að mynd þeirri, sem ég dró upp af heimsstyrjöldinni, og þeim orðum mínum í því sambandi, að varasamt gæti verið fyrir okkur að standa uppi allslausir um vélar og annað slíkt, ef ný styrjöld skyldi brjótast út. Ég skal játa, að það er margt fleira en vélar, sem hér getur komið til greina. Og vitanlega verða vélarnar ekki búnar til af engu. En ef til vill gætum við þó náð í efnið frá öðrum þjóðum, sem gætu ekki látið okkur hafa sjálfar vélarnar.

Ég get ekki stillt mig um að minnast á dæmið um túnið og skriðuna, sem hv. þm. kom með. Hann sagði, að þegar skriðan félli á túnið, færi allt í kalda kol. Mér finnst dæmið ekki vel valið. Ég sé ekki, að nein skriða sé að falla á túnið, þó að Alþingi samþ. að koma upp landssmiðju. Mér skilst hv. þm. álíta, að síðan eigi að fara inn á svið bænda og taka af þeim búreksturinn. Ég skal ekki neita því, að sumir menn álíta búskapinn betur rekinn af ríkinu en einstaklingum, og er ég þeirrar skoðunar. Býst ég við, að fjöldi bænda álíti það betra að vera leiguliði á ríkisjörð en að þurfa að streitast alla æfi við að festa kaup á ábúðarjörð sinni og takast það ef til vill aldrei. En ég get hinsvegar fullvissað hv. þm. um, að óttinn við það, að skjótlega dragi til þess, að búreksturinn verði tekinn úr höndum bænda, þó að þetta frv. verði samþ., er alveg ástæðulaus. Hann getur verið með málinu þess vegna.

Ég held, að ég hafi þá svarað megninu af því, sem hann beindi til mín. Hann dró þó í vafa, að það væri rétt hjá mér, að hann hefði alltaf verið andvígur þessu fyrirtæki. En ég hefi þó nokkur kynni af því, að ekki þóttu sérlega greiðlegar undirtektir við skeyti, sem landssmiðjan sendi í stjórnarráðið, þegar hann var ráðh., og bólaði jafnvel á því, að verk væru sabóteruð úr höndum smiðjunnar. Nú er það vitanlegt, að landssmiðjan hefir mjög haldið niðri verðlagi á ýmsu því, er járniðnaði tilheyrir. Og þegar reist var svokölluð stálsmiðja hér í bæ, sem hefir einkarétt á stálsmíði, af því að landssmiðjan hefir ekki samskonar tæki og þessi smiðja og getur ekki keppt við hana, þá hækkaði verðlag á slíkri vinnu um 50–100%, og verður að telja þetta mjög hættulegt.

Ef landssmiðjan er ekki til, þá er enginn keppinautur, sem býður niður þau verk, sem ríkið þarf að láta vinna. Landssmiðjan er bezti hemillinn á því, að verðið fari upp úr öllu valdi. Þegar „Héðinn“ og „Hamar“ voru hér einir um hituna, var álagningin gífurleg á þeim verkum, sem unnin voru fyrir ríkið a. m. k., þó að þeir hafi e. t. v. unnið fyrir aðra lægra verði. Nú hefir þetta breytzt nokkuð, enda sagði einn af hluthöfunum við mig, að nú væri svo komið um „Hamar“, að hann væri dauður. Ég spurði hann þá, hvort „Hamar“ hefði haft allan sinn gróða af ríkinu, og gat hann ekki neitað því. Þetta er frá mínu sjónarmiði ekki sízt ástæðan til þess, að efla beri landssmiðjuna, svo að hún geti smíðað sem flest umfram aðrar smiðjur hér á landi.

Tel ég svo ekki ástæðu til að svara fleira af því, sem hv. þm. hélt fram.