20.04.1936
Efri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (1872)

32. mál, landssmiðja

*Jón Auðunn Jónsson:

Ég var ekki viðstaddur fyrra hl. umr. og heyrði því ekki undsvör þau, sem ræða mín vakti hjá hv. stjórnarliðum, en ég hefi þó farið yfir ræður þeirra í handriti.

Hv. 4. þm. Reykv. kvað það ekki vera meiningu þeirra, sem að frv. standa, að stofna til einokunar á mótorvélum. En hann sagði það þó vera svo, eins og gengur í frjálsri verzlun, að keyptar væru til landsins fleiri tegundir véla en þörf væri á, og að þetta fengist ekki leiðrétt nema með einkarétti á sölu véla. Hann færði nokkur rök að þessum orðum, m. a. þau, að skip lægju hér oft aðgerðalaus hálfa vertíðina, af því að vélarnar hefðu bilað og varastykki fengjust ekki. Hann sagði, að þetta hefði komið fyrir hjá Samvinnufélagi Ísfirðinga. Þetta er rétt. En það var einmitt forstjóri félagsins, sem hafði umboð fyrir þessa tegund véla hér á landi. Hann hefði átt að vita, að stimplar þessara véla endast ekki nema svo sem 15 mánuði, og hafa þá á lager. Hv. 4. þm. Reykv. ætti að geta gert það fyrir þennan vin sinn að setja upp spjald á skrifstofu hans með áminningu um að hafa til þessa varahluta. Þá ætti ekki að þurfa að taka upp neina einkasölu á vélum.

Hv. þm. segir, að til þess að tryggja þessa einkasölu þurfi l., því að erfiðara muni að leggja niður aftur landssmiðjuna, ef slík l. væri búið að setja. Ég get nú í þessu sambandi minnt hann á, að hér voru 1. um einkasölu á síld, en ráðh. sá, sem þá var, bjó aðeins til bráðabirgðal. og lagði hana niður.

Annars verð ég að segja, að eftir að hafa kynnt mér svolítið nýsmíðastörf hér á landi, býst ég ekki við að geta mælt með þessu máli, jafnvel þótt betri rök væru færð fram fyrir því. Ég veit t. d. ekki betur en að landssmiðjan hafi tekið að sér smíði á miðstöðvarkatli í safnahúsið hérna. Slíkur ketill kostaði í Danmörku 1300 kr., en landssmiðjan tók 4000 kr. fyrir hann, en þegar svo búið var að smíða ketilinn, reyndist hann ónothæfur. Forstjóri einkafyrirtækis eins leit á ketilinn og lýsti yfir því, að hann þyrfti mikilla endurbóta við og að slíkar endurbætur myndu kosta um 1800 kr., og myndi hann þó ekki verða jafngóður og útlendur ketill. Ég get þá þessu samkvæmt hugsað mér, að mótorvélar, sem við gefum nú fyrir 4–5000 kr., muni kosta svo sem 9000 kr. smíðaðar af landssmiðjunni, og verða þó e. t. v. ónothæfar.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að hér vantaði vélar til almennra viðgerða á skipum. Þetta er ekki rétt. Vélar til ketilsmiða, logsuðu o. fl., sem gera þarf, eru til. En hér vantar slipp fyrir stór skip. Erlendir togarar, sem skemmzt hafa, láta sér vanalegu nægja að láta lappa upp á sig hér, af því að þeir vilja láta gera verkið heima hjá sér að svo miklu leyti sem hægt er. En hér er hægt að gera við slit á skipum. Að vísu er hér ekki hægt að renna öxul í 2000 tonna skip, en þess þarf heldur ekki með, því að slík skip er ekki hægt að taka í Slippinn.

Hv. þm. sagði, að eflir að landssmiðjan hefði tekið til starfa, hefði hluthafi einn í „Héðni“ eða „Hamri“ sagt, að nú væri búið með þá, því að þeir hefðu haft allan sinn gróða frá ríkinu. Ég veit til þess, að „Hamar“ hefir haldið áfram að starfa fram á þennan dag, og eru þó líklega nokkur ár síðan hv. þm. átti þetta samtal við hluthafann. Ég fyrir mitt leyti legg ekki mikinn trúnað á svona lagað, en vona þó, að hv. þm. lofi þessu að standa í þingtíðindunum, svo að viðkomandi geti leiðrétt það.

Annars hefi ég bent á, að ekki væru líkur til, að við gætum smíðað mótorvélar, nema þá að okkur tækist að framleiða nýjar tegundir, er rutt gætu sér til rúms erlendis. Sjálfir notum við ekki svo mikið af vélum, að það gæti borgað sig að smíða aðeins til innlends brúks. Ég þekki eitt vélaverkstæði erlendis, þar sem kunningi minn er forstjóri. Hann sagði við mig, að þetta verkstæði teldi sig ekki hafa hag af að framleiða vélar, sem það gæti ekki selt a. m. k. 300 stykki af á ári. Þeir selja sínar vélar í Noregi, Svíþjóð og Danmörku og eitthvað hefir ef til vill komið hingað. Líka selja þeir á Shetlandseyjum og Norður-Skotlandi.

Ég sé í ræðu hv. þm. S.-Þ., að hann er að víkja því að mér, að ég sé umboðsmaður mótorvéla, eigi í mótorverkstæði eða slíkt. Það er enginn fótur fyrir því. Ég hefi engra hagsmuna að gæta í þessu máli, nema almennra hagsmuna. En ég er viss um, að ef þessu máli verður komið fram, eru landsmenn skoðaðir um tugi eða jafnvel hundruð þúsunda.

Að halda því fram, að það snerti ekki bændur, þótt farið sé gálauslega með fé landsins og því hent á glæ, tel ég bera vitni um þröngan sjóndeildarhring alþm. Hv. 1. þm. Reykv. mun að vísu vera tamt að líta aðeins á hag einna eða tveggja stétta í landinu, en hann er þó engu að síður kosinn til að vernda hagsmuni allra stétta.

Enginn hefir lagzt á móti því, að ríkið hefði verkstæði til að annast störf, sem það þarf að láta vinna, svo sem brúarsmíði o. fl. Fer bezt á því, að öll slík störf séu saman komin á einum stað, því að leikni manna verður meiri í hverju einu, því lengur sem að því er unnið. Þetta viðurkenndi okkar ágæti maður Jón heitinn Þorláksson, og var hann þó enginn ríkisrekstrarmaður. En hann viðurkenndi, að mikið hagræði væri að fá hvert verk jafnan unnið á sama stað til þess að þroska leiknina sem mest. En að ríkisstj. fari að setja upp fyrirtæki aðeins til að sýnast eða þá til að skaða ímyndaða keppinauta í landinu, það verður að teljast utan við verkahring hennar.