24.04.1936
Efri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

32. mál, landssmiðja

*Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Ég get í raun og veru unað mjög vel við svör hæstv. atvmrh. Ég bar þessar brtt. fram til að nota þær sem prófstein á sannleiksgildi þess, sem meðmælendur frv. höfðu haldið fram, að hér ætti svo sem ekki að vera um nein sérstök hlunnindi að ræða, heldur ætti að láta þessa stofnun starfa við sömu skilyrði eins og önnur fyrirtæki, sem eru í þessari iðngrein. Ég hefi nú, með því að nota þennan prófstein, sannað það, að þetta er ekki tilgangurinn, heldur er hann einmitt sá, að skapa þessu fyrirtæki sérstöðu, og með þessari prófun kemur það sama í ljós, sem alltaf kemur fram, að þeir, sem eru með ríkisfyrirtækjum og vilja láta ríkisvaldið gleypa sem mest af öllum atvinnurekstri, þeir treysta ríkisfyrirtækjunum aldrei til þess, þegar á það reynir, að starfa og þróast í frjálsri samkeppni. Þeir vita, að þau standast ekki, nema með því að hafa sérstök hlunnindi, og þar með eru þessi ríkisfyrirtæki í raun og veru dæmd af þessum mönnum. Þetta sama endurtekur sig vitanlega hér. Landssmiðjan á ekki að þurfa þess með, að hún sé samkeppnisfær, hún er gerð í öðrum tilgangi en þeim að stuðla að hagstæðum kaupum fyrir þá, sem við hana þurfa að verzla.

Þetta var mér reyndar fullljóst áður, og við erum orðnir of reyndir stjórnarandstæðingar til þess, að við búumst við því eða ætlumst til þess, að brtt. okkar nái framgangi, og þá auðvitað sízt þær, sem raska þessum grundvelli, sem þeir hv. stjórnarflokkar reisa ríkisfyrirtæki sín á. Hinsvegar var það mjög áberandi, hversu lítil rök hæstv. atvmrh. gat borið fram á móti þessum brtt. önnur en einmitt þau, að landssmiðjan ætti ekki að sæta sömu kjörum og aðrar smiðjur, heldur ætti hún að hafa sérstök fríðindi og ívilnanir. Um 1. till., að sanna það með útboði, að landssmiðjan byði lægsta verð, sagði hæstv. atvmrh., að sú tilhögun gæti skapað óheilbrigða samkeppni. Ef alltaf ætti að meta það og vega, hvað ætti að teljast heilbrigð eða óheilbrigð samkeppni, þá býst ég við, að samkeppnin hyrfi úr sögunni. Samkeppnin er í því fólgin, að allir aðiljar gera sitt ýtrasta til þess og búa sig af alefli undir það að geta leyst verkin sem bezt og ódýrast af hendi.

Hæstv. ráðh. sagði, að landssmiðjan ynni eftir föstum taxta, sem svo mætti gefa afslátt frá. Þetta er hreint og beint orðagjálfur. Þau verk, sem þarna koma til greina, eru svo margþætt og margvísleg, að ekki er hægt að hafa á þeim fastan taxta. Hvaða fastan taxta er hægt að hafa um hús eða brýr eða virkjanir o. s. frv.? Ég veit, að það er hægt að hafa taxta um kaup manna og þess háttar. En það er ekki hægt að hafa fastan taxta á þeim verkum, sem enginn veit fyrirfram, hvað muni kosta. Þau þarf að reikna út, og til þess eru einmitt útboðin, og þá kemur það fram, þegar upplýsingar eru fengnar um verkið, hvað menn treysta sér til að gera þau fyrir lítið, og reynir þá auðvitað á hagsýni þeirra og dugnað með það, hvernig þeir komast frá verkinu. Ég skal í þessu sambandi benda á eitt dæmi. Það þarf að byggja fyrir atvinnudeild háskólans. Ég er í byggingarnefnd. Húsameistari ríkisins sagði n. frá húsi því, sem hann hefði teiknað, og taldi, að það mundi fást fyrir 200 þús. krónur, en alls ekki fyrir minna. Nú var húsið boðið út, og kom þá upp úr kafinu eins og húsameistari hafði sagt, að tilboðin voru 200 þús. krónur og sum þar yfir. En hinsvegar kom svo tilboð frá mönnum, sem húsameistari segir, að megi treysta og hægt sé að gera samninga við um byggingu hússins, að viðlögðum dagsektum, ef smíði verður ekki lokið fyrir ákveðinn tíma, þannig að húsið fæst uppkomið með öllum leiðslum og lögnum fyrir 130 þús. krónur. Það getur vel verið, að þetta falli undir það, sem hæstv. ráðh. kallar óheilbrigða samkeppni, en það er ekkert á móti því fyrir háskólann að spara þarna 70 þús. kr. á því, að það eru einstaklingar, en ekki ríkisstofnun, sem byggir. Því ef farið hefði verið að samkv. því, sem hér liggur fyrir um landssmiðjuna, þá hefði vitanlega byggingin verið gerð fyrir það verð, sem húsameistari ríkisins taldi eðlilegt. Ég sé ekki betur en að hér sé algerlega snúið við frá því, sem fyrst var látið í veðri vaka um landssmiðjuna, sem sé því, að hún ætti að tryggja það, að alltaf væri unnið fyrir lægsta verð, en þarna hefði það unnizt, að háskólinn hefði orðið að borga 70 þús. krónum meira fyrir bygginguna.

Ég er viss um það, ef þetta frv. verður að lögum, að það verður til þess að taka margar 70 þús. kr. frá ríkissjóði. Það má náttúrlega láta það falla undir óheilbrigða samkeppni. Ég veit ekki eftir hverskonar mælikvarða það er úrskurðað, en frá sjónarmiði þeirra, sem verkin láta gera, er þessi samkeppni hagkvæm.

Hæstv. atvmrh. sagði sjálfur, að það væri gott fyrir smiðjuna, þegar lítið væri að gera, að geta haldið vissum verkum. Þetta ber allt að því sama. Ríkissjóður verður að borga alveg sérstaklega fyrir þessa ágætu skemmtun, að eiga sjálfur smiðju, og verður svo að fleyta henni yfir daufu tímana með því að láta hana halda vissum verkum, þótt á annan hátt væri hægt að fá þau unnin fyrir minna verð, og útiloka samkeppni með því að láta landssmiðjuna taka verk, sem hægt væri að fá ódýrari, ef þau væru boðin út.

Ég skal ekki mikið um það tala, hver á að dæma um nýjungar. Mér finnst, að það eigi bezt heima hjá vélfræðingum. Hæstv. atvmrh. tók til dæmis landbúnaðavél og fannst engin trygging fyrir því, að vélfræðingar gætu dæmt um hana. Mér finnst það alleinkennileg vélfræði, ef hún er rígbundin við það, til hvers vélin á að vera. Það þurfa að vera vélfræðingar, sem um vélar dæma. Það er vitanlega ekki meiningin, að þeir hafi allan sinn aldur verið lokaðir inni í búri og hafi aldrei séð íslenzka mýri eða móa. Það er alkunna, að það eru vélfræðingar, sem bezt standa að vígi í þessu efni, en auðvitað verða þeir, sem um uppgötvun eiga að dæma, að kynna sér allt, sem að notkun vélarinnar lýtur, og bera skyn á fleira en fjaðrir og hjól.

Um 3. og 4. brtt. sagði hæstv. atvmrh. ekkert annað en að það ætti að skapa landssmiðjunni sérstöðu. Það er vitanlegt, að stór fyrirtæki verða að standa undir miklu lóðarverði, og er náttúrlega gott fyrir landssmiðjuna að fá ókeypis lóð, og skapar henni miklu betri aðstöðu en öðrum fyrirtækjum, en eðlilegt væri það að sjálfsögðu, að hún greiddi andvirði lóðarinnar. Eins er það með gjaldið. Að sjálfsögðu stendur landssmiðjan miklu betur að vígi með því að greiða 5% gjaldið heldur en að greiða útsvar eftir efnum og ástæðum, eins og einstaklingar. Eitt af því, sem gæti styrkt 5% gjaldið, en hæstv. atvmrh. ekki bar fram, er það, að eðlilegt væri, að landssmiðjan félli undir lög um útsvör ríkisstofnana. Að ég er með því, að einkasölur greiði ákveðið hundraðsgjald, stafar af þeim eðlismun, sem verður á viðskiptunum við það, að einkasölur eru stofnaðar, því þá safnast svo mikið á eina hönd, að stighækkandi skattur og útsvar, eins og lagt er á einstaklinga, gæti orðið óeðlilega hátt. En þetta á ekki við um landssmiðjuna, og hún ætti í þessu efni að standa jafnt að vígi eins og einstaklingsfyrirtæki.

Ég þykist nú sjá fyrir örlög þessarar Karthagóborgar, þótt hv. þm. séu að sjálfsögðu allir óbundnir með atkv. sitt. En ég þykist sjá, að tilgangurinn sé ekki sá, að landssmiðjan sé rekin á samkeppnisgrundvelli. En þar með er vitanlega fallin öll trygging fyrir því, að hún verði samkeppnisfær og að hún ekki skili sí og æ raunverulegu tapi, og verði til tjóns bæði fyrir ríkið og þá þegna ríkisins sem við hana þurfa að skipta. Það er sýnilegt, að landssmiðjan getur þá sýnt reikningslegan gróða, þótt ríkissjóður tapi á henni, þegar búið er að skapa henni þau skilyrði, að hún getur étið upp allt það, sem talið er gróði — og meira til. Það er ekkert annað en að leggja henni fé bæði beint og óbeint, að láta hana taka verk, þótt hægt væri að fá þau ódýrari hjá öðrum, og láta bæjarsjóði blæða vegna ógreiddra gjalda, sem hann fengi, ef önnur fyrirtæki ættu hlut að máli. Það er þá fyrst, ef landssmiðjan er höfð hliðstæð við önnur fyrirtæki og rekin á hreinum samkeppnisgrundvelli, að hún getur sýnt það rannverulega, hvort hún skilar heldur tapi eða gróða.