29.04.1936
Neðri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1350 í B-deild Alþingistíðinda. (1890)

109. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

*Frsm. meiri hl. (Ólafur Thors):

Frv. þetta er flutt af hv. þm. Vestm., og með þeim rökstuðningi, að þar sem það þykir sýnt, að frv. það, sem borið hefir verið fram á þessu þingi um tekjur bæjar- og sveitarfélaga, nái ekki fram að ganga, áður en þingi slítur, og að Vestmannaeyjabær megi ekki missa þær tekjur, sem hann hefir samkv. lögum um bæjargjöld í Vestmannaeyjum frá 12. des. f. á., þá verði ekki hjá því komizt að framlengja þessi lög til ársloka 1937. Í fjhn. voru þrír nm. fylgjandi framlengingu þessara laga. Hv. 2. þm. Skagf. taldi ekki fjarstæðu að framlengja lög þessi, og hefir því óbundið atkv. Einn nm., hv. 1. landsk., var aftur á móti frv. Við, sem viljum mæla með því, að frv. þetta verði samþ., gerum það með sömu rökum og hv. flm. færir fyrir því í grg. þeirri, sem því fylgir. Og ég vil bæta því við, að við, sem mælum með frv., sjáum ekki möguleika fyrir Vestmannaeyjakaupstað að komast af og standa undir þörfum sínum, ef hann fær ekki að halda þessum tekjustofni, eða fær þá ekki einhvern annan í staðinn.