07.05.1936
Efri deild: 67. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (1903)

109. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

*Frsm. (Magnús Jónsson):

Vestmannaeyjakaupstaður hefir nú um nokkurt bil fengið leyfi til þess hjá Alþingi að afla sér tekna með vörugjaldi. En ætlazt var til, að gjald þetta félli niður um leið og samþ. yrðu lög um tekjustofna handa bæjar- og sveitarfélögum. En í meðförunum hefir frv. þetta tekið miklum breyt., sem svipta kaupstaðina allt að 2/3 af því, sem bæjunum var ætlað í þeim kafla laganna, er hljóðaði um vörugjald. Auk þess má telja útséð um, að það frv. gangi fram á þessu þingi.

Vegna þess að beðið hefir verið eftir því að sjá, hversu um það mál færi, kemur þetta frv. svo seint fram, en það er borið fram í Nd. af hv. þm. Vestm. Vörugjaldið hefir numið um 30 þús. kr. á ári undanfarið, og má kaupstaðurinn vafalaust ekki við því að missa þær tekjur, allra sízt nú, er afli hefir brugðizt svo, að hann er 1/3 minni en hann var í fyrra. Ég legg því til, að frv. þetta verði samþ., a. m. k. til 2. umr. Við 3. umr. ætti að vera útséð um, hversu frv. um tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga reiðir af. — Einn mn. er andvígur frv. og annar hefir skrifað undir það með þeim fyrirvara, að hann fylgi því, því aðeins, að frv. um tekjustofna bæja og sveita verði ekki samþ. Ég mun hinsvegar fylgja þessu frv., jafnvel þótt hitt frv. yrði samþ. Vestmannaeyjum veitir ekki af þessu gjaldi. og þær hafa alveg sérstöðu í þessum efnum, þar sem ekkert af þeim vörum, sem þangað flytjast, er flutt þaðan aftur. Þetta gjald lendur því aldrei á öðrum en eyjabúum sjálfum, nema hvað nokkuð er þar af aðkomumönnum síðara hluta vetrar.