08.05.1936
Efri deild: 68. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (1922)

109. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

*Frsm. (Magnús Jónsson):

Ég var að bíða eftir því að hæstv. forseti gæfi mér leyfi til þess að standa upp, því það munu vera sérréttindi hæstv. forseta Sþ. að standa upp án þess að kveðja sér hljóðs. Það má segja um það, að það sem Júppiter leyfist, það leyfist ekki neinu meðalnauti.

Annars tók ég ekki eftir því, að hv. 2. þm. S.-M. lýsti neinu yfir um það, að hann myndi fylgja þessu frv., ef hitt fengi ófullnægjandi afgreiðslu. Ef svo hefði verið, þá var kannske ástæða til þess að fara fram á frest, en ég varð ekki var við, að svo væri. Og án þess að ég vilji leggja nokkra áherzlu á það, þá finnst mér það eðlilegt, að málið fái afgreiðslu á þeim fundi, sem það er tekið fyrir á. En það er auðvitað á valdi hæstv. forseta, hvernig hann hagar meðferð málsins.