06.05.1936
Neðri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (1931)

134. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

*Bjarni Bjarnason:

Það er vitanlega alveg rétt, sem hv. þm. Borgf. sagði, að bændur eru yfirleitt í stökustu vandræðum með að endurbyggja á jörðum sínum. En hinsvegar verður að athuga það, að þetta frv., sem hér er flutt, er aðeins breyt. á lögum um nýbýli. Reynslan hefir nú þegar leitt það í ljós, að komnar eru til nýbýlastjórnar yfir 200 umsóknir um styrk og lán til nýbýla á þessu ári. Og af þeim verður ekki hægt að fullnægja í bili nema um 60 styrkbeiðnum.

Það er ekki hægt að segja um það ennþá, hversu háan styrk er hægt að veita út á hvert býli. En það er sýnilegt, að þó að á fjárl. sé ætluð rífleg fjárveiting til þessa, þá er erfitt að fullnægja þeim umsækjendum, sem vilja skipta jörðum og reisa nýbýli á þann hátt, hvað þá að leggja fram fé til samvinnubyggða. Þess vegna verð ég að líta svo á, þrátt fyrir vandræðin um að endurreisa bæina í sveitunum, þá sé ekki ráðlegt að taka þá með inn undir þessi lög. Hv. þm. skýrði ranglega frá því, hversu margar jarðir hefðu húsaverð undir 800 kr. eftir fasteignamati. En það er hinsvegar rétt, að ýmsir af þeim, sem byggt hafa á síðustu árum, hafa ekki getað risið undir kostnaðinum. En á sama hátt má vitanlega benda á, að þeir menn, sem reist hafa nýbýli á undanförnum árum, verða að berjast við skuldirnar og eru miklu verr settir en þeir, sem nú fá að njóta hinna nýju nýbýlakjara. — Ég held, að eina leiðin út úr þessum ógöngum um endurbyggingu sveitabæja sé sú að efla ræktunarsjóð og byggingar- og landnámssjóð til þess að veita bændum byggingarlán til endurhýsingar, svo að þeir verði ekki útundan í því efni. Eftir því, sem ég veit bezt, þá eru það nokkur hundruð jarðir á landinu, sem hafa undir 800 kr. virði í húsum samkv. fasteignamati. Þessar jarðir munu hafa verið allt að 1100 um 1930, þegar fasteignamatið fór fram, en þær eru ekki svo margar nú, eins og hv. þm. Borgf. sagði. Síðan 1930 hafa verið endurbyggð og bætt hús á svo mörgum jörðum, að nú munu vera um 6–700 jarðir, sem hafa undir 800 kr. húsaverð samkv. fasteignamati. Það mundi sannarlega reynast vandasamt að skera úr um, hvaða jarðir skyldu njóta byggingarstyrks, þó að teknar yrðu 4–6 jarðir á ári af öllum þeim fjölda, sem um sæktu, enda mundi það reynast lítil úrbót. Þessi brtt. hv. þm. A.-Húnv. og þm. Borgf. miðar aðeins í þá átt að dreifa þessum fjárstyrk, sem ætlaður er til nýbýla, þannig að hann komi hvergi að verulegu haldi. Ef á að halda áfram að skipta jörðum í fleiri býli og veita styrki til slíkra nýbýla, þá er ekki hægt að fullnægja þeim umsóknum með því fé, sem nýbýlasjóður hefir yfir að ráða, hvað þá að endurbyggja þá bæi, sem nú eru í sveitunum. Ég vil því beina því til hv. þdm. að leita annara ráða til þess að hjálpa bændum til að endurreisa bæi sína.