06.05.1936
Neðri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (1933)

134. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

*Gísli Guðmundsson:

Ég verð að taka undir það með hv. 2. þm. Árn., að ég tel það mjög athugavert, ef það verður farið að rýra framlög til nýbýla og samvinnubyggða. Ég óttast, að ef þannig á að kljúfa starfssvið þessarar löggjafar, þá leiði það til þess, að hún verði báðum verkefnunum, nýbýlum og endurbyggingu sveitabæja, að mjög litlu liði. Hinsvegar verður ekki um það deilt, að það er mikil þörf á að gera eitthvað fyrir þá bændur, sem búa á þeim jörðum, þar sem kalla má, að húsin séu að falli komin, svo að þar er varla búandi. Ég hygg, að óhjákvæmilegt sé að gera eitthvað sérstakt til stuðnings þessum bændum. Og vil ég nota þetta tækifæri til að benda hv. þdm. á, að við hv. þm. A.-Sk. höfum flutt frv. á þessu þingi um stofnun byggingarsjóða í sveitum, og er því frv. ætlað að bæta úr þessari þörf. Þessu frv. okkar var snemma á þinginu vísað til allshn., í stað þess að við lögðum til, að því yrði vísað til landbn. Allshn. hefir svo setið á málinu yfir allt þingið og engu áliti skilað um það.

Ég hygg, að í þessu frv. sé bent á þá leið, sem réttast sé að fara í þessu efni. Við flm. frv. hugsuðum okkur, að hér yrði gerð hliðstæð löggjöf fyrir sveitirnar við þá löggjöf, sem nú gildir um byggingarsjóði verkamanna í kaupstöðum til þess að bæta úr húsnæðisþörf þeirra. Ég vildi aðeins minna á þetta frv., og geri ég ráð fyrir, að við beitum okkur fyrir, að það verði tekið til greina á næsta þingi.