06.05.1936
Neðri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1368 í B-deild Alþingistíðinda. (1954)

137. mál, viðbótarrekstrarlán handa Landsbanka Íslands

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég ætla aðeins að bæta örfáum orðum við það, sem hv. frsm. sagði.

Þorskaflinn hefir brugðizt svo herfilega á þessari vetrarvertíð, sem nú er að enda, að slíks eru engin dæmi síðastliðin 10 ár. — Ég hefi snúið mér til Fiskifélags Íslands og fengið hjá því upplýsingar um fiskaflann, eins og hann var talinn á öllu landinu 1. maí síðastl. Fiskifélagið byrjaði að halda nákvæmar aflaskýrslur 1925 og hefir haldið því áfram síðan. Ég held, að það sé réttast, að ég lesi upp úr skýrslu fiskifélagsins hv. þdm. til fróðleiks samanburð á aflamagni síðastl. 10 ár og er þá miðað við tímabilið frá áramótum til 1. maí ár hvert. Það yfirlit sýnir bezt, hvað aflinn er óvenjulega lítill á fyrri hluta þessa árs.

Eftir

Ár

1. maí

31. des.

1. maí

1925 ....

20267

51085

30818

1926 ....

19082

38153

19071

1927 ....

22461

50584

28123

1928 ....

27476

65596

38120

1929 ....

36630

66764

30134

1930 ....

40301

70574

30273

1931 ....

35072

64654

29582

1932 ....

31985

56372

24387

1933 ....

41870

68630

26760

1934 ....

43441

61880

18439

1935 ....

33565

50002

16640

1936 ….

17666

Þarf ekki að leggja út af þessu frekar, því að allir hljóta að sjá, hvaða áhrif þetta hefir á tekjur einstaklinga og gjaldeyristekjur þjóðarinnar. Er yfirleitt mest treyst á þennan gjaldeyri. Sjá allir, að það getur orðið miklum vandkvæðum bundið að standa við greiðslur þær, sem inna verður af höndum. Því hefir það verið til umr. innan bankastj. og ríkisstj., að þar sem vertíð hefir brugðizt svo gersamlega, væri óráðlegt, að bankinn, sem ber mestan hitann og þungann af öflun gjaldeyrisins, hefði ekki möguleika til að útvega sér viðbótaryfirdrátt á við það, sem hann er vanur að hafa. Þessi viðbótaryfirdráttur er ekki nema lítið brot af þeim gjaldeyristekjum, sem missast við þetta aflaleysi. Þetta verður heldur ekki unnið upp með lántökum, heldur verður þjóðin að neita sér meira en verið hefir um varning, sem flutzt hefir til landsins. Ef aflinn bregzt líka síðara hluta ársins, er engin von til, að hjá þessu verði komizt. Hinsvegar getur nokkuð rætzt úr, ef síldin og þorskurinn bregðast ekki síðara hluta ársins, en þó hefir þótt vissara, að bankinn hefði þessa heimild, ef í nauðirnar skyldi reka. En þeir, sem ráða fyrir bankanum, og stj. eru sammála um, að ekki beri að grípa til þessarar heimildar, nema nauður reki til.

Ég þarf svo ekki að hafa þessi orð mikið fleiri. Allir, sem sæti eiga í bankaráði landsbankans, og allir bankastjórarnir eru sammála um þetta, ekki af því að þeir líti á það sem framtíðarúrræði, heldur vegna þess að þegar vertíð hefir algerlega brugðizt, eins og nú, telja þeir óvarlegt að leggja upp án þessarar heimildar.

Ég tek það fram, að bankinn mun ekki hafa grennslazt fyrir um möguleika fyrir svona láni, því að allir hafa verið að vona, að úr myndi rætast. En það hefir nú ekki orðið á þessari vertíð, og yrði það þá að verða í sumar á síldarvertíðinni.