06.05.1936
Neðri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (1956)

137. mál, viðbótarrekstrarlán handa Landsbanka Íslands

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. þm. G.-K. sagðist ekki vilja leggja málinu beinlínis lið, þótt hann vildi hinsvegar ekki leggja stein í götu þess. Fyrir það síðarnefnda er ég honum þakklátur út af fyrir sig. Hv. þm. færði nokkur rök fyrir sínu sjónarmiði og því, hvers vegna hann taldi sig ekki geta lagt frv. lið á þingi. Ein ástæðan var sú, að þessar ráðstafanir væru gerðar til þess að koma, í veg fyrir, að ríkið lenti í vanskilum, og væri það hlutverk stjórnarflokkanna að sjá um það. Mér finnst hv. þm. ekki líta rétt á þetta atriði. Það er að vísu rétt, að ríkissjóður á að skila allhárri upphæð erlendis í júlí næstkomandi. Nemur hún ríflega 1 millj. kr. Eru þetta sumpart eigin lán, en sumpart skuldir, sem ríkissjóður hefir á sinni könnu vegna bankanna. En ég vil benda hv. þm. á, að það eru fleiri en bankarnir, sem þurfa að yfirfæra fé í júní og júlí og á öðrum tímum. Er því rangt að hugsa sem svo, að ef gjaldeyririnn er takmarkaður, þá verði það krónur þær, er ríkið á að yfirfæra, sem útundan verði, og að það sé því að hjálpa ríkissjóði við yfirfærsluna að samþ. þetta frv. þetta er til þess að hjálpa bönkunum að selja ríkissjóði og öðrum gjaldeyri og er því hagur ríkissjóðs og annara viðskiptamanna bankanna jöfnum höndum. Það greiðir almennt fyrir bönkunum að geta selt viðskiptamönnum sínum gjaldeyri. Hvernig fara skuli að, ef ekki er hægt að selja öllum gjaldeyri, er vandamál, sem ekki er tímabært að ræða hér. En það er hægt að hugsa sér, að ef ástandið versnar mjög, verði að skera frekar úr um það, hvaða greiðslur sitja skuli sitja á hakanum.

Hinsvegar held ég, að hv. þm., sem er fulltrúi í bankaráðinu, hafi greitt atkv. með þessu þar, vegna þess að framkvæmdarstjórn bankans óskaði eftir því, að fá þessa heimild, og af því að hann hefir álitið, að það væri stofnuninni nauðsynlegt að hafa þetta úrræði, ef allt annað þryti.

Þá spurði hv. þm. að því, hvort ég teldi þessa fjáröflun með lántöku kleifa, eftir þær upplýsingar, sem ríkisstj. að gefnu tilefni gaf í sambandi við lántöku árið 1934, um að það væri hennar stefna að forðast allar erlendar lántökur og það að ganga í ábyrgð fyrir erlendum lánum.

Eins og ég hefi getið um, þá voru þessar upplýsingar orðaðar þannig, að það væri stefna stj. að forðast allar erlendar lántökur, og það er stefna hennar enn. Ég tel ekki, að það komi á neinn hátt í bága við þessa stefnu, þó að landsbankinn leiti til þess, vegna stórkostlegra vandræða, að fara fram á yfirdrátt með ábyrgð ríkissjóðs. Hér eru óvenjulegar ástæður fyrir hendi, þó menn annars vildu forðast þetta. Þó við séum sammála um að forðast lántökur af þessu tægi, þá verður samt, þegar vandræði steðja að, að vera undantekningar. Hvort bankinn leitar til þeirrar stofnunar, sem stóð að lántökunni á árinu 1935 og fékk þessar upplýsingar um stefnu stj., get ég ekki gefið neinar upplýsingar um. Ég veit ekki til þess, að enn sé búið að taka ákvörðun um það, hvert hann leitar. En þar sem ég tel, að þessi framkvæmd væri ekki í ósamræmi við yfirlýsta stefnu, þá tel ég, að bankinn gæti gert tilraun með að afla sér þessa fjár á þeim stöðum, sem honum þættu líklegastir til árangurs.

Hv. þm. sagði, að hann væri því yfirleitt mótfallinn að leyna með lántöku skorti á gjaldeyri og koma þannig í veg fyrir það, að menn horfðust í augu við staðreyndirnar, eins og þær væru. Ég get tekið undir þetta með hv. þm. Ég lít svo á, að það eigi að forðast slíkar lántökur eins og kostur er á. Ég lít svo á, að það eigi áður að leita allra bragða í því að færa niður innflutninginn, áður en til slíkrar lántöku er gripið. Í sambandi við þau ummæli hv. þm., að allir yrðu að horfast í augu við það, ef gjaldeyrisvöntun yrði vegna aflaskorts, og það væri óráðlegt að vega hana upp með nýrri lántöku, þá vil ég benda honum á, að það mun láta nærri, að aflamismunurinn nú og í fyrra sé að verðmæti um 8 millj. kr., en sú heimild, sem landsbankinn fer fram á, er aðeins 2 millj. og 300 þús. kr., eða með öðrum orðum ekki nema brot af þeim gjaldeyrismun, sem kemur fram vegna þessarar lélegu vertíðar. Menn hafa auðvitað reiknað með því, að það yrði meðalvertíð. Vertíðin núna hefir brugðizt meira heldur en menn yfirleitt voru farnir að halda, að vertíð gæti brugðizt með þeim tækjum, sem menn nú hafa. Það er þannig að gjaldeyrisskorturinn, sem hlýtur að koma af aflabrestinum, er ekki veginn upp nema að litlum hluta, þó þessi heimild sé notuð að öllu leyti.

Ég ætla ekki að fara langt út í það að ræða um gengismálið í þessu sambandi. Ég hefi á öðrum vettvangi gert grein fyrir þeirri afstöðu, sem Framsfl. hefir í því máli, og á hverju hún hefir byggzt. En ég get sagt það, að þó að genginu væri breytt, þá mundi ekkert minnka þörfin fyrir þessa heimild, sem hér er verið að tala um, því það skapar ekki gjaldeyri til þess að standa undir vöruinnflutningnum, þó að því yrði horfið. Ennfremur vil ég benda á, að það er ekki bezta ráðið til þess að standa á móti innflutningi umfram það, sem framleiðslan gefur af sér, þó það yrði horfið að því að fella gengi krónunnar, af þeirri einföldu ástæðu, að það mundi koma í ljós mjög fljótlega, að kaupið færi að hækka aftur eftir gengislækkunina, og menn myndu þannig skapa sér möguleika til þess að kaupa þær neyzluvörur, sem annars ætti að útiloka frá landinu, með því að gera þær verðhærri en ella með gengislækkuninni. Það er svo að innflutningurinn er nú kominn niður á þann grundvöll, að það er sáralítið flutt inn af vörum umfram það, sem þarf til framleiðslunnar og til þess, að ekki vanti nauðsynlegar neyzluvörur í landinu. Ég geri fastlega ráð fyrir því, þó að breytt yrði gengi krónunnar, að menn mundu fljótlega reyna að skapa sér þá aðstöðu aftur, þó þeir misstu hana um skeið, að þeir gætu keypt þessar neyzluvörur eftir sem áður. Ég held, að bezta leiðin til þess að bjargast við í þessum efnum séu innflutningshömlur, þó ég ætli ekki að fara langt út í það að ræða þetta almennt. Ég drep aðeins á þetta, af því að hv. þm. skaut því sérstaklega fram í sambandi við þetta mál, sem hér liggur fyrir.