06.05.1936
Neðri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (1957)

137. mál, viðbótarrekstrarlán handa Landsbanka Íslands

*Ólafur Thors:

Ég held, að það hafi kennt nokkurs misskilnings hjá hæstv. fjmrh. á mínum orðum. Hann taldi mig hafa gefið í skyn, að ein af ástæðunum fyrir því, að Sjálfstfl. væri andvígur þessu frv., væri sú, að það ætti að forða ríkissjóði frá vanskilum. Þetta er misskilningur. Ástæðan fyrir því, að við sjálfstæðismenn teljum ekki nauðsynlegt eða eðlilegt, að við styðjum þetta frv. með atkv. okkar, er sú, að hér er í raun og veru svo lítið annað gert heldur en að hugsa um það, að ríkissjóður geti innt af hendi sínar greiðslur nú, þegar vextir og afborganir falla í gjalddaga 1. júlí. Við teljum, eins og ég áður gat um, að það sé eðlilegt, að ríkisstj. í fararbroddi fyrir sínu liði sjái þessu borgið.

Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að það eru ýmsir aðrir en ríkissjóður, sem þurfa yfirfærslu á þessu tímabili eða á næstunni. En hverjir mundu það verða, sem þessar yfirfærslur fá? Að minni hyggju verða það í þessum gjaldeyrisskorti að sáralitlu leyti aðrir en framleiðendur, og þá gjaldeyrir til greiðslu á þeim hlutum, sem nauðsynlegir eru til þess, að framleiðslan geti haldið áfram. Það liggur í hlutarins eðli, að þessir menn verða í gjaldeyrisskortinum að ganga fyrir ríkissjóðnum, fyrst og fremst af því að án innflutnings þeirra nauðsynjavara, sem hér ræðir um, getur engin framleiðsla farið fram, og þar af leiðir auðvitað, að enginn gjaldeyrir gæti aflazt. Hitt má í þessu sambandi nefna, að það munu verða þessir sömu framleiðendur, sem á næstunni skulda fyrir sínum útflutningsvörum, þó þeir láti í té þann gjaldeyri, sem væntanlega fellur til. Það ætti því að vera sanngirniskrafa þeirra að fá í sína framleiðslu þann gjaldeyri, sem bankarnir ráða yfir.

Ég veit ekki, hvort það er alveg rétt skilið hjá hæstv. ráðh., að bankastjórn landsbankans hafi óskað eftir því, að bankaráðið samþ. þá till., sem borin var upp á bankaráðsfundi og var lögð til grundvallar fyrir flutningi þessa frv. (Fjmrh.: Ég skildi hv. þm. þannig, að hann hefði gert þetta vegna þess, að framkvæmdastjórnin óskaði eftir því). Ég er heldur ekki viss um, að það sé alveg rétt skilið hjá hæstv. ráðh., að hvatir bankastjóra landsbankans til þess að óska eftir þessari lántökuheimild hafi eingöngu verið þær, að sjá bankanum farborða. Mér þykir ekki ólíklegt, að bankastjórnin í samráði við hæstv. fjmrh. hafi ætlað sér að hlaupa undir bagga með þörfum ríkissjóðs.

Hæstv. ráðh. sagði, að slík lántökuheimild kæmi ekki í bága við þær upplýsingar, eins og hann orðaði það, sem hann hefði gefið brezkum lánardrottni í sambandi við lántökuna 1934. Ég kæri mig nú ekki um að vera sérstaklega að slá því föstu hér í þessum umr., sem fór raunverulega fram í sambandi við þá lántöku, þó að ég hinsvegar gangi út frá því, að það sé óhætt að tala um málið hér á þingi að því leyti, að það skaði ekki lántökubeiðni okkar nú. En það er ekki rétt orðalag, að tala um upplýsingar, sem ráðh. hefði gefið í þessu efni, heldur ætla ég, að það sé satt, að hann gaf yfirlýsingu, sem var krafizt af lánardrottninum. Þannig var þetta lagt fyrir Sjálfstfl., þegar ætlazt var til, að hann legði samþykki sitt á það, að ráðh. gæfi þessa yfirlýsingu, sem lánardrottinn gerði að beinu skilyrði fyrir því, að lánið fengist. Ef hæstv. ráðh. telur, að hann geti farið fram á það á peningamarkaðnum í London og annarsstaðar að fá slíkt lán, þrátt fyrir þessa yfirlýsingu, þá er það fagnaðarefni. En ég vil ekki leyna því, að ég hygg, að yfirlýsing hæstv. ráðh. sé þess eðlis, að hann sjái sér ekki fært að fara aðra leið en þá að leita þessa láns annaðhvort hjá sama lánardrottni eða þá með samþykki hans. Það er þá á færi þessa sama lánardrottins að leysa fyrst þennan hæstv. ráðh. frá þeirri yfirlýsingu, sem hann á sínum tíma gaf, og svo getur hann leitað láns á eftir.

Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að sá aflabrestur, sem nú er á orðinn, hlýtur að auka mjög á þörf bankans til þess að afla sér gjaldeyris með þessum óeðlilega hætti, sem lántaka er. En það er þó sannast sagna, að hér kemur fleira til greina, sérstaklega það sem ég áður gat um, sem sé sú áníðsla, sem atvinnureksturinn hefir orðið fyrir af hendi ríkisvaldsins á undanförnum 10 árum, og sú röskun, sem skapazt hefir í atvinnu- og peningamálum landsins við skakka gengisskráningu undanfarinna ára. Ég vil leiða athygli hæstv. ráðh. að því, að enda þótt það sé þannig, að slíkur aflabrestur, þar sem nú liggja vörur í landi, sem eru 8 millj. kr. minna virði en í fyrra, hljóti að leiða af sér meiri þörf fyrir lántöku heldur en ef aflinn væri sami og í fyrra. þá er það nú samt svo, að ef við hefðum búið með skaplegum hætti á undan, þá hefði þessi gjaldeyrisskortur ekki sagt svo snögglega til sín. Þó fiskaflinn, sem lá í landinu í fyrra, hafi verið 8 millj. kr. meira virði en sá afli, sem liggur í landi núna, þá leiðir það ekki af sér það, að við á næstu mánuðum þurfum að lenda í gjaldeyrisskorti. Við höfum hér á landi nægan fisk til þess að fullnægja eftirspurninni a. m. k. allt þetta ár, og það lýsi, sem landsmenn eru búnir að bræða til sölu, nægir eftirspurn markaða þeirra, sem af okkur kaupa á næstu mánuðum. Það er þess vegna rétt, að menn geri sér það ljóst, að aflabresturinn á árinu skapar ekki nauðsyn til þess að taka lán til þess að greiða úr gjaldeyrisskorti af þessum ástæðum nú þegar. Sú nauðsyn mundi vitanlega skapast, þegar búið væri að selja þann afla, sem við þó fengum á land, og í stað þess að geta haldið áfram aflasölunni, ef eðlileg aflabrögð hefðu verið, að verða þá að lúta að því að hafa ekkert til þess að selja og þar af leiðandi engar afurðir til þess að standa undir gjaldeyrisþörfinni, — þá fyrst er að skapast þörf fyrir lántöku, sem orsakast af aflabrestinum.

Ég álít ekki tímabært og eðlilegt að fara langt út í gengismálið, þar sem ég er sá eini af mínum flokksbræðrum, sem tek til máls, og Sjálfstfl. hefir ekki tekið ákvörðun um það að ræða gengismálið í sambandi við þessa lántökuheimild. Ég leiði þess vegna hjá mér frekari umr. um málið heldur en ég hafði í frammi og læt ósvarað því, sem hæstv. ráðh. sagði að gefnu tilefni frá mér í sambandi við gengismálið, að öðru leyti en því, að ég leyfi mér að leiða athygli hans að því, að það er mjög alvarlegur og veigamikill misskilningur í hans ummælum um gengismálið, ef hann heldur, að hægt sé að ráða bót á skakkri skráningu krónunnar aðeins með því að færa niður innflutninginn með innflutningshömlum, því að niðurfærsla innflutningsins er mjög þungbær afleiðing af skakkri gengisskrán., en hinsvegar ekkert úrræði til þess að bæta úr þeirri skekkju. Ég skal aðeins til leiðbeiningar drepa á það, að þetta lítur þannig út, að ef gengið hefði verið réttilega skráð, þannig að atvinnureksturinn hefði verið rekinn með sæmilegri afkomu, þá hefði mátt hafa framleiðsluna á ýmsum sviðum miklu meiri heldur en nú er og þannig afla um leið miklu meira gjaldeyris heldur en nú er aflað og skapa betri aðstöðu til þess að kaupa erlendar vörur. Það er mörg framleiðsla, sem gæti borið sig. ef gengisbreyting væri komin á, sem útilokað er, að sé rekin eins og nú standa sakir. Með þeirri framleiðslu mætti svo afla gjaldeyris þjóðinni til handa til þess að standa undir auknum gjöldum, sem leiddu af auknum innflutningi.

Þetta er of flókið mál til þess að ræða um það í sambandi við þetta mál, og ég hef þess vegna nægja það, sem ég hefi tekið fram.

Ég býst svo ekki við að bæta neinu sérstöku við það, sem ég hefi sagt, nema mér gefist eitthvert nýtt tilefni til þess frá hendi hæstv. ráðh. eða annara, sem kunna að taka til máls.