06.05.1936
Neðri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1377 í B-deild Alþingistíðinda. (1959)

137. mál, viðbótarrekstrarlán handa Landsbanka Íslands

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég þarf ekki að vera langorður eða svara mörgum einstökum atriðum í ræðu hv. þm. G.-K. En það er í tilefni af þeim ummælum hans, að ég hefði haft þau ummæli, að þetta lán væri til að bjarga yfirfærslum fyrir atvinnuvegina, en þetta væri eingöngu til að hjálpa ríkissjóði með hans yfirfærslur, þar sem enginn fengi gjaldeyri nema framleiðendur. Hann veit, þessi hv. þm., að atvinnuvegirnir verða að sitja fyrir. En ég vil líka benda á, að það eru fleiri en ríkið og framleiðendurnir, sem keppa um gjaldeyrinn, það eru fleiri, sem skulda erlendis, en þessir aðiljar, eins og t. d. bæjar- og sveitarfélög, verzlanir o. fl., sem eru lántakendur á erlendum peningamarkaði. Þessi lántaka gerir þjóðbankann almennt betur færan um að sinna kröfum framleiðenda og annara um gjaldeyri. Ég er líka viss um, að stjórn landsbankans hefir ekki aðeins haft hag bankans fyrir augum, er hún ákvað að leita eftir heimild til þessarar lántöku, heldur líka sinna viðskiptavina.

Út af því, sem hv. þm. talaði um þær upplýsingar, sem ég hefði gefið í sambandi við lántökuna 1935, en hann vill kalla yfirlýsingu, vil ég endurtaka það, að ég tel — þrátt fyrir þær upplýsingar eða yfirlýsingu, hvort sem menn vilja heldur kalla það, er ég gaf 1935 í sambandi við lántökuna þá —, að landsbankinn geti leitað fyrir sér hvar sem er og hvert sem hann vill, og ég tel, að þó lántaka sé gerð undir þeim erfiðu kringumstæðum, sem nú eru, að þá fari það alls ekki í bága við þær upplýsingar um stefnu stj., að hún vilji ekki og ætli sér ekki að safna nýjum og nýjum skuldum að ástæðulausu.

Þá minntist hv. þm. á, að það væri að vísu rétt, að nú væri aflabrestur, en þó væri margs að gæta, og ekki væri nauðsynlegt að afla gjaldeyris nú þegar, heldur sjá, hvernig færi um síldveiðina, og því kannske réttara að taka lánið síðar.

Ég vil í þessu sambandi benda á, að þær vörur, sem helzt hafa gefið gjaldeyri á þessum tíma og fram til síldveiðitíma, fram í júlímánuð, þær eru lýsi og blautfiskur. Er sýnilegt, að gjaldeyrir fyrir lýsi er stórum minni nú sökum aflabrests, en um blautfiskinn er það að segja, að þó markaður sé takmarkaðri en í fyrra og af þeirri ástæðu minna selt, þá held ég, að mér sé óhætt að segja það, að minna hefir verið sótt á að selja hann nú, sem er heldur ekki óeðlilegt. Og ég fullyrði, að þetta hefir nú þegar haft áhrif á gjaldeyristekjurnar. Þá hefi ég ekki fært fram þau atriði, sem koma líka þessu máli við, en það eru hin stórkostlegu vandkvæði á því að fá afurðirnar greiddar; einkum er það þó í Ítalíu, þar sem við höfum verið neyddir til að gera vöruskiptasamning, þannig að það, sem hefir verið greitt áður í frjálsum gjaldeyri, er nú fast og stendur inni á sérstökum reikningi í Ítalíubanka, þar til vörur eru teknar út á innstæðuna, sem ekki verður fyrr en kemur fram á árið. Það er því ekki aflabresturinn einn, sem veldur gjaldeyrisvandræðunum, heldur líka aðrar ástæður, og skýrir það betur erfiðleikana, sem nú eru.

Þá segir hv. þm. að það sé röng skoðun, sem kom fram hjá mér, að hægt væri að ráða bót á gengisskráningu með innflutningshömlum. Hv. þm. hefir eitthvað misskilið þetta. Það, sem ég sagði, var, að gengisbreyting gæti ekki komið í stað haftanna. En um gengisbreyt. frá mínu sjónamiði er það að segja, að hún snertir aðallega eða hefir áhrif á, hvernig tekjurnar skiptast í landinu sjálfu, en stendur ekki í beinu sambandi við sjálft gjaldeyrismálið. Annars ætla ég, eins og hv. þm. G.-K., að leiða hjá mér almennar umræður um þetta mál.

Hv. þm. V.-Húnv. talaði hér nokkur orð, og lagði hann sérstaka áherzlu á, að sér fyndist óreiðuvottur felast í afgreiðslu þessa máls. Hér væri gert ráð fyrir að taka skyndilán, sem fyrirsjáanlega væri ekki hægt að greiða á tilsettum tíma, og hefði það yfir sér allan blæ óreiðunnar. Ég vil benda á, að þó allir séu sammála um, að óefnilega horfi nú, bæði um slæma markaði og að rekstur sjávarútvegsins hafi gengið hrapallega, þá er á engan hátt leyfilegt að gera ráð fyrir því, að Ísland geti ekki bætt hag sinn í framtíðinni, svo að það verði fært um að standa við sínar skuldbindingar.

Og ég held líka, að það sé órökstutt að halda slíku fram, því að það hefir komið fyrir mörg lönd að lenda í slíku, að þau hafa orðið fyrir óhöppum eða áföllum, og að þau hafa rétt við aftur, og ég held, að svo muni fara fyrir okkur, að okkur muni takast að rétta við aftur. Ummæli hv. þm. um, að þessar ráðstafanir, þ. e. lántakan til að komast yfir þetta erfiða ástand, væru óreiðuráðstafanir, eru algerlega ósæmileg, þar sem þjóðin hefir nú hert mjög að sér, eins og sést á þeim vöruskorti, sem er í landinu. En það er ekki hægt fyrir neina þjóð að standa slíkt af sér, þegar hvorttveggja ber að í senn, að markaðir minnka og framleiðslan þverr. Þetta verður ekki komizt yfir, nema með bráðabirgðaráðstöfunum, sem menn gjarnan vildu vera lausir við, en eru neyðarúrræði, en enginn óreiðuvottur.

Hv. þm. var að kvarta um, að hans flokkur gæti ekki fylgzt með í utanríkismálum og gæti því ekki myndað sér skoðun. Ég held, að þetta sé einhver misskilningur, því að ég veit ekki betur en hans flokkur eigi fulltrúa í bankaráði — þó að þeir hafi unnið það sæti með prettum, þá kemur það ekki þessu máli við — og vegna þessa hlýtur þeim að vera kunnugt um þær ástæður, er liggja til þess, að farið er fram á þessa heimild af bankanum. Og mér er ekki kunnugt um, að þessi fulltrúi hafi gert ágreining í bankaráði, því að í skjali því, er stj. barst frá bankanum, stendur, að enginn ágreiningur væri um þetta mál; kemur mér því þetta undarlega fyrir sjónir.