08.05.1936
Efri deild: 69. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1382 í B-deild Alþingistíðinda. (1976)

137. mál, viðbótarrekstrarlán handa Landsbanka Íslands

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég ætla nú ekki á þessu stigi málsins og undir þessum kringumstæðum að fara að endurtaka þær umr., sem svo oft hafa farið fram milli mín og hv. 1. þm. Reykv. um þær fjármálastefnur, sem við teljum okkur vera fulltrúa fyrir, enda mun hv. þm. hafa fyrir löngu heyrt þau rök, sem ég færi fyrir mínu máli. Hvað því viðvíkur, að það sé kominn fram einhver dómur um það, að stefna sú, sem ég hefi haldið fram, sé röng, þá vil ég vísa slíku alveg á bug. Það er ekki að búast við því, hvor aðferðin sem hefði verið viðhöfð, að hægt sé að standa af sér annan eins aflabrest og orðið hefir á þessari vertíð, án þess að leita til einhverrar lántöku til þess að komast yfir það versta. Það er alveg óhugsandi, að hægt sé að komast hjá því.

Út af því, sem hv. 1. þm. Skagf. sagðist taka sem yfirlýsingu stj. um, að hún treysti sér ekki til að halda öllu gangandi, þá vil ég taka fram, að ég veit ekki, hvað hv. þm. hefir átt við. En það getur þessi hv. þm., alveg eins og hver annar, gert sér ljóst, að það er ómögulegt að segja fyrirfram, hvort síldveiðin fer vel eða illa á árinu, eða hvort þorskveiðarnar, sem eftir eru, fari vel eða illa, en ef síldveiðin misheppnast og þorskveiðarnar misheppnast líka, þá verður þessi lántaka ekki nægileg til að bæta úr yfirfærsluvandræðunum.

Nú er það fjarstæða ein og sagt algerlega út í bláinn, að nokkur hafi tekið né geti tekið ábyrgð á því, að allt haldist gangandi. Hitt er annað mál, að skoðun stjórnar landsbankans fellur hér saman við skoðun ríkisstj., að ekki sé gerlegt að bæta við lánum meira en hér er gert ráð fyrir, en þetta er heimild, sem tryggara þykir að hafa, ef með þarf, en hún mun ekki verða notuð fyrr en í síðustu lög. Hvort þessi upphæð dugar eða ekki, eða hvort enn meiri hörmungar eiga eftir að dynja yfir þjóðina, um það getur enginn sagt, og enginn tekið ábyrgð á því, hvorki ríkisstj.hv. l. þm. Skagf.