04.03.1936
Efri deild: 15. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í B-deild Alþingistíðinda. (1989)

34. mál, atvinna við siglingar

*Magnús Jónsson:

Ég skal ekki verða langorður. Vitaskuld er mér þetta ekkert hitamál, eins og hv. þdm. ættu að geta skilið. En ég álít, að hér sé verið að víkja frá réttri stefnu, þar sem í stað þess að herða kröfurnar, er nú verið að gera tilraun til að rýra þær. Hv. frsm. n. sagði, að það hefði kennt misskilnings í minni ræðu áðan. Ég þarf ekki að fara út í það, því það kom aldrei fram í ræðu hans, í hverju misskilningurinn átti að vera fólginn.

Viðvíkjandi 6. gr. frv. reyndist ég nú lesa betur en sjálfur höfundurinn! En ég segi enn, að það er dregið úr kröfunum gagnvart smáskipaprófsmönnum í þessu frv., hvað sem kann að vera í frv. um stýrimannaskólann. Ég segi, að það sé að draga úr kröfunum, þegar á að auka réttindi þessara manna til að færa skip úr 60 í 75 smál. Þessu er ekki hægt að bera á móti. því að til þess að færa skip, sem eru þarna á milli að stærð, hefir áður þurft menn með meira prófi. Hv. frsm. segir, að það sé verið að herða á kröfunum til minnaprófsmanna, en það sé gert í allt öðru frv., sem rifið var nú út úr höndunum á honum og sett í allt aðra n. Hver segir, að það verði samþ.? Veit það nokkur, hvernig því reiðir af?

Hv. frsm. segir, að við séum kröfuharðari en aðrir og miklu strangari en nágrannar okkar. Ég veit, að það eru strangari kröfur í Þýzkalandi en hér og miklu harðari ákvæði um kunnáttu, skóladvöl o. fl. Ég vil líka segja það, að ekki er sama, hvernig kennslufyrirkomulagið er eða námstilhögun, án þess að ég vilji nokkuð dæma um þá hluti hér. Mér er t. d. sagt, að hér í stýrimannaskólanum séu menn látnir læra stjörnufræði og stærðfræði alveg jafnhliða, þó að vitað sé, að til þess að nema stjörnufræði þarf verulega stærðfræðikunnáttu. Ég þekki þetta úr guðfræðináminu. Þar eru ýms rit, sem lesin eru á grísku; það er óþægilegt, ef menn kunna ekki grísku, þegar þeir koma í skólann; það væri betra fyrirkomulag, að þeir kynnu málið, áður en þeir kæmu í skólann. Eins mun þetta vera annarsstaðar. Fyrst er að læra stærðfræðina, og þegar sá grundvöllur er fenginn, þá getur hitt námið byrjað, eins og t. d. stjörnufræði eða þá verkfræði. — Það er ákaflega mikill vandi að segja, hvað er strangara. Mér er t. d. sagt, að þó hér eigi að heita tveggja ára nám, þá sé fyrri veturinn oft endasleppur, og sé þá stundum farið snemma frá námi. Það er því margt, sem kemur til greina, þegar rætt er um, hvað séu strangar kröfur. Hitt er annað mál, að það er gott, ef meira öryggi fæst, t. d. með því að herða smáskipaprófið, og séð um, að menn fái þá þekkingu, sem þeir eiga að fá.

Um eitt atriði er ég alveg sammála hv. frsm., að fiskimennska og þekking á navigation — að það er sitt hvað og þarf alls ekki að fara saman. Ég hefi t. d. heyrt sagt um einn duglegan hákarlaformann, sem að vísu hafði kompás innanborðs, en hann þekkti ekki betur á hann en það, að hann vissi, að á honum var stór klessa, sem þýddi norður, samt var hann ágætur aflamaður. En þegar sett eru viss skilyrði, þá er viðkunnanlegra, að þau séu uppfyllt til fullnustu, en eftir síðari hluta 6. gr. á að afnema öll þau skilyrði, sem áður voru um kunnáttu og leikni þeirra manna, sem færa fólksflutningaskip af þessari stærð með ströndum fram. Hann segir, að þeir hafi ekki gagn af þekkingu. Ég vil nú út af því, að ég hafði réttara fyrir mér um 6. gr., spyrja hv. frsm., hvort það sé ekki skemmtilegra, að þeir þekki þó öll þau tæki, sem krafist er, þó í innanlandssiglingum sé. Ég get tekið skip eins og t. th Fagranes; það er hálfóviðkunnanlegt, að það sé gert að verkum með lögum, að því megi aðeins stýra minnaprófsmaður. Þetta er þó skip, sem flytur allskonar vörur og fjölda fólks milli hafna. Þetta er áreiðanlega ekki að stíga sporið áfram, heldur aftur á bak. Ef við ætlum hér að leggja hvað á móti öðru sem rök, þekking- una og fiskisældina, held ég að það verði ákaflega erfið röksemdafærsla. Fyrst er þekkingin og svo er fiskisældin, því að slá af kröfunni um þekkingu nær engri átt.

Hv. frsm. sagði, að ég mætti ekki miða við sjálfan mig, þó ég myndi hafa gagn af öllu, sem ég hefði lært, við mitt starf. Það er ákaflega langt frá því að svo sé. Ég get trúað, að láta muni nærri, að af 7 ára námi hafi ég ekki gagn af nema 1/10 hluta. Ég hefi ekki gagn af stærðfræðilærdómi mínum eða náttúrufræði, og ekki nema að litlu leyti af landafræðikunnáttu minni við mitt starf o. s. frv. En það er nú svo, að almenn þekking notast óbeint, hún eflir dómgreindina og kemur þannig óbeint að gagni. Það er því ekki rétt að segja, að þekking í ýmsum greinum sé gagnslaus.

Það dugar ekki, eins og hv. frsm. var að gera í síðari ræðu sinni, að vera alltaf að sanna, að það sé ósanngjarnt að auka réttindi smáskipaprófsmanna, í sömu andrá og hann vill verða við kröfum þeirra, þó með því sé slegið af frá því, sem nú gildir um þessi efni. Þeir hafa tekið smáskipaprófið með það fyrir augum, að þeir mættu fara með skip allt að 60 smálesta stærð. Ég er ekki að fara fram á, að þeirra réttur sé í nokkru skertur. Ef farið væri fram á, að svikizt væri aftan að mönnum, þannig að t. d. menn sem hafa tekið próf með það fyrir augum að fá rétt til að fara með 60 smálesta skip, fái ekki að fara með nema 30 smálesta skip, þá skal ég játa, að það væri ósanngjarnt. Menn eiga að fá þann rétt, sem menn hafa lært til, og meira ekki. Ef menn hugsa til þess að fiska á stærri skipum en 60 smálesta, þá verða menn bara að leggja á sig þetta óttalega nám, sem tekur tvö ár.

Til þess að verða prestur með 200 kr. launum á mánuði þurfa menn að læra í 10 til 13 ár, og kennarar verða að stunda langt nám nú orðið. Ég vissi um einn mann, einhvern röskasta fiskimanninn á Ísafirði, þegar ég var þar, sem vildi fara með stærra skip en 60 smálestir. Hann var orðinn nokkuð fullorðinn, eitthvað 50 ára að aldri. Hann brá sér bara suður til Rvíkur og tók stærra fiskimannaprófið, og fór síðan með línuveiðara og hvaða skip, sem hann átti kost á. Þetta er hinn eðlilegi gangur málsins, svo framarlega ef menn vilja á annað borð gera einhverjar kröfur til manna.

Hv. þm. sagði, að um þessa breyt. væru svo óendanlegar kröfur, að Alþingi mundi aldrei hafa frið, ef það léti ekki undan þeim. Hvernig á þá Alþingi að fara að í launamálunum? Það er sjálfsagt enginn launamaður á öllu landinu, sem ekki finnst, að hann hafi of lág laun. Á Alþingi að fara eftir öllum kröfum og bænaskrám sem fram koma um launahækkanir? Nei, Alþingi verður nú einu sinni að hafa kjark til að halda við sína stefnu, hverjar kröfur sem gerðar eru.

Það er bezt að athuga, hvað mörg skip það eru, sem standa á bak við þessar ógurlegu kröfur. Í grg. frv. stendur, að við höfum 24 skip af stærðinni frá 60 til 100 smálestir. Ég veit ekki. hvað mörg af þessum skipum eru frá 60 til 75 smálestir, en þau eru sjálfsagt talsvert færri en hin. Þetta er þá allur grundvöllurinn undir þeim ógurlegu kröfum, sem Alþingi sjálft á ekki að geta staðið fyrir, — svona ein 10 skip.

Hv. þm. hélt, að ef látið væri undan með að færa takmarkið upp í 75 smálestir, þá mundu kröfurnar stanza um skeið. Hvað mundi það verða lengi? Ég held, að liðið hafi 5 mínútur, þangað til upp stóð hv. þm. N.-Ísf. og kvaðst mundu bera fram brtt. við 3. umr. um að hækka takmarkið upp í 100 smálestir. Það má segja, það er friður. En ef fara á eftir nokkrum mannlegum reglum, þá fæst helzt friður með því að sýna óseigjanlegan vilja og láta aldrei sinn hlut. Hvers vegna höfðu Danir aldrei frið fyrir Íslendingum í sjálfstæðisbaráttunni? Af því þeir voru alltaf smátt og smátt að láta undan síga. Ef Alþingi telur eitthvað rétt, er sjálfsagt, að það haldi því bara fast fram og láti ekki sveigjast frá því. Einmitt það, að láta undan, skapar sífellt nýjar og nýjar kröfur. Ég býst við, að gangurinn verði sá, að það verði samþ. við þessa umr. að færa markið upp í 75 smálestir. Við 3. umr. beri svo hv. þm. N.-Ísf. fram brtt. um að færa það upp í 100 smálestir, sem líklega verður fellt hér. Þá fer frv. til hv. Nd. og þar koma fram þessar sterku raddir, sem hv. frsm. talar um. fyrir því að fá markið upp í 100 smálestir, og fá það samþ. þar. Svo býst ég við, að fyrir næsta þingi liggi krafan, sem lá fyrir síðasta þingi, um að færa þetta takmark upp í 150 smálestir. Hvað segir hv. 4. þm. Reykv. þá? Hvernig getur hann talað á móti öllum sínum röksemdum nú og verið á móti þessu?

Eina röksemdin hjá hv. þm. N.-Ísf., sem í fljótu bragði gæti virzt benda til þess, að rétt væri að samþ. þessa breyt., var sú, að þeir, sem tækju meira prófið, væru yfirleitt ófúsir að fara á þessi skip, sem hér er um að ræða; þeir hefðu ekki búið sig undir það að stunda fiskiveiðar á litlum skipum, ekki alizt upp á fiskiflotanum né ætlað sér það starf í upphafi, og því gæti oft verið erfitt að fá menn á þessi skip. En það þarf ekki nema aðeins að líta á þessa röksemd til þess að sjá, hvað algerleg, skökk hún er. Hér er ekki um annað að ræða en það, að þeir, sem ætla sér að vera með stærri fiskiskipin og hafa fengið alla leikni við veiðiskapinn, taka stærra fiskimannaprófið í stað þess minna, og þessir sömu menn koma vitanlega engu síður að notum fyrir flotann eftir sitt stutta tveggja vetra nám, hafa þá bara meiri þekkingu í sinni grein.

Ég held, að eftir standi þá aðeins ein röksemd, og það eru óskir þeirra manna, sem hafa minna prófið nú, um að mega fara með stærri skip heldur en nú er þeim heimilt. Og Alþingi verður að dæma um, hvort sérhagsmunakröfur þeirra örfáu manna, sem þarna er um að ræða, eru svo sanngjarnar, að undan þeim verði að láta.