04.03.1936
Efri deild: 15. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (1990)

34. mál, atvinna við siglingar

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Það er nú e. t. v. ekki ástæða til að vera að elta ólar við þetta karp. En hv. þm. byrjaði á því að skjóta því til mín, hvort ég gæti nokkra hugmynd gert mér um það, hvort þær þekkingarkröfur, sem ég hefði talað um, að ætti framvegis að gera til þeirra, er taka minna fiskimannaprófið, næðu fram að ganga. Vildi hann sneypa mig fyrir, að ég hefði ekki haft meira vald á því máli en það, að það hefði farið til annarar n. heldur en ég óskaði eftir. Já, ég saknaði hans nú í d. við það tækifæri, því ég ber það traust til hans, hvað sem liður ágreiningi okkar í þessu máli, að ekki hefði farið eins og fór, hefði hann verið í d. Hinsvegar ber ég það traust til hv. menntmn., að hún hafi ekki verið að heimta málið inn til sín til þess að rýra þær þekkingarkröfur, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég hygg, að það hafi fremur verið meining þess manns, sem vildi fá frv. til menntmn., að finna, hvort ekki vantaði í það eitthvað sem þekking héti. (MJ: Ég held, að enginn viti neitt um þetta efni í þeirri n., að þeim ólöstuðum).

Það er ekki rétt hjá hv. þm., að ég hafi sagt, að fiskimenn hefðu yfirleitt ekkert gagn af því, sem menn lærðu undir meira fiskimannaprófið. Ég sagði, að mikinn hluta af því, sem krafizt væri, notuðu þeir ekki við fiskiveiðarnar. Hann talaði um stjörnufræði í því sambandi. Ég held, að menn séu nú ekki yfirleitt að mæla gang himinhnatta á fiskibátum hér við land; það gera menn aðeins, þegar þeir þurfa að leiðrétta leiðarreikning úti á hafi. En þetta læra menn nokkuð undir meira fiskimannaprófið; það kemur bara ekki að verulegum notum á þeim skipum, sem hér er um að ræða.

Ég ætla nú með leyfi hæstv. forseta að lofa hv. þm. að heyra, hvað það er, sem heimtað er af þeim, er taka minna fiskimannaprófið. Þeir eiga að hafa:

1. Þekking á jarðarhnettinum, lögun hans og stærð, bauganeti hans, lengd og breidd. Kompáslínur og kompásstrik.

2. Þekking á kompásnum og á notkun hans, á misvísun, halla (inklination), segulskekkju og hvernig hún verði fundin með jarðlægum athugunum: á skriðmæli, vegmæli, grunn- og djúplóði.

3. Skyn á sjókortum, innhaldi þeirra og notkun.

4. Þekking á dagbókarhaldi, leiðarreikningi, straumi. drift, að setja stefnu skipsins og á að finna stað skipsins á kortinu.

5. Að kunna að finna, hvenær flóð verður og fjara.

6. Að kunna að nota sextant til þess að geta fundið stað skips með jarðlægum athugunum. Þetta er það, sem heimtað er af minnaprófsmönnum í navigation, og það er nákvæmlega það sama, sem meiraprófsmenn nota að jafnaði, ef þeir á annað borð nota navigation við strendur landsins; hitt gleymist. Eins og ég hefi margtekið fram, telja sérfróðustu menn þetta fullnægjandi þekkingu í sjómannafræði til þess að leiða skip með ströndum fram. Þessu námi er ætlað að taka minnst fjóra mánuði. Eins og nú er, geta menn búið sig undir meira fiskimannaprófið á einum vetri, en eftir þá aukningu á kennslu, sem nú er farið fram á, er gert ráð fyrir, að menn þurfti e. t. v. tvo vetur. Undir farmannaprófið, sem ég býst við, að hv. þm. blandi hér inn í, þarf aftur skilyrðislaust tveggja vetra nám.

Ég hefi þá leiðrétt það, sem hv. þm. hafði eftir mér, að menn hefðu ekkert gagn af náminu undir meira prófið.

Viðvíkjandi „Fagranesi“ get ég upplýst, að það er ekki nema 60 smálestir og getur því ekki komið til greina sem dæmi í þessu sambandi.

Hv. þm. sagði, að þeir, sem tekið hefðu minna prófið, hefðu aldrei vænzt þess að fá meiri réttindi heldur en til að fara með 60 smálesta skip. Það má náttúrlega segja um þá, sem búnir eru að taka þetta próf, en við erum hér að skapa reglur fyrir framtíðina, sem þeir, sem nema hér eftir, eiga að byggja á. Og ég held það hafi verið færð nokkurnveginn skýr rök fyrir því, að það sé ekki of langt gengið að leyfa þeim að fara með allt að 75 smálesta skip. Það er meðfram byggt á því, að af þessari stærð verður sennilega í framtíðinni hin minni tegund fiskiskipa okkar, mótorskipin, sem minna prófið er einmitt útbúið fyrir. Þau voru um langt skeið ekki mikið yfir 40 smálestir, en eftir að þau fóru að stækka, komu fram kröfur um að miða réttindin við 60 smálestir. Nú er farið að nota mótorskip til fiskiveiða, sem eru yfir 60 smálestir; geta þau jafnvel komizt upp í 100 smálestir. En eftir að komið er upp yfir 75 smálestir, er um skip að ræða, sem hægt er að nota til miklu lengri ferða heldur en þau minni, og er ekki ólíklegt, að slík skip yrðu notuð, ef við vildum fara að stunda veiðar norður í íshafi eða við Grænland. En enginn, sem dómgreind hefir um þessa hluti, vill leyfa mönnum með smáskipaprófi að sigla yfir opin höf.

Hv. þm. minntist á prestana í sambandi við þetta mál, hvað þeir yrðu að stunda langt nám til að búa sig undir sín láglaunuðu embætti. Ég veit nú ekki, hvort maður á að fara að bera saman kjör prestanna og fiskiskipstjóranna; þar er svo ólíku saman að jafna. En benda má á það, að eftir sitt langa nám fá prestarnir venjulega fast starf æfilangt, en skipstjórarnir geta ekki verið öruggir með atvinnu nema eina vertíð, — þá er þeirra dýrð ef til vill búin að vera.

Ég skal ekki spá neinu um, hvernig Alþingi kann að taka á þessu máli í framtíðinni. Mér þykir ólíklegt, að skoðanir þeirra, er nú sitja þingið, breytist svo, að þeir taki opnum örmum hverri kröfu um aukin réttindi smáskipaprófsmannanna. Hinsvegar er erfitt að sporna við rás tímans og þeim kröfum, sem sanngjarnar eru og rök má færa fyrir. Og ég verð að telja það sanngjarnt, að þessir menn fái að fara með 75 smálesta skip með þeim kröfum, sem til þeirra eru gerðar. — Hvað það kunna að vera mörg skip nú, sem þessi breyt. nær til, skal ég ekki segja um. Ef það er rétt, að 24 skip séu af stærðinni 60 til 100 smálestir, býst ég við, að það sé eitthvað nálægt sanni, að ein 10 þeirra séu frá 60 til 75 smálestir. En við vitum bara ekkert, hvaða stærð skipa verður mest byggð í framtíðinni, og á því eru e. t. v. kröfur smáskipaprófsmannanna að einhverju leyti reistar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að karpa um þetta lengur. Þó hér komi fram krafa um að miða réttindin við 100 smálestir, verð ég að segja það, að hv. þm. N.-Ísf. hefir fyllilega viðurkennt, að það væri rétt að ganga að þeirri miðlunarleið, sem hér er stungið upp á. Vitanlega ber hann þessa kröfu fram af ásettu ráði til þess að sjá, hvaða fylgi hún hefir í d., og er það ekki nema gott. En ég held, að hann sé okkur sammála um það, að viturlegast sé að fara einhverja miðlunarleið, eins og sakir standa.