11.03.1936
Efri deild: 21. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1406 í B-deild Alþingistíðinda. (1994)

34. mál, atvinna við siglingar

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Innan n. hefir ekki orðið samkomulag um brtt. minni hl., hv. þm. N.-Ísf., á þskj. 100 og 124. Meiri hl. er þeim mótfallinn. En eftir því, sem fram kom við 2. umr., geri ég ekki ráð fyrir, að hv. flm. sé sérstakt kappsmál að koma till. þessum fram.

Í 4. gr. frv., c- og d-lið, er þeim mönnum, sem ekki hafa skólapróf, gert að skyldu, að þeir kunni að setja stefnur og miðanir á sjókort eftir seguláttum og að þeir kunni að nota vegmæli og handlóð í sambandi við sjókort, ef þeir eiga að hafa rétt til að fara með báta undir 15 rúmlestum. Það er mjög fljótlært að setja stefnur á kort. En um það, að ónauðsynlegt sé að kunna þessa hluti, get ég ekki verið hv. þm. sammála. Eru mörg dæmi þess, að bátar, sem fara langt frá sinni veiðistöð, eiga erfitt með að átta sig, nema þeir hafi sjókort og kompás. Ég skal játa, að ef miðað er við einstaka staði á landinu, eins og t. d. Ísafjarðardjúp, þá sé ekki að jafnaði þörf á sjókortum. En þetta má ekki gera að reglu fyrir allt landið. Er því ekki mikið, þótt mönnum sé gert að skyldu að læra þetta. Hitt er annað mál, hvenær það yrði notað. Ég get bent á, að þeir, sem róa á smábátum sunnanlands, þurfa oft að fara langt út á haf, og er þá oft brýn þörf á kompás. Myndi það því rýra öryggið, ef þessari kröfu yrði sleppt niður, svo lítinn kostnað sem hún hefir í för með sér, enda er ekki nema fárra daga verk að læra þessa hluti.

Þá er aðalbrtt. á þskj. 100, að veita formönnum undanþágu eftir 5 ára heppilega stjórn. Við höfum nú rétt nokkuð um þetta hér í d., og er ég ekki í vafa um, að þetta myndi mæta almennri andspyrnu. Held ég, að ekki sé rétt af Alþingi að veita svo mikilsverða undanþágu nú. Þetta er náttúrlegu nokkuð svipaður grundvöllur og er í frv. eins og það nú liggur fyrir, þar sem þessum mönnum er leyft að færa skip upp í 75 smálestir. Ég tel það nægilega hátt takmark. Það hafa komið fram raddir hér í d. um það, að ekki ætti að auka þetta hámark úr 60 smálestum. Get ég hugsað mér, að þeir hinir sömu menn vildu því síður auka hámarkið í l00 smál. Meiri hl. sjútvn. er því mótfallinn þessari till., enda býst ég við, ef það væri samþ., að slíkt leiddi til nýrra skarpra mótmæla bæði innan þings og utan. Hitt get ég vel gengið inn á, að það kunni að finnast maður og maður, sem væri hæfur til að geta verið skipstjóri eftir þessari undanþágu, en slíkar undantekningar má ekki leggja til grundvallar fyrir aðalreglu, því þá mundi geta svo farið, að alveg óhæfir menn fengju undanþágu.

Í sambandi við brtt. hv. þm. á þskj. 124 verð ég að segja hið sama, að n. getur ekki fallizt á hana. Brtt. er við 51. gr., c-lið. og er um það að hækka hámarkið úr 1200 hestöflum í 1300 hestöfl. Tilefni þessarar brtt. mun vera það, að Alþingi hefir borizt bréf frá Eimskipafélagi Íslands, þar sem félagið óskar eftir því, að tvö af skipum þess, sem það telur hafa yfir 1200 hestafla vél, komist undir ákvæði c-liðs 51. gr. Við þetta er það að athuga, að annað það skip, sem hér um ræðir, Goðafoss, hefir ekki nema 1130 hestafla vél, svo það kemur ekki til greina. Um hitt skipið, Gullfoss, mun vera álitamál, hvort það heyrir undir ákæðin um frá 800–1200 hestöfl. Það er að vísu rétt, að þetta skip er í öllum okkar siglingaalmanökum talið hafa 1200 hestafla vél, en við nánari athugun hefir komið í ljós, að hér mun líklega vera færð upp tala. Skipaskoðunarstjóri ríkisins hefir rætt um þetta við sjútvn. ásamt tveimur öðrum vélfræðingum, sem unnið hafa að samningu þessa frv., og þeir hafa haldið því fram, að yfirleitt mundi þurfa að lækka skráningu hestafla á vélum þeirra skipa, sem mæld hafa verið eftir hinni eldri reglu. En auk þess hefir það komið í ljós, að vélin í Gullfossi mælist nú ekki hafa nema 1190 hö. eftir þessari gömlu svokölluðu dönsku reglu, og virðist því, að þeir, sem upphaflega mældu vélina. hafi „rúnnað“ töluna. Skipaskoðunarstjóri ríkisins, sem hefir með þessar mælingar að gera, hefir tvívegis mælt vélina og komizt að þessari niðurstöðu, svo ef úrskurðar yrði leitað um stærð vélarinnar, þá telur hann, að hún yrði ekki talin nema 1190 hestafla vél. Hvað þetta skip snertir, skilst mér því, að till. sé einnig óþörf, en vegna þessara tveggja skipa mun till. vera fram komin. (PM: Og annara skipa, sem eru á þessum takmörkum). Já, alveg rétt.

Nú er það vitanlegt, að kröfurnar um aukna vélaorku í sambandi við starf skipanna eru alltaf að aukast, auk þess fjölgar ár frá ári hjálparvélum í skipunum, sem notaðar eru til að vinna hitt og annað, t. d. kælivélar, sem notaðar eru í skipum, er flytja kældar og frystar vörur, og ýmsar rafmagnsvélar til ljósa o. fl. En þessar vélar auka þörfina fyrir eftirlit, og allar þessar vélar eru undir umsjón vélstjóranna. Hér er því um meira að ræða en var, meðan ekki var nema ein vél aðeins til að drífa skipið, auk þess sem hinar minni vélar þarfnast enn nákvæmari umsjár en hinar, svo að ekki má augunum af þeim líta. Það er því ekki fært að draga úr eftirlitinu með vélunum. Hitt, sem hv. flm. drap á, að hér væri verið að skapa nýja atvinnumöguleika, er ekki rétt. Það er ekki verið að gera ráð yrir neinu fyrir utan það, sem nauðsynlegt er, að á öllum stærri skipum sé fjórði maður við vélarnar til aðstoðar. Hinsvegar ætti ekki að draga úr því, að þeir menn, sem ætla að verða vélstjórar, hafi tækifæri til þess að öðlast þá æfingu í sínu starfi, sem þeim er nauðsynleg, og að þeir geti fylgzt með og tekið þátt í vélgæzlu allt frá lægstu störfum til hinna hæstu, áður en þeir takast á hendur þetta vandasama og ábyrgðarmikla starf, auk hins bóklega fróðleiks, sem áskilinn er, og það er einmitt það, sem frv. stefnir að að gera vélstjórana sem öruggasta í sínu starfi, en það er ekki hægt nema með því að skapa mönnunum tækifæri til þess að öðlast æfingu í sínu starfi, og ég hygg, að með þessu frv. sé ekki óhóflega farið í þær sakir. Þessi brtt. hv. þm. á þskj. 124 er því óþörf, eins og ég þegar hefi sýnt fram á, þar sem þetta eina skip sem um er að ræða, lendir ekki undir þann flokk skipa, sem á að hafa aðstoðarvélamann.

Eina og lagt er til í frv., á að flokka skipin eftir krafti vélanna, þannig að í 1. flokki verði skip, sem hafa 250–500 hestafla vélar, í öðrum flokki 500–800 hestafla, í þriðja flokki 800–1200 hestafla vélar. Ef þessi flokkur yrði ákveðinn með 800–1300 hestöflum, þá mundi fljótt koma upp krafa um að skipta þeim flokki og mynda nýjan flokk af skipum með 1100–1300 hestafla vélum, og yrði þá að sjálfsögðu um hærri vélstjóralaun að ræða á þeim skipum heldur en gert er ráð fyrir í frv., að verði á skipum með 800–1200 hestafla vélum. Mér er kunnugt um það, að vélstjórar munu gera þá kröfu, ef þessi brtt. verður samþ., og mundi hún því verða til þess eins að rugla það samkomulag, sem þegar er fyrir hendi um þessa flokkaskiptingu, auk þess sem brtt. skýtur algerlega yfir markið viðvíkjandi þeim skipum, sem brtt. er fram komin vegna. Ég legg því í nafni meiri hl. n. á móti þessari brtt.