07.05.1936
Neðri deild: 66. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (2022)

34. mál, atvinna við siglingar

*Emil Jónsson:

Ég get viðurkennt það með hv. 6. þm. Reykv., að málið hafi fengið óvenjugóðan undirbúning. En hér hafa þó komið fram tvö gagnólík sjónarmið. Annað sjónarmiðið er á þá leið, að þar sem til er í landinu meira en nóg af mönnum, sem færir eru um að fara með þessi skip, beri að láta þá hafa skipin, en ekki einhverja aðra, sem síður eru til þess fallnir. Hitt sjónarmiðið er, að það hljóti að minnka öryggið, þegar skipstjórn er tekin úr höndum fulllærðs manns og fengin í hendur ólærðum. Fær enginn mig til að skilja, að það dragi ekki úr örygginu. Hv. 3. landsk. talaði um, að skipið væri öruggara, ef það væri 15 smálestum stærra. Samkvæmt því mætti þá auka öryggið ótakmarkað, bara með því að auka tonnatöluna. Áður var þetta takmarkað við 30 smálestir. Nú er takmarkið komið upp í 60 smálestir, og enn á að hækka það upp í 75. Mér skilst, að þetta sé til þess að minnka öryggið. Því stærri sem skipin eru, því víðar fara þau, og því minna er vitanlega öryggið.

Hv. þm. sagði, að það væru allt aðrar og meiri kröfur, sem gerðar væru til manna nú en áður. En þegar litið er á frv. um stýrimannaskóla, sem verið var að samþ. hér, þá virðist það ekki mikið, sem krafizt er til burtfararprófs úr þeim skóla. Er sumt þannig, að hvert barn í barnaskólum þarf að vita það. Samt þótti þessari hv. d. of mikið að samþ. það eins og það var, því að hún fann ástæðu til að lækka námsefnið í íslenzku úr 100 bls. niður í 50 bls.