07.05.1936
Neðri deild: 66. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

34. mál, atvinna við siglingar

*Jakob Möller:

Í rauninni er mér ekki þörf að taka til máls, því að hv. meðflm. minn hefir gert svo rækilega grein fyrir brtt. okkar, að ég þarf þar engu við að bæta. Ég vil þó benda á, að þessi stækkun þeirra skipa, sem þessir minnaprófsmenn eiga að hafa rétt til að stýra, fer í öfuga átt við allt það, sem gert hefir verið í þessu efni á síðustu tímum. Við vorum rétt áðan að afgreiða frv. um stýrimannaskólann, sem hækkar mjög kröfur til þessara manna, en svo kemur þetta frv., sem gerir aftur minni kröfur og ónýtir það, sem byggt var upp með hinu. Það munar að vísu ekki mikið um þessar 15 smálestir út af fyrir sig. En hér er líka að ræða um 10 smálesta hækkun, því að sumir hafa barizt fyrir hækkun takmarksins úr 60 smálestum upp í 100. Þessi barátta fellur ekki niður, þó að þetta sé samþ. Hún hefir staðið hér á þingi eins lengi og ég man til. Koma þarna til greina vissir hagsmunir, sem munu gera það að verkum, að þessi barátta heldur áfram. Því verður þingið að taka afstöðu til málsins í eitt skipti fyrir öll. Þó að ekki sé að þessu sinni um meira en 15 smálestir að ræða, er víst, að það verður meira síðar.

Hv. 6. þm. Reykv. viðurkenndi, að þessi hækkun takmarksins væri hálfgerð vandræði, en hann huggaði sig við það, að prófkröfur þær, sem gerðar væru til þessara skipstjórnarmanna, væru auknar frá því, sem áður var. En þess ber að gæta, að kröfurnar hafa ekki aðeins verið auknar fyrir þessa menn, heldur alla, sem við skipstjórn fást. En þessar hækkuðu kröfur hafa verið gerðar ónýtar að nokkru leyti með því að veita um leið þessi auknu réttindi.

Hv. formælendur málsins, þeir sem eru á móti brtt. okkar hv. þm. Hafnf., bera því við, að frv. komist ekki í gegnum þingið vegna ágreinings um þetta atriði, ef þessi brtt. verður samþ. Hinsvegar hafa þeir lagt mikið út af því, hve gott mál hér sé um að ræða og hve miklar umbætur það feli í sér að öðru leyti. Það er því mikil vantrú á góðvild hv. Ed., ef hún á að láta þetta atriði stöðva svo gott mál, og ég þverneita því, að þetta sé frambærileg ástæða til þess að standa á móti þessari breyt. Hún er gersamlega óframbærileg, og það er hægt að eyðileggja hvert gott mál með slíkum grýlum. Ég vil aðeins vekja athygli á því, þótt hv. meðflm. minn hafi bent á það, út í hve miklar öfgar hv. 3. landsk. fór, þegar hann sagði, að það væri misskilningur, að það yki öryggi sjómannanna, ef brtt. okkar væri samþ., því að það væri svo mikið öryggi í því, að skipin væru stærri. Hvert komumst við með því að halda þessari hugsun rökrétt áfram? Að því, að það sé gersamlega óþarft að vera að gera nokkrar strangar kröfur um þekkingu þeirra manna, sem eiga að stjórna skipum. Það er ekkert annað en að hafa skipin nógu stór! Og ef haldið er áfram, þá endar það með því, að það verður breytt til á þann hátt, að stærstu skipin, millilandaskipin, verða sett undir stjórn þeirra manna, sem hafa minna próf, eða stýrimannaskólinn verður lagður niður og aðeins haft lítilsháttar námskeið, svo það verði sem allra rýmst og þægilegast að komast að. En skipin verða þá auðvitað að vera mjög stór! Þeir, sem hafa verið svo óheppnir að hafa lært mikið, verða þá líklega settir á einhverjar smákænur. Það verður ekkert annað handa þeim að gera.