28.04.1936
Neðri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

103. mál, landsreikningurinn 1934

*Jakob Möller:

Náttúrlega á ég eins og hv. 6. þm. Reykv. fullan rétt á því að spyrjast fyrir um einstaka liði í reikningum ríkisstofnananna, alveg eins fyrir því, þó Sjálfstfl. eigi fulltrúa í rekstrarráðum stofnananna. Sjálfur á ég sæti í einu þessu ráði, og einmitt þeirrar stofnunar, sem þeir reikningar heyra til, sem hér var verið að spyrjast fyrir um. Var hæstv. fjmrh. því að benda mönnum á að leita upplýsinga hjá mér. Það er náttúrlega í alla staði eðlilegt, að slík fyrirspurn komi fram, en ég verð því miður að segja, að sem fulltrúi í ráðinu hefi ég ekki getað fengið fullnægjandi upplýsingar um, hvernig þeim reikningum fyrir auglýsingar er varið, sem fyrirspurnin hljóðar um. Ég hafði að vísu, þegar ráðið fór gegnum reikninga þessarar stofnunar og samþ. var að óska nánari skýringa á ýmsum liðum, tekið fram að hafa auglýsingakostnaðinn með, og var einnig samþ. að beiðast upplýsinga um þann lið, en einhvernveginn hafði hann fallið niður, þegar bréfið var sent. Hefi ég ekki enn fengið upplýsingar um, hvernig þessu fé hefir verið varið. Hinsvegar er rétt að láta þess getið, úr því farið er að ræða um þetta, að þegar rætt var um reikninga áfengisverzlunarinnar í fjvn., barst þetta atriði í tal, og sagði forstjórinn, að það stæði í sambandi við auglýsingastriðið. Ég þurfti þá ekki að spyrja frekar, hvernig því auglýsingaatriði væri háttað, því það var mér mætavel kunnugt. Það er opinbert mál, hvernig hæstv. ráðh. hefir beitt sér með sínum alkunna skörungsskap og einbeitni í því máli. Var málaleitun beint til bæjarstj. Rvíkur um að auglýsa það, sem hún þyrfti að auglýsa, í framsóknarblöðunum eins og öðrum dagblöðum bæjarins. Fylgdi þeirri málaleitun tilkynning um, að ef þessu yrði ekki sinnt, mundi ríkisstj. sjá sig tilneydda að koma í veg fyrir, að ríkisstofnanirnar auglýstu í blöðum Sjálfstfl., og að yfirleitt mundi verða séð um, að sem minnst yrði þar auglýst viðvíkjandi starfsemi þess opinbera. Þóttist ég vita, að forstjórinn ætti við þetta auglýsingastríði. Stjórnarvöldin munu hafa litið svo á, að fyrst ekki varð samkomulag við bæjarstj. um að auglýsa í blöðum Framsfl., þá yrði að bæta þeim það upp með ríflegum auglýsingum af hálfu ríkisstofnananna. Það dylst engum, að þessi liður á reikningum áfengisverzlunarinnar er bending um, að þar sé ríflega veitt til blaða Framsfl. til þess að bæta upp þann halla, sem bæjarstj. Rvíkur hefir valdið með því, að sjá ekki ástæðu til að auglýsa þar. Ég get ekki bundizt þess að skoða málið í heild sem fullkomið hneykslismál, þar sem ekki er hægt að líta á aðgerðir hæstv. fjmrh. á annan veg en sem tilraun til að heita fjárkúgun við bæjarstj. Rvíkur og neyða hana til þess að eyða fé bæjarins til ónauðsynlegra hluta, sem ríkisstj. taldi sér viðkomandi og til ágóða. Ég skal taka það fram, að innan bæjarstj. og bæjarráðs var enginn ágreiningur um að ráðstafa auglýsingunum eins og að undanförnu þangað, sem þær gera gagn.

Það er vitanlegt, að þrjú stærstu dagblöðin, sem gefin eru út í bænum, koma sameiginlega í hendur allra bæjarbúa. Það mun óhætt að fullyrða, að ekki sé til einn einasti læs maður í bænum, sem ekki les eitthvert þeirra. Hinsvegar er það dómur allra, sem fjalla um þessi mál, að enginn ávinningur sé að bæta við blaði, sem jafnsáralítið er lesið og Nýja dagblaðið. Auk þess var aðferð hæstv. ráðh. svo óviðurkvæmileg sem frekast mátti vera, þar sem hann jafnhliða því að mælast til að fá auglýsingar frá bænum, hefir í hótunum um að koma fram hefndum á blöðum andstöðuflokkanna, og er með því að gefa í skyn að þeir, sem um þau mál fjalla, mundu láta það hafa áhrif á aðgerðir sínar í málinu. Gaf hæstv. ráðh. fyllilega í skyn, að hann væri þess fullvís, að bæjarstj. mundi vinna þetta til til þess að vernda hag annara blaðaútgefenda í bænum.

Í fyrstu var alveg neitað að taka þetta til umr. í bæjarstj., og var það sameiginlegt álit allra, að þetta væru algerlega ósæmileg tilmæli, sem ekki kæmi til mála að ræða, a. m. k. ekki meðan þau voru borin fram aðeins munnlega. En þegar fjmrh. ítrekaði tilmælin skriflega, voru þau tekin til meðferðar. En það hafði vitanlega engin áhrif á afstöðu bæjarráðs eða bæjarstj., heldur var það sameiginlegt álit allra, að því fé, sem varið er til auglýsinga, bæri að ráðstafa eingöngu með tilliti til þess, að það kæmi að sem beztu gagni. Þess vegna þarf engan að undra, þó það kæmi upp úr kafinu að auglýsingarnar frá ríkisfyrirtækjunum hafi að mestu gengið til flokksblaðanna, enda skildist mér, að það væri játað af forstjóra áfengisverzlunarinnar með þeim orðum, sem hann lét falla á fundi fjvn. Þetta er því dálítið óviðkunnanlegt, sérstaklega hvað þessa stofnun snertir, þar sem það er vitanlegt, að forstjórinn er meðútgefandi að því blaði, sem nýtur góðs af þessari gjafmildi fyrirtækisins. Þess vegna er ástæða til að spyrjast fyrir um, hvort það hafi ekki verið gert með sérstöku samþykki ríkisstj., þar sem ráðstafað er og greitt af hendi fé til fyrirtækis, þar sem forstjórinn á persónulegra hagsmuna að gæta.

Það kann að vera, að þegar meiri hl. ríkisstj., 2. ráðh., eru jafntengdir þessari blaðaútgáfu, þá megi ætla, að þessu sé ekki betur borgið, þó forstjórinn leitaði samþykkis ríkisstj. Ég hefi alltaf litið svo á, að þýðingarlaust mundi vera að gera þetta að umtalsefni á þessum stað. Ég býst ekki við, eftir framkomu hæstv. ráðh. frá upphafi, að hann hafi nokkuð við þetta að athuga; hann mun telja það allt gott og blessað.

Hefi ég annarsstaðar lýst yfir, hvaða skoðun ég hefi á þessu, og það alveg ótvírætt.

Ég býst ekki við að svo stöddu, að þingleg afskipti verði höfð af þessu máli, þó fullkomin ástæða væri til að gera eitthvað slíkt, því hér er um algert siðleysi að ræða.