08.05.1936
Neðri deild: 69. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (2040)

34. mál, atvinna við siglingar

*Emil Jónsson:

Hv. þm. Ísaf. heldur því fram, að reynsla eldra prófsmanna jafnist á við hina auknu þekkingu, sem krafizt verður af mönnum með smáskipaprófi framvegis. En þessi reynsla er oftast aðeins bundin við takmörkuð svæði og grundvölluð á þeirri takmörkuðu fræðslu, sem áður var veitt undir próf. Nú eiga menn samkv. lögunum að læra að handleika ný verkfæri, og það kennir þeim engin reynsla á 5 árum, ef þeir hafa ekki lært það frá grunni af þeim mönnum, sem með slík verkfæri kunna að fara. Starfsvið þeirra færist út með hinum auknu réttindum og þeir fara víðar kringum landið en áður. Því er aukin kunnátta nauðsynlegt skilyrði fyrir þeim.

Ég get ekki séð, að nein hætta þurfi að vera á því, að málið dagi uppi, þótt brtt. okkar verði samþ. Enn verða fundir í Sþ., og þar er hinn rétti vettvangur til að gera út um málið, úr því að d. koma sér ekki saman.