28.04.1936
Neðri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1438 í B-deild Alþingistíðinda. (2054)

81. mál, iðja og iðnaður

*Frsm. (Emil Jónsson):

Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls aftur. En hv. þm. Ak. rétti að mér það, sem ég get ekki látið kyrrt liggja. Hann sagði, að ég ekki einasta hefði farið með blekkingar, heldur vísvitandi blekkingar, tvisvar sinnum. Áður hefir þessi hv. þm. látið sér sæma að kalla mig flugumann iðnaðarmanna hér á þingi. Ætla ég, að hvorttveggja sé jafnrétt, bæði þessi síðari fullyrðing og hin fyrri, og honum einum sæmandi. Hann getur þá reynt að sanna sínar fullyrðingar. Hann sagði, að það væru vísvitandi blekkingar hjá mér, þegar ég sagði, að hann hefði gert samanburð á starfsemi bindindismanna og iðnaðarmanna. Hann gerði nú þennan samanburð. En ég sagði aftur á móti, að þessi samanburður hans væri álíka gáfulegur eins og ef hv. þm. héldi því fram, að bindindisstarfsemi ætti að einskorðast við kaupstaðina, eins og hann heldur því fram, að þessi l. um iðnaðinn ættu að gildi aðeins fyrir þá. — Að tala um, að ég hafi farið með vísvitandi blekkingar í sambandi við þetta mál, finnst mér ósæmilegt. Ég vil ekki bera hv. þm. Ak. það á brýn, að hann sé neinn flugumaður. En ég hefði kunnað betur við, að hann hefði fært orðum sínum frekari stað heldur en hann hefir gert í þessu efni.