28.04.1936
Neðri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

103. mál, landsreikningurinn 1934

*Sigurður Kristjánsson:

Hæstv. fjmrh. vildi halda því fast fram, að engra breyt. væri þörf á því, sem kallað er kritisk endurskoðun landsreikningsins.

Ég hefi að sönnu ekki haldið fram, að þörf væri á að endurbæta endurskoðun LR sjálfs en hæstv. ráðh. hefir ekki fært minnstu líkur fyrir því, að það sé í verkahring þeirra endurskoðenda að gagnrýna alla reikningana. Það er líka sú fjarstæða að ríkisstj. getur ekki, þó hún væri innan um tóm flón, gert það sennilegt, að 3 menn með 3750 kr. árslaun allir til samans, geti endurskoðað reikninga allra ríkisstofnananna. Það er fjarstæða, sem ekki er hægt að bera á borð fyrir vitiborna menn, og er vitanlega ekki gert, nema í algerðu rökþroti. En þetta raskar ekki því, sem ég sagði um þörf á aukinni endurskoðun. Ég vildi, að hún færi fram af og til allt árið, til þess að fyrirbyggja óhagsýna meðferð á fjárreiðum ríkisstofnana eða það, sem jafnvel verður að teljast óráðvandleg meðferð.

Það, sem hæstv. ráðh. sagði síðast, sýnir bezt, að það þarf að vera með vöndinn yfir höfði hans, þar sem hann hefir skýrt frá athæfi, sem varðar við l., og lá við a. m. k. flenging í gamla daga. Hér er beinlínis um fjárdrátt að ræða, þar sem hæstv. ráðh. lýsir yfir því, að hann hafi fyrirskipað, að ríkisstofnanirnar skyldu aðeins auglýsa í blöðum stjórnarflokkanna, en ekki í blöðum Sjálfstfl. Er með þessu verið að veita stjórnarblöðunum beinan fjárhagslegan stuðning, sem ekki er hin minnsta heimild fyrir, en óhætt er að segja, að er fullkomin óráðvendni.

Ég hefi athugað, að í þessum litla blaðsnepli, sem Framsfl. gefur út í bænum í litlu upplagi, sem ekki er lesið, hefir nú síðastl. ár verið auglýst hvorki meira né minna en 1600 cm. dálkslengd frá áfengisverzluninni og um 3000 cm. frá tóbakseinkasölunni. Er sjáanlegt, að hrúgað hefir verið inn auglýsingum aðeins til þess að skaffa blaðinu tekjur. Ég mundi ekkert hafa út á það að setja, þó Alþýðublaðið fengi svipaðar auglýsingar og önnur fjöllesin blöð. En hitt er merkileg einurð, sem hlýtur að stafa af því, að manninn vantar rétt mat á því, hvað er rétt og hvað er rangt. Það er eins og að vanti eitt stafgólf í hans siðferðislegu dómgreind. (Forseti: Þetta er aðeins aths.). Já, þetta er allt aths. —

Út af bifreiðunum sagði hæstv. ráðh., að þar hefðu verið gerðar umbætur til sparnaðar. Ríkisstj. hefði að vísu keypt bifreið, en selt aðra lakari, sem eyddi meira, og nú hefði hún einnig látið bifreiðarstjóra fara. Þetta var náttúrlega gott og blessað. En umbætur hæstv. núverandi stj. í þessu máli eru þær, að ríkisstj. hefir keypt í síðasta ári 4 nýjar bifreiðar. Og um eftirlitsmanninn er það að segja, að í staðinn fyrir að hann hafði einn „bílskrjóð“ hefir hann nú tvær bifreiðar. Þessi bíll, sem hann hafði, var þó ekki meiri skrjóður en það, að hann flutti hæstv. fjmrh. hálfhring í kringum landið á honum fyrir skemmstu. Þeir komust á honum austur á Austfirði. Að þessi maður hafi þurft að fá nýja bifreið í viðbót, er mjög ósennilegt, þar sem áfengisbrugg er, eins og vitanlegt er, alveg að hverfa úr landinu.

Það er vitanlega eins og hvert annað fleipur að segja, að ég tortryggi niðurstöður landsreikningsins, því að það geri ég ekki. En ég vil bara láta þá menn sem hafa þá endurskoðun á hendi, hafa meira starf fyrir sitt kaup.

Þá sagði hæstv. ráðh., að hv. 1. þm. Skagf. hafi hegðað sér ósæmilega í þessum bifreiðamálum. Þegar hann kom í ráðherrastól, þá seldi hann þær 3 bifreiðar, sem tilheyrðu þeim þætti, sem hann starfrækti í stjórnarráðinu. Þetta var alls ekki ámælisvert.

Hæstv. forseti er nú orðinn óþolinmóður. Og ég verð að virða hann svo mikils — af því að hann er virðingarverður maður — að ég stytti mína aths. En ég hygg, að eftir þessa aths. mína standi það óhaggað, að það sé þörf á ríkara eftirliti í þessu efni en verið hefir. Alþingi þarf að hafa tryggan aðgang að þeim mönnum, sem hafa nákvæma endurskoðun á þessum hlutum. — Ég hygg, að líka standi það óhaggað, að á þessum eymdatímum hafi hæstv. ríkisstj. lagt of mikið fé í bifreiðaprjál. Ennfremur hygg ég, að aths. okkar sjálfstæðismanna hafi leitt í ljós, að stj. hafi haft í frammi vítaverða eyðslu á ríkisfé til styrktar sínum flokksblöðum.

Það þyrfti að hafa þannig gagnrýnandi endurskoðun á landsreikningunum, að endurskoðendur gætu gert till. til Alþingis um, að stj. skilaði aftur því, sem hún hefir tekið með ófrjálsu móti af ríkisfé.