02.05.1936
Sameinað þing: 16. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1450 í B-deild Alþingistíðinda. (2095)

Hlutleysi útvarpsins

*Ólafur Thors:

Ég vek athygli á því, að það hefir verið nokkurnveginn föst venja alþflþm. að gera ekki verulegan greinarmun á Alþýðuflokknum og Alþýðusambandinu. Nú vill hæstv. atvmrh. halda því fram, að þetta sé tvennt mjög ólíkt, líklega í því skyni að geta meinað öðrum þingflokkum samskonar afnot af útvarpinu. Hv. 6. landsk. hefir boðið mér að afhenda mér ræðu sína, og þigg ég það. Dettur mér ekki í hug að væna hann um, að hann muni breyta þar einu orði. Ef hann hefir ekki sagt annað en það, sem í handritinu stendur, þá hlýtur það að koma í ljós, að hann minntist á Sjálfstfl. Hann sagði, að Sjálfstfl. vildi rífa niður allt hið gagnlega, sem rauðu flokkarnir hefðu gert. (Hv: Kallaði hann þá rauðu flokkana?). Nei, það gerði hann að vísu ekki, en þó að mér finnist yfirleitt ræður hv. 6. landsk. rökréttari og vitibornari en ræður hv. 2. þm. Reykv., þá er ég ekki svo gáfaður, að ég læri þær utan að.

Ég mótmæli þessu, sem þarna hefir farið fram. og tel, að eftir þetta geti aðrir flokkar í landinu krafizt þess að fá að gera hið sama, því að það verður að teljast óverjandi að taka útvarpið í þjónustu eins stjórnmálaflokks.