08.04.1936
Sameinað þing: 12. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1451 í B-deild Alþingistíðinda. (2100)

Minning Ingólfs Bjarnarsonar

forseti (JBald):

Áður en tekið verður til fundarstarfa vil ég minnast nokkrum orðum merkismanns og fyrrverandi alþingismanns, Ingólfs Bjarnarsonar í Fjósatungu, sem andaðist í nótt í landsspítalanum eftir holskurð, sem á honum var gerður fyrir nokkrum dögum.

Ingólfur Bjarnarson var fæddur 6. nóv. 1874 að Haga í Gnúpverjahreppi í Árnessýslu, en foreldrar hans voru báðir þingeyskir, Björn bóndi Guðmundsson frá Fagranesi í Aðaldal og kona hans, Ingibjörg Jónsdóttir, bónda á Fornastöðum í Fnjóskadal Jónssonar. Hann stundaði nám í Möðruvallaskóla og útskrifaðist þaðan 1892, stundaði síðan kennslu, verzlunarstörf og ýmsa aðra vinnu á árunum 1892–1901. Um 5 ára skeið, 1901–1906, var hann bæjarfógetaskrifari á Akureyri og oft settur bæjarfógeti á eigin ábyrgð í fjarveru þess embættismanns. Árið 1905 reisti hann bú í Fjósatungu í Fnjóskadal og bjó þar til dauðadags.

Á Ingólf Bjarnarson hlóðust snemma hin mestu trúnaðarstörf í héraði, enda báru menn til hans óvenjulegt traust. Hann var hreppstjóri frá 1907 til dauðadags, hreppsnefndarmaður 1906–1923, sýslunefndarmaður 1909–1923, safnaðarfulltrúi frá 1908 og formaður og framkvæmdarstjóri kaupfélags Svalbarðseyrar frá 1906.

Hann var einn af frumkvöðlum og forustumönnum samvinnuhreyfingarinnar hér á landi og var í stjórn Sambands íslenzkra samvinnufélaga frá stofnun þess 1917 til dauðadags, en formaður sambandsins frá 1925. Suður-Þingeyingar kusu hann á þing 1922, og sat hann samfleytt á Alþingi til 1933, en gaf ekki kost á sér til þingmennsku við kosningarnar árið eftir.

Þótt hann léti ekki mjög á sér bera á opinberum þingfundum, starfaði hann ótrauðlega að þingmálum og þótti jafnan tillögugóður, átti lengst af sæti í fjárveitinganefnd og var formaður hennar síðari árin og framsögumaður um skeið. Hann var höfðingi og prúðmenni í allri framgöngu, enda naut hann vinsælda og virðingar í öllum flokkum, þótt hann væri hinn eindregnasti flokksmaður.

Með Ingólfi Bjarnarsyni er í valinn hniginn á góðum aldri einn af drengilegustu og beztu samvinnumönnum landsins. Ég vil biðja háttv. alþingismenn að votta minningu hans virðingu sína með því að rísa úr sætum sínum.

Allir þm. stóðu upp.