21.02.1936
Neðri deild: 5. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (2141)

17. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Pétur Ottesen:

Þeir eru smátt og smátt að færa sig upp á skaftið hér á þingi, þeir menn, sem vilja draga úr öryggi fiskiveiðanna hér við land sem framtíðaratvinnugreinar landsbúa, því að eins og lög standa til nú um þessa hluti, þá er þó landsbúum heimilt að gera héraðssamþykktir hjá sér, a. m. k. meðfram helmingi af strönd landsins, til þess að útiloka þá rányrkjuveiði, sem botnvörpuveiðin er. Með þessu frv. er ætlazt til að kippa með öllu burt úr l. þessari heimild, sem héruðin hafa og hefir víða verið notuð, og gera þau þar með varnarlaus fyrir ágangi dragnótaveiða, ekki eingöngu íslenzkra manna, heldur líka allra Dana og Færeyinga, sem vilja þessar veiðar stunda hér við land. Alþingi, sem síðast sat, hundsaði gersamlega, eins og líka sjálfsagt var og skylt, þessa tilraun til að spilla landhelginni. Málið fór í n., sjútvn., sem er kosin, eins og kunnugt er, til þess að gæta hagsmuna sjávarútvegsins, og gerði hún sitt til að hindra framgang frv. á síðasta þingi. Vænti ég, að þau hin sömu forlög bíði þessa frv. nú.

Ég vil alveg sérstaklega vekja athygli hv. sjútvn. og hv. þdm. á því, að eftir að þetta frv. kom fram á síðasta þingi, bárust að áskoranir frá allmörgum stöðum um að fella þetta frv„ og yfirleitt að gera ekkert, sem gengi í þá átt að skerða þá friðun, sem stofnað var til með núgildandi löggjöf um þessi efni. Ég vil alveg sérstaklega vekja athygli hv. n. á þessu, því að ég vænti þess, að þetta frv. fái ekki frekari afgreiðslu nú en það fékk á síðasta þingi. Sú ein afgreiðsla álít ég, að því hæfi og þeirri tilraun, sem hér er gerð til að hleypa erlendum ágengnismönnum inn í landhelgina, sem nú er undir vernd þeirra laga, sem þessir hv. þm. vilja nú afnema.