21.02.1936
Neðri deild: 5. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (2143)

17. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Pétur Ottesen:

Ég vil vekja athygli hv. þm. á einu, sem kom fram hjá hv. 1. flm. þessa frv., ekki af því, að ég sé hræddur um, að orð hans marki djúp spor í hugi manna, heldur af því, að hér kynnu að vera fleiri á hans skoðun, — og það var þegar hann var að tala um innilokunarstefnu. Hvaða innilokunarstefna hefir ríkt hér á landi, eiginlega síðan farið var að sinna þjóðfélagsmálum af þingi og stj.? Þessi innilokunarstefna hefir komið fram í því að vernda, til hagsmuna fyrir landsmenn, ákveðið svæði kringum strendur landsins, svokallað landhelgissvæði. Þetta er sú innilokunarstefna, sem hefir ríkt hér á landi og ríkir hjá öllum menningarþjóðum. En þær till., sem hér koma fram, eru undanhald í því að halda við þeirri vernd, sem þessi innilokunarstefna felur í sér, bæði fyrir þetta land og önnur lönd. Nú stendur alveg sérstaklega á um okkar land í þessu efni. Kringum strendur þessa lands eru einhver þau auðugustu fiskimið, sem þekkjast á hnettinum. Nágrannaþjóðir okkar, Evrópuþjóðirnar, eru ákaflega miklar fiskveiðaþjóðir, og þau mið, sem næst þeim eru, eru ekki það fiskauðug, að þau séu fær um að láta þeim í té allan þann afla, sem þær þurfa með. Þess vegna eru venjulega hér við strendur landsins mörg hundruð erlendra fiskiskipa. Það er því alveg sérstök nauðsyn fyrir okkur Íslendinga að halda fast í þennan aldagamla rétt, sem við höfum fengið viðurkenningu fyrir hjá öðrum þjóðum. Þetta er sú innilokunarstefna, sem þessi hv. þm. er að ráðast á mig fyrir, að ég skuli vilja hafa í heiðri og á engan hátt skerða. Það er þessi innilokunarstefna, sem sett er til þess að tryggja þann atvinnuveg þessa lands, sem mestu máli skiptir þjóðinni í viðskiptum hennar við önnur lönd.

Hv. flm. segir, að ég hafi dregið í land í þessu máli. Það á vitanlega ekki við nein rök að styðjast. Er sá hugarburður hv. þm. sjálfsagt eingöngu sprottinn af hans eigin óskum í því efni. Nei, ég held alveg eins fast og áður við takmörkun veiðitímans, því að það má öllum vera ljóst, að lenging veiðitímans hefir ekki aðalþýðinguna fyrir okkur Íslendinga, heldur Dani. Hvers vegna stunda Danir ekki dragnótaveiðar hér meir en þeir gera? Það er af því, að það er ekki heimilt fyrr en fer að líða svo á sumar, að það er erfitt fyrir þjóð, sem á yfir mikið haf að sækja, með litla báta, að nota þessa veiði, þegar komið er fram á haust og veður farin að spillast. Þessi rýmkun kæmi því fyrst og fremst Dönum til góða. Og þegar það bætist við, að þetta veiðarfæri, dragnótin, er hættulegt fyrir ungviði nytjafiskjarins, þá er það augljóst mál, að það er ekki skynsamlegt að hleypa Dönum hér upp í landsteina til þess að spilla veiðinni fyrir okkur.

Það má líka benda á, að Danir hafa lengi stundað heima fyrir samskonar veiði sem þessa, en hún er nú mjög farin að þverra þar, og hefir það leitt til þess, að þeir eru nú að banna dragnótaveiði hjá sér á vissum tímum. Og nú er uppi í Danmörku sú stefna, að þetta þurfi að þrengja enn meir, vegna þess, að sökum of mikillar veiði þar sé fiskurinn mjög svo genginn til þurrðar. Þess vegna væri það ekki lítill hvalreki fyrir Dani, ef þeir mættu byrja þessar veiðar hér við land 15. júní og nota hásumarið, þegar kolaveiðar hjá þeim heima fyrir eru nú mjög að ganga úr sér og þeir hafa því mikinn skipastól að miklu leyti ónotaðan þar til að senda hingað. Danir mundu því grípa fegins hendi við þessari gæs og sleikja hér hverja vík og hvern vog við strendur Íslands á sumrin með dragnótum sínum.

Nei, mín aðstaða gagnvart því að framlengja veiðitímann er öldungis sú sama og gagnvart afnámi héraðasamþykktanna. Þar er ekki um neitt undanhald að ræða frá minni hálfu, síður en svo. Hin mikla nauðsyn þessara takmarkana eykst fremur frá því, sem verið hefir, þar sem aðsóknin á fiskimiðin hér við land virðist fara sívaxandi.