25.03.1936
Neðri deild: 33. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í C-deild Alþingistíðinda. (2151)

17. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Frsm. 2. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Ein, og hv. þm. Ísaf. tók fram, hefir sjútvn. ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þessa frv. Við hv. 6. þm. Reykv. leggjum til, að það verði fellt, og skal ég í því sambandi vísa til nál. á þskj. 166, sem við höfum gefið út, þar sem er í höfuðdráttum rakin saga málsins hér á Alþingi.

Það er um langan tíma búið að vera hér mikið deilumál, hvort dragnótaveiðin skuli leyfð eða ekki. Fyrst þegar löggjöf um þetta var sett, var einstökum héruðum gefinn kostur á, með leyfi ráðh., að banna dragnótaveiði út af hlutaðeigandi héruðum. Eftir þessum l., sem eru frá 1923, bönnuðu mörg héruð dragnótaveiðar á fjörðum og flóum. En með nýjum 1. frá 1928, um bann gegn dragnótaveiði í landhelgi, er veiðileyfið almennt bundið við i. sept. til 1. des., en algerlega bannað hina 9 mánuði ársins. Auk þess eru héraðabönnin einnig látin haldast á þessum tíma. 1. sept.–1. des., ef stjórnarráðið samþ. Á þessum l. frá 1928 hafa svo verið gerðar ýmsar breyt. síðan, en aðalbreyt. var gerð með bráðabirgðalögum frá 1932, þar sem veiðitíminn var rýmkaður allverulega. En þessi bráðabirgðalög voru felld á Alþingi 1933, en hinsvegar samþ. breyt., sem var í því fólgin, að á allstórum hluta landsins, eða svæðinu frá Hjörleifshöfða til Látrabjargs, skyldu dragnótaveiðar leyfðar í landhelgi frá 15. júní til 30. nóv. Og héraðabönn var ekki hægt að setja á þessu svæði. Aftur á móti skyldi heimilt að setja héraðabönn í hinum hluta landsins. Þessi lagabreyt. átti að gilda aðeins til ársloka 1934, en var á Alþingi 1934 framlengd til tveggja ára. Mætti sú framlenging mjög mikilli mótspyrnu, hvað þá ef rýmka hefði átt frá því, sem nú er.

Þau ákvæði, sem nú gilda um dragnótaveiðina, eru því þessi:

1. Á svæðinu frá Hjörleifshöfða vestur til Látrabjargs eru leyfðar dragnótaveiðar í landhelgi frá 15. júní til 30. nóv. (5½ mánuð). Veiðirétturinn á Faxaflóa og Breiðafirði er þó takmarkaður við skip úr tilteknum lögsagnarumdæmum.

2. Annarsstaðar við landið er dragnótaveiði bönnuð 9 mánuði, en leyfð í 3 mánuði, nema á þeim svæðum, sem héraðabönnin taka til. Þar er veiðin alveg bönnuð. En í frv. því, sem hér liggur fyrir, er farið fram á að lengja hinn almenna veiðtíma um 2½ mánuð, þannig að hann verði við landið allt 5½ mánuður, eða frá 15. júní til 30. nóv., eins og nú er við nokkurn hluta landsins, og að héraðabönnin verði algerlega afnumin. Þessa breyt. vill fyrri minni hl. sjútvn. samþ., en við hv. 6. þm. Reykv. getum ekki á það fallizt.

Ég vil í þessu sambandi fyrst og fremst vekja athygli á því, sem öllum hv. þm. ætti að vera ljóst, hve mikils virði okkur Íslendingum er landhelgin og hversu mikil nauðsyn er á því að fara gætilega í að rýmka um hana eða draga úr þeirri verndun, sem l. veita.

Þá vil ég vekja alveg sérstaka athygli á því atriði, sem kemur fram í nál. á þskj. 149 og frsm. fyrri minni hl., hv. þm. Ísaf., lagði aðaláherzlu á og talaði nálega eingöngu um, hve verðmikinn fisk væri hægt að fá á þann hátt að leyfa dragnótaveiði í landhelginni. Hv. þm. gerði samanburð á verði þorsksins, sem er aðalútflutningsvara sjávarútvegsins, og verði kolans, og taldi þess vegna óverjandi að láta tækifæri til að veiða hann ganga úr greipum útgerðarinnar. En ég verð að segja, að þessi rök nálgast mjög að vera óframbærileg í þessu máli. Mér virðist það ekki vera frambærileg rök eða yfirleitt hægt að tala um það, hvort mikið eða lítið sé hægt að hafa upp úr því í bili að draga úr verndun landhelginnar. Það má t. d. benda á, að íslenzku togararnir fá miklu verðmeiri fisk í landhelginni og þess vegna freistast þeir til að fara þangað endur og sinnum. En ég býst ekki við, að hv. þm. telji það nægilega ástæðu til þess að leyfa þeim óhindraða veiði í landhelginni. Þess vegna eru það alls ekki frambærileg rök, hvað hægt er fyrir útgerðina að hafa upp úr þessu í bili. Ég segi í bili, því að allt bendir til þess, álit fiskimanna og þeirra, er þekkingu hafa í þessum efnum, að slík rýmkun á löggjöfinni, með afnámi héraðabannanna yrði til stórtjóns í náinni framtíð. Og vitanlega er það aðalatriðið, sem mestu máli skiptir í þessu efni, hvað menn álíta um það, hversu miklum eða litlum skemmdum dragnótin veldur.

Hv. þm. Ísaf. benti á það og vildi telja það rök fyrir sínu máli, að fiskimenn á hinum og öðrum stöðum á landinu hefðu breytt nokkuð skoðun á þessu máli, þannig að ýmsir, sem áður hefðu verið mjög á móti notkun dragnótar, væru nú orðið með þessari rýmkun. Og hv. þm. sagði, að þetta hefði orðið samhliða því, sem þessir menn hefðu sjálfir eignazt dragnætur til þess að nota fyrir sjálfa sig. Ég verð nú að segja, að ég lít þannig á, að þessi staðreynd, að svo miklu leyti sem hún er rétt, tali á móti málstað hv. þm. Ísaf., en ekki með. Ég ætla, að það muni flestum þykja trúlegt, að þeir menn, sem ekki nota né hafa í hyggju að nota dragnót, séu óhlutdrægari um þessa hluti heldur en þeir, sem hafa eignazt þetta veiðitæki og þykjast þurfa að fá tækifæri til að nota það. Ég er þess fullviss, að um þetta muni fleiri vera á mínu máli en máli hv. þm. Ísaf. Þessi rök hv. þm. Ísaf. virðast mér því til stuðnings málstað okkar, sem ekki viljum rýmkunina, sem í frv. felst, um heimildina til dragnótaveiða.

Ég skal ekki fjölyrða um þá staðhæfingu hv. þm. Ísaf., að dragnótaveiðalöggjöfin sé brotin hér við land. En ég vil aðeins taka undir það, sem hann reyndar sjálfur mælti um leið og hann skýrði frá þessu, að þegar menn verða þess varir, að landhelgislöggjöfin sé brotin, þá er það náttúrlega ekki það eðlilegasta ráð að afnema lögin, til þess að ekki sé hægt að brjóta þau, heldur hitt, að koma á löggæzlu, til þess að löggjöfin sé ekki brotin. Þegar um það er að ræða, hvort rýmka skuli um landhelgislöggjöfina að þessu leyti, þá er ekki úr vegi að íhuga það, hvernig aðrar þjóðir, sem svipað stendur á um, fara að í þessu efni. Mér er kunnugt um það, að í Danmörku, þar sem menn þekkja ákaflega vel til þess, hvaða áhrif þetta veiðarfæri hefir, hafa einmitt verið leidd í 1. ákvæði mjög svipuð þeim, sem gilda í ísl. löggjöf um þetta efni. Okkur her mjög að líta á, hvað Danir álíta sjálfsagt í þessu efni, því að eins og hv. þm. Ísaf. tók fram, hafa þeir mikla þekkingu á þessu veiðarfæri og áhrifum þess. Eg veit líka, að í Svíþjóð eru svipuð ákvæði í 1. um þessar veiðar eins og hér eru. Aftur á móti munu í Noregi vera rýmri lagaákvæði en hér viðvíkjandi þessum veiðum. Mér er líka kunnugt um það frá fjölda norskra sjómanna, sem bera skyn á þetta, að komið hefir áskorun til norska Stórþingsins um að setja strangari löggjöf um þessar veiðar en þar er nú.

Það er þess vegna sama, hvar gripið er niður í þessu máli. Ef litið er á rök þau, er fyrri minni hl. sjútvn. ber fram, þá eru þau veik, því að í þeim rökfærslum er lögð höfuðáherzla á atriði, sem að réttu lagi má ekki ráða né hafa áhrif á úrskurð hæstv. Alþingis á þessu máli. Sama er um það að segja, ef litið er á það, sem fiskimenn í landinu segja um þessa hluti, því að þá kemur í ljós, að fiskimenn, sem helzt má ætla, að láti í ljós óhlutdrægt álit um þessa hluti, álíta dragnótina skaðlega og álíta, að það beri að takmarka notkun hennar sem mest. Ef litið er til nágrannaþjóða okkar, þá sýna þeirra gerðir í þessum málum, að þær álíta, að hér þurfi mikillar varúðar að gæta.

Skal ég svo ekki hafa fleiri orð um þetta að sinni. En ég vænti, að afstaða hæstv. Alþingis hafi ekki breytzt frá því, sem verið hefir á undanförnum árum, þannig að það reynist ekki mögulegt fyrir flytjendur þessa frv. að koma nú fremur en áður því til vegar, að landhelgin verði opnuð fyrir dragnótaveiðum, eins og flm. frv. vilja vera láta.