27.03.1936
Neðri deild: 35. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í C-deild Alþingistíðinda. (2156)

17. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Páll Þorbjörnsson:

Það er orðið nokkuð langt liðið síðan umr. um þetta mál voru síðast, og hefir sumt gleymzt af því, sem hv. þm. N.-Þ. sagði þá. En það vil ég segja um ræðu haus og fleiri þeirra hv. þm., sem eru andvígir þessu frv., að þeir virðast bera meiri umhyggju fyrir veiðiþjófunum — fyrir þeim, sem vilja laumast í landhelgi og veiða þar á ólöglegan hátt — heldur en fyrir fiskimönnum almennt. Þeir vilja, að kolinn sé friðaður fyrir dragnótaveiði í landhelgi. En ég vil spyrja: Fyrir hverja vilja þeir friða hann? Handa hverjum á að geyma hann? Nú er það vitanlegt, að kolinn er annaðhvort veiddur með botnvörpu eða með dragnót. Þeir, sem vilja friða kolann fyrir dragnótinni, vilja geyma hann handa togurunum, sem læðast inn fyrir landhelgislínuna til að veiða hann í vörpur sínar, þegar nótt fer að dimma.

Hv. þm. N.-Þ. sagði í ræðu sinni í fyrradag, að það kæmi ekki til mála að tala um það, hvort mikið eða lítið fengist fyrir aflann. Hann vill ekkert tillit taka til þess, hvort atvinnuvegurinn gefur góða eða slæma afkomumöguleika fyrir þá, sem stunda hann. Í þessu sambandi vil ég minna á það, þegar rýmkað var til fyrir Norðmönnum, einmitt til þess að hjálpa ákveðnum atvinnuvegi landsmanna og skapa þeim, sem hann stunda, betri afkomumöguleika. Þessir hv. þm. munu ekki hafa talið það mjög athugavert eða vitlaust á þeim tíma, sem norsku samningarnir voru gerðir, að stíga þar spor til að hjálpa íslenzkum kjötframleiðendum. Samt voru það þá erlendir þegnar, sem rýmkað var fyrir og veitt voru aukin réttindi, en hér er farið fram á það eitt, að fiskimenn landsins megi njóta þessara þægilegustu og beztu fiskimiða. (GSv: Og Danir! — PO: Og Færeyingar!).

Hv. þm. var mikið að tala um það, að alltaf væru að koma áskoranir til Alþingis um að loka landhelginni algerlega fyrir dragnótaveiðinni. En þessi hv. þm. og aðrir, sem andmæla þessu frv., gleyma að minnast á það, að áskoranir koma líka til Alþingis um að opna landhelgina, og til þessa þings hafa eingöngu komið slíkar áskoranir. Það er rétt, að í fyrra komu einhverjar áskoranir sunnan úr Gerðahreppi um að banna dragnótaveiðar. En það skemmtilega við þessar áskoranir er, að þær koma frá hinum ólíklegustu stöðum. Og í fyrra kom áskorun til þingsins um að banna að fiska flyðru á Breiðafirði. Að vísu var sú áskorun í sjálfu sér ekkert hlægilegri heldur en þessar áskoranir um að banna Íslendingum að nota landhelgina til dragnótaveiða.

Þá sagði hv. þm. það áðan, að við hefðum ekki lagt fram neitt álit frá fiskifræðingum í þessu efni. Þegar þetta mál var flutt hér á þingi í fyrra, fylgdi því álit fiskifræðinga, og það er öllum kunnugt, a. m. k. þeim, sem fengizt hafa við blaðamennsku, eins og þessi hv. þm., að sérstaklega annar af fiskifræðingum okkar hefir hvað eftir annað í blaðagreinum látið þá skoðun í ljós, að hann telji sjálfsagt að leyfa dragnótaveiðar í landhelgi á öðrum tímum heldur en meðan hrygningin stendur yfir. Það er líka kunnugt um hinn fiskifræðinginn, dr. Bjarna Sæmundsson, að hann hefir látið sömu skoðun í ljós, þó að hann hafi ekki gert eins mikið að því að skrifa um það opinberlega. Ég punktaði niður mér til gamans þann brandara hjá hv. þm. N.-Þ., að dragnótin væri þó ekki skaðleg öðrum fiskum en þeim, sem lentu í henni, en það er nú óþarfi að fara frekar út í það.

Þá kom hv. þm. síðast í ræðu sinni að atriði, sem hann dvaldi nokkuð við. Það var um þær ráðstafanir, sem aðrar þjóðir hefðu gert til þess að vernda landhelgina fyrir dragnótinni. Og sagði hann, að Danir og Svíar hefðu mjög ströng ákvæði hjá sér um bann gegn dragnótaveiði í landhelgi. En það er eftirtektarvert, að þessi „mjög ströngu ákvæði“ eru margfalt vægari heldur en þau, sem eru í lögum hjá okkur núna, því að hjá Dönum er aðeins bannað að fiska með dragnót í landhelgi frá 1. febr. til 31. marz. Það eru því aðeins 2 mánuðir — hrygningartíminn —, sem eru friðaðir. Á öllum öðrum tímum ársins eru dragnótaveiðar leyfilegar. (PO:Héraðabönnin!). Samkv. upplýsingum frá Fiskifélagi Íslands munu þau ekki vera til. (JakM: Það er ekkert að marka Fiskifélag Íslands, því að það er hlutdrægt í þessu máli). En það má geta þess jafnframt, að bannað er að flytja í land kola, sem er fyrir neðan vissa stærð, og er ákveðið svo, að ef hann berst í vörpu, þá skuli honum fleygt út aftur og reynt að sporna við því, að hann drepist við það. Þetta bann frá 1. febr. til 31. marz var gert með samkomulagi 14. des. 1929 milli Danmerkur, Danzig, Póllands og Þýzkalands, og þetta er það eina, sem nú mun vera í núgildandi lögum Dana um bann gegn dragnótaveiði í landhelgi.

Annars verð ég að segja það, að þessi andstaða gegn frv. er eiginlega merkileg, því að hér er ekki farið fram á annað en það, að öllum landsmönnum sé gert jafnhátt undir höfði. Það er farið fram á það, að þau ákvæði, sem eru í núgildandi lögum og gilda fyrir svæðið sunnanlands vestur að Látrabjargi, fái að gilda fyrir allt landið. Það er ennfremur farið fram á það, að einstök héruð, sem af vanþekkingu sinni hafa lagt bann við því, að fiskað væri með dragnót innan landhelgi, geti ekki tálmað athafnasömum fiskimönnum frá því að leita á þessar slóðir og afla þar.

Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að fara miklu fleiri orðum um þetta mál, en ég vil þó aðeins víkja að því, sem hv. þm. sagði síðast í sinni ræðu, þar sem hann var að tala um þá meðferð, sem slík frv. sem þessi hefðu fengið á undanförnum árum. Hann sagði, að það hefði verið vegna áhrifa fiskimannanna, sem slík frv. hefðu verið felld. Ég vil nú benda þessum hv. þm. á það, að nú a. m. k. um þó nokkuð mörg ár hafa það verið miklu fleiri menn, sem hafa óskað eftir því, að landhelgin væri opnuð fyrir dragnótinni, heldur en hinir, sem hafa óskað eftir því, að hún yrði lokuð. Og ég verð að segja, að það hefir verið skilningsleysi og þröngsýni nokkurra þm., sem hefir ráðið því, hvernig um þetta mál hefir farið, en ekki vilji fiskimannanna í landinu.