27.03.1936
Neðri deild: 35. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í C-deild Alþingistíðinda. (2158)

17. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Jónas Guðmundsson:

Eg var annar flm. að þessu frv., og þykir mér því við eiga að segja nokkur orð, sérstaklega þar sem svo kröftuglega hefir verið ráðizt á þetta mál, eins og hv. síðasta ræðumanns er von og vísa í hverju því máli, sem hann er á móti. Hann hefir nú haldið skörulegan fyrirlestur um skaðsemi þessa veiðitækis og þá ógæfu, sem þjóðfélaginu stafaði af því, ef eitthvert samræmi kæmist á þessa dragnótaveiðilöggjöf, sem frá minn sjónarmiði er eitthvert mesta vansmíðið, sem Alþ. hefir látið frá sér fara. En þar er landshlutum mismunað í ríkum mæli, þannig að menn eru útilokaðir í sumum landshlutum frá því að notfæra sér þetta veiðitæki þann tíma, sem l. gera ráð fyrir, að það sé ekki skaði að því að nota þetta veiðitæki.

Í þessum l. er um tvö aðalatriði að ræða. Annarsvegar er um það að ræða, hve langan tíma eigi að leyfa þessar veiðar í landhelginni, og hinsvegar, hvort það er rétt að leyfa einstökum héruðum að leggja bönn á þetta. Um fyrra atriðið vil ég segja það, að mín skoðun er sú, að það eigi blátt áfram að banna þessar veiðar svo langan tíma, að það sé talið öruggt, að gera ungviðinu, sem er að vaxa upp í fjörðum og flóum, ekki tjón, en svo vil ég, að hinn tímann sé hvergi heimilt að banna þessar veiðar. Við skulum hugsa okkur t. d., að á mörgum stöðum er það þannig, að fátæk fiskiþorp, sem byggja tilveru sína á því að afla fiskjar úr sjónum og á því að geta á vissum tímum notfært sér þessa veiðiaðferð og stundað dragnótaveiðar, geta það kannske ekki af því að hrepparnir í kring eyðileggja þennan möguleika fyrir þeim og fyrirmuna þeim að bjarga sér á þennan hátt. Þetta er álíka og ef kaupstaðarbúar á Akranesi hefðu heimild til þess að gera samþykkt um það, að bændur í Borgarfirði mættu ekki slá jörð sína, þó að hún væri fullsprottin og það væri engum að skaða, þó hún væri slegin. Þessi vitleysa, sem ég minntist á, á að hverfa úr l., því héraðabönnin eiga engan rétt á sér. Hitt á aftur á móti fullan rétt á sér, að banna þessar veiðar svo langan tíma, að Dönum og öðrum aðkomumönnum sé erfitt að stunda þær. En hver maður, sem á annað borð á þetta veiðitæki, á að geta farið hvert, sem hann vill, og veitt það, sem honum sýnist á þeim tíma, sem heimilað er í löggjöfinni að nota þetta veiðitæki. Það er í samræmi við heilbrigða hugsun, en hitt er veitleysa. Ég vil því eindregið skora á þá hv. þm., sem annars hafa eitthvað hugsað þetta mál, að gera hér þá breyt. fyrst og fremst að afnema héraðabönnin, því þau eiga engan skynsamlegan rétt á sér. Auk þess er það vitað um þessar samþykktir héraða, sem eiga að byggjast eins og l. og brot gegn þeim að varða sektum, að það dettur engum í hug að krefja þessar sektir inn af þeim, sem brjóta bönnin. Ég hygg, að á hverju ári sé sektaður fjöldi báta fyrir brot á þessum reglum, en mér þætti gaman að sjá þá upphæð, sem hefir verið greidd í landhelgissjóð fyrir brotin á þessum reglum. Þetta eru því þýðingarlaus ákvæði, og að hafa slík ákvæði í l. er til þess eins að ala menn upp í ólöghlýðni.

Það væri gaman að fara í kappræður við hv. þm. Borgf. um mörg þau atriði, sem hann minntist á viðvíkjandi dragnótaveiðum og skaðsemi þeirra fyrir smáfiskinn. En það atriði finnst mér ekki rétt, að við ræðum mjög mikið, þar sem við erum ekki neinir fræðimenn í þessari grein. En hitt er alveg sjálfsagt, að gera sér það ljóst, að það ósamræmi, sem nú er í þessari löggjöf, má ekki vera lengur og á ekki að vera lengur. Ég er sannfærður um það, að hv. þm. Borgf. og aðrir fallast á það við nánari athugun, að það á að nema í burtu þetta ósamræmi. Það má vel vera, að í þessu frv. sé sá tími, sem ætlazt er til, að hægt sé að stunda veiðarnar, of langur, en það er atriði, sem vel mætti taka til greina og samræma, ef það getur eitthvað stutt að því, að numin sé í burtu heimild einstakra hreppa eða sveitarfélaga til þess að setja þessi bönn á, og það er það, sem á að gera.

Hv. þm. Borgf. fór burtu úr d., en þar sem ég vildi sérstaklega beina máli mínu til hans um einstök atriði, þá ætla ég að geyma mér það þangað til síðar og læt því þetta nægja. Ég vil aðeins enn einn sinni undirstrika það, að þetta samræmi, sem er í löggjöfinni, sé numið í burtu, og svæðin kringum strendur landsins eiga að vera opin til afnota þann tíma, sem l. annars heimila þessa veiði í landhelgi.