27.03.1936
Neðri deild: 35. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í C-deild Alþingistíðinda. (2160)

17. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. 1. minni hl. (Finnur Jónsson):

Hv. 3. landsk. er búinn að taka fram flest rök, sem hægt er að færa fyrir þessu máli, og þau rök eru þannig vaxin, að þau ættu að nægja til þess að sannfæra hvern þann, sem ekki er staurblindur fyrirfram í þessu máli, heldur vill líta á það hlutdrægnislaust og með sanngirni.

Hv. þm. N.-Þ. þarf ég eiginlega engu að svara. Hann var að kvarta undan því, að við hefðum ekki lagt hér fram álit fiskifræðinga um málið.

Ef taka á þessa umkvörtun hans þannig, að hann muni skipta um skoðun samkv. slíku áliti, ef það lægi fyrir, þá mundi ég mælast til þess við hæstv. forseta, að hann frestaði umr. þangað til hægt er að ná í þetta álit. Ég veit, að það væri hægt að fá það strax í dag. Ef hv. þm. hefir hinsvegar ekki meint neitt með þessari umkvörtun, þá er ég vitanlega ekki að fara fram á neina frestun á málinu. Eftir nál. hans að dæma geri ég ráð fyrir, að ganga megi út frá því síðara, að álit hv. þm. sé fyrirfram bundið, án þess álit fróðustu mann, sem við höfum á þessu sviði. hafi þar nokkur áhrif á.

Í þeim till., sem fyrri minni hl. sjútvn. hefir lagt fram, er tekið það fyllsta tillit til atvinnuvega landsmanna, sem hægt er að taka. En í þeim till., sem hv. seinni minni hl. flytur, er ekkert tillit tekið til atvinnuveganna, heldur aðeins byggt á gömlum bábiljum; ekkert reynt að styðjast við nútímaþekkingu, eða taka tillit til þeirra ástæðna, sem nú liggja fyrir og eru talsvert breyttar frá því þau 1. voru sett, sem hér er farið fram á að breyta. Ég hefi rifjað það upp hér í hv. d. áður og sé ekki ástæðu til að fara, út í þá sálma frekar.

Hv. þm. Borgf. hóf ræðu sína á að lýsa mikilli ánægju yfir, hvað vel hv. þm. N.-Þ. hefði gert grein fyrir þeirri miklu hættu, sem fiskveiðum okkar Íslendinga stafaði af þessu frv., sem fyrri minni hl. sjútvn. leggur till. að verði samþ., og hvað vel hann gerði grein fyrir því, hvað öflugar varnarráðstafanir þyrfti að gera til þess að fiskistofninn gengi ekki til þurrðar. Mér datt í hug út af þessu, að „aldrei var því um Álftanes spáð, að ættjörðin frelsaðist þar.“ Það hefir víst aldrei komið hér fram áður, að hv. þm. N.Þ., sem er ekki ómerkur maður að vísu, bæri það skyn á sjávarútvegsmál, að hann gæti upplýst það, sem öðrum er hulið í þeim efnum. Ég styð þá skoðun mína m. a. á því, að hv. þm. N.-Þ. veit í rauninni alls ekki, hvað dragnót er. Ef hann vissi það, er ég öldungis viss um, að hann mundi ekki hafa gert sig sekan um að viðhafa þau ummæli, sem hann hefir haft í þessu máli. Dragnótin er í rauninni ekkert annað en venjuleg ádráttarnót, en ádráttarnætur eru leyfðar ekki einasta í landhelginni, heldur alveg uppi við land, þar sem þorskseiðin og sá gróður, sem þeim skýlir, helzt er. Og notkun ádráttarnóta svo mannsöldrum skiptir, er óhætt að segja, hefir ekki haft nein áhrif til skaða fyrir smærri fiskinn, sem elst upp á fjörðum inni; aðeins þarf að gæta þeirrar sjálfsögðu varhygðar að hafa möskvastærðina þannig, að smáfiskurinn geti smeygt sér í gegn, en það er einmitt það, sem Danir og aðrar þjóðir, sem sett hafa hjá sér lög um dragnótaveiði, hafa ákvæði um, að möskvastærðin sé þannig. Á þennan hátt er ádráttarnótin algerlega hættulaus fyrir ungviðið, og um dragnótina er það sama að segja, því hún er ekki annað en venjuleg ádráttarnót, sem notuð er frá skipum, í staðinn fyrir að þær venjulega eru notaðar úr landi. Að bera saman dragnót og botnvörpu nær því ekki nokkurri átt, því botnvörpuna er hægt að nota víðar en á sandbotni, auk þess sem hún er venjulega dregin með svo miklum hraða, að smáfiskar, sem smogið geta dragnótina, geta alls ekki komizt úr botnvörpunni. Mér þykir leitt að þurfa að verja dýrmætum tíma þingsins til þess að útskýra fyrir þm. muninn á botnvörpu og dragnót, en hjá því verður ekki komizt, þar sem því hefir verið haldið fram í d., að dragnót væri jafnvel ennþá skaðlegri heldur en botnvarpa.

Mér heyrðist hv. þm. Borgf. vera að kvarta yfir því, að ræða hans hefði vakið nokkurn hlátur hér í d., og mun hann heldur hafa ætlazt til, að menn grétu undir henni. Nú er það vitanlegt, að hv. þm. Borgf. er ákaflega tilfinningaríkur, en þó er það nú svo, að oft gætir meira kapps og ofsa í ræðum hans heldur en þeirrar viðkvæmni, að mönnum hætti til að gráta undir þeim. Hinu þarf hv. þm. ekki að kippa sér upp undan, þó það vilji til, að sá fítonsandi, sem hleypur oft í hann hér í hv. d., veki talsverðan aðhlátur. Þetta stafar af því, að hv. þm. á ákaflega bágt með að ræðu nokkurt mál þannig, að flytja fyrir því skynsamleg rök, heldur drukknar það, sem hann hefir fram að færa, í hans óstjórnlega ofsa, hvort sem hans flokksmenn eða aðrir eiga í hlut.

Hv. þm. vildi halda fram, að mjög hefði dreg- ið úr lúðu- og ýsuveiðum hér á Faxaflóa síðan farið var að nota dragnætur. Gaf hann jafnvel í skyn, að fiskileysi það, sem nú er hér við land yfirleitt, væri því að kenna, að dragnætur hafi verið notaðar í ein 2–3 ár á þessum venjulegu lóðasvæðum. Nú eru dragnótaveiðar ekki leyfðar lengra norður en að Látrabjargi, en fyrir öllum Vestfjörðum er þó og var í fyrra fiskilaust. Ekki getur það verið dragnótunum að kenna.

Hv. þm. Borgf. hefir gert sig hér sekan í töluverðri sögufölsun, því ef við lítum aftur í tímann, kemur í ljós, að aflaleysisár hafa komið við landið af og til, og það ekkert síður mörgum árum áður en farið var að nota dragnætur og botnvörpur. Meira að segja áður en lóðaveiðar byrjuðu komu svo mikil aflaleysisár, að ekki fékkst bein úr sjó heilar vertíðir. Mér er til dæmis í minni, að í bók Þorvalds Thoroddsens. Árferði á Íslandi í þúsund ár, er á einum stað sagt frá svo miklu aflaleysi við Faxaflóa, að ekki fékkst nema nokkrir háfar á sum skipin, — enginn fiskur. Ætla ég, að það hafi verið um miðja 78. öld. Ef hv. þm. vilja sannfærast um þetta frekar, veit ég, að hver maður þarf ekki annað en líta nokkuð aftur í tímann til þess að finna, að aflaleysisár hafa oft komið og eru ekki á neinn hátt þeim veiðarfærum að kenna, sem nú eru notuð við landið. Hv. þm. Borgf. vildi líkja því, að við vildum leyfa dragnótaveiði í landhelgi, við það, ef einhver dræpi kúna sína sér til bjargar. Ef við eigum að nota kúna hér til samlíkingar, verð ég að segja, að mér finnst framkoma hv. þm. Borgf. helzt líkjast framkomu fáráðlings, sem ekki vildi mjólka kúna sína af því að til þess þyrfti hann að taka í spenana á henni. og væri þá líklega hræddur um að þeir mundu slitna af.

Ég hefi áður bent á hér í hv. d., hvílík vandræði steðja að sjávarútveginum, þar sem sýnilegt er, að þorskveiðarnar eru að verða arðlitlan, eða e. t. v. arðlausar. Ég hefi bent á, hvað varhugaverð ráðstöfun það er, að banna að nota kolann, sem helzt við uppi í landhelginni, til þess að flytja hann á erlendun markað, m. a. í fiskkvóta okkar á Bretlandi, þegar á sama tíma er fluttur þangað þorskur, sem er svo að segja verðlaus. Ég hefi bent á verðmun kolans og þorsksins, og engum hefir dottið í hug að hrekja þetta. Það, sem haft hefir verið á móti þessu frv., sem fyrri minni hl. sjútvn. hefir lagt til að væri samþ., er fyrst og fremst skaðsemi dragnótarinnar fyrir ungviðið og sá skaði, sem það mundi hafa í för með sér í framtíðinni, ef slík veiðarfæri væru leyfð hér við land. Nú er það álit fiskifræðinga, að þessi mótbára sé á engum rökum byggð. Aðrar fiskitegundir, t. d. þorskurinn, er mest veiddur hér við land yfir hrygningartímann, en hér er gert ráð fyrir að friða kolann um hrygningartímann. Það er þannig farið með miklu meiri gát að því að veiða kolann, þó þetta frv. verði samþ., heldur en farið er með að því að veiða þorskinn, og dettur engum í hug að friða þorskinn um hrygningartímann, af því það er aðalveiðitími landsmanna. Löggjöf sú, er nú gildir um dragnótaveiðar um mikinn hluta landsins, er ekki til neins annars en þess að ala kolann upp landhelginni og gera landhelgina þar með eftirsóttari fyrir verstu landhelgisbrjótana, togarana. Einmitt það, að landhelgisveiðarnar eru svona arðsamar vegna kolans, gerir það að verkum, að meira er togað í landhelginni og því meiri skaði gerður á öðrum nytjafiski heldur en ella mundi vera, ef landsmenn sjálfir á smábátaflotanum veiddu kolann, sem vissulega er einn arðsamasti fiskurinn, sem fæst hér við land.

Þá hefir það verið fært fram sem ástæða móti till. fyrra minni hl. sjútvn. í þessu máli, að Danir mundu hafa eitthvert sérstakt gagn af þessum veiðum. Ég hefi bent á það hér í d., að þegar löggjöfin um þetta efni var sett, áttu Íslendingar engar dragnætur; þeir þekktu ekki kolamiðin og kunnu ekki að nota dragnætur. En nú er þetta breytt. Margar íslenzkar skipshafnir kunna að nota dragnætur, og gera það með góðum árangri. Og þó Danir séu góðir veiðimenn, þá hefi ég ekki trú á öðru en að Íslendingar sjálfir geti notið þessara veiða miklum mun betur heldur en Danir geta nokkurntíma. Það má benda á nokkuð hliðstætt dæmi með síldveiðarnar. Landhelgin er opin fyrir Dönum til þess að veiða síld með herpinót, en af því Íslendingar eru miklum mun reyndari orðnir við að veiða síld með herpinót í landhelginni, er það ekki arðvænlegt fyrir Dani, og ákvæðið um, að Danir megi veiða með herpinót í landhelginni, er okkur því skaðlaust. Ég ætla, að sama mundi verða reyndin á um dragnótaveiðarnar, þegar Íslendingar færu að nota dragnætur almennt, að það mundi ekki borga sig fyrir Dani að koma hingað til lands til þess að veiða með dragnótum.

Ég get svo látið útrætt um þetta mál að öðru leyti en því, að ég vildi minnast örlítið á þá gusu, sem hv. þm. Borgf. rak út úr sér út af norsku samningunum. Hann vildi álasa okkur jafnaðarmönnum fyrir það, að við hefðum á sínum tíma barizt með hnúum og hnefum á móti norska samningnum, kallað hann landráðasamning og heimtað hann felldan úr gildi hið fyrsta. Nú værum við komnir í stjórnaraðstöðu, en ekki hefði þó bólað á því, að við vildum afnema norska samninginn. Nú er það vitað, að þessi norski samningur er fyrst og fremst til orðinn fyrir grunnhyggni og ofurkapp formanns Sjálfstfl., og hann lagði svo mikla áherzlu á, að þessi landráðasamningur kæmist í gildi, að hann kúgaði ýmsa mæta menn í Sjálfstfl., sem annars lýstu sig á móti þessum samningi, til að greiða honum atkv., og þar á meðal ætla ég, að hv. þm. Borgf. hafi verið. Ef það er rétt munað hjá mér, að hv. þm. Borgf. hafi í rauninni lýst sig á móti þessum samningi, fellur ásökun hans um það, að við jafnaðarmenn höfum ekki afnumið samninginn, um sjálfa sig. Ef hv. þm. hefir álitið og álítur samninginn hagkvæman fyrir þjóðina, situr ekki á honum að vera að tala um slíkt. Nú er vitanlegt, að formaður Sjálfstfl. hefir ekki minni völd í flokki sínum heldur en þegar norski samningurinn var gerður, og má búast við, að hann geti eins áfram barið flokksmenn sína undir sig, sem í hjarta sínu eru á móti samningnum, og látið þá greiða atkv. með að halda honum í gildi, eins og hann neyddi þá til að samþ. hann móti vilja þeirra. Þess vegna var það ekki til neins fyrir Alþfl. að leita stuðnings hjá Sjálfstfl. um afnám norsku samninganna, því það var fyrirfram vitað, að slíkt mundi engan árangur bera. Um Framsfl., sem Alþfl. er í stj.samvinnu með, er vitað, að hann var mjög eindregið með því að koma samningunum á. Ég hygg, að ég megi upplýsa í þessu sambandi, að Alþfl. hafi farið fram á, að samningunum væri sagt upp, en Framsfl. hafi þá látið í ljós, að ef Alþfl. stæði fast á því að fá norsku samningunum sagt upp og fengi því framgengt, mundi það valda stj.skiptum. En ég verð að segja, að þó ég hafi alltaf álitið norsku samningana skaðvænlega og til vansa, þá tel ég samt ennþá meiri skaða og vansa að því, að láta íhaldið komast að völdum í landinu. Tækifæri hefir ekki heldur gefizt til þess að leita samvinnu um þetta atriði við Sjálfstfl., þar sem fulltrúar hans hafa hlaupið brott úr utanríkismálan. af þeim ástæðum, að form. Sjálfstfl. taldi sig og menn úr fjölskyldu sinni meidda af einum manni úr utanríkismálanefnd. Og þegar form. Sjálfstfl. hefir hlaupið úr utanríkismálan. og ekki gegnt þar skyldu sinni, geta hv. þm. þess flokks varla risið upp og gert sig gleiða yfir utanríkismálunum, þar sem þeir og hafa brugðizt skyldum sínum á þessum vettvangi út af þessum hlægilega hégóma.