27.03.1936
Neðri deild: 35. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (2161)

17. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Pétur Ottesen:

Ég skal fyrst víkja að því, sem hv. þm. Ísaf. endaði á. — Það er ekki að ófyrirsynju, þó sósíalistarnir minnist á framkomu sína gagnvart norsku samningunum og allt sitt tal um þá, sem þeir nú eru búnir að éta ofan í sig. Er gott, að þeir hafa ekki fallið alveg í gleymsku og það, sem um þá var sagt fyrst þegar þeir komu fram. Nú hefir hv. þm. Ísaf. játað ótilkvaddur, hvers vegna hann og hans flokkur hafa étið öll fyrri ummæli ofan í sig, en það er til þess að kaupa sér aðstöðu til að lafa áfram í stj. En í þessu felst, eftir þeirra eigin orðum, að þeir skirrast ekki við að drýgja landráð til þess að lafa við völd. Sýnir þetta vel siðgæði flokksins, og er ég ánægður yfir, að þessi viðurkenning er fram komin, og það eiginlega ástand hefir verið gert uppskátt. Er ég hv. þm. Ísaf. þakklátur fyrir þessa skýru játningu.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði um það, að form. Sjálfstfl. hefði á sínum tíma knúið fram norsku samningana, þá er þar til að svara því, að þá var svo ástatt um afkomu landbúnaðarins, að ef ekki hefði haldizt kjötsalan til Noregs, var það sama sem að leggja kjötframleiðsluna í rústir. En þetta sýnir vel afstöðu sósanna til landbúnaðarins, að þeir skirrast ekki við að ganga af honum dauðum. Það sýnir aðeins, að allt tal þeirra um landbúnað er ekki annað en blekkingar út í loftið, sem þeir meina ekkert með, þar sem þeir vildu setja löggjöf, sem hefði lagt landbúnaðinn í rústir. — En nú er aðstaðan til sölu í Noregi gersamlega breytt. En þessir hræsnarar ættu ekki að vera að tala um umhyggju fyrir landbúnaðinum, því öll framkoma þeirra vitnar á móti, að nokkur alvara sé þar á bak við.

Að því er snertir störf Sjálfstfl. í utanríkismálan., þá skal ég ekki fara út í það mál nú. Það hefir áður verið gert og mun gefast tækifæri til þess síðar. Ástæðan af hálfu flokksins var sú, að einum fulltrúa hans í n. var sýndur sá ódrengskapur, að flokkurinn taldi sér ekki fært að taka þátt í störfum n. fyrr en trygging er fengin fyrir því, að slíku haldi ekki fram. En ef sú trygging fæst, stendur ekki á sjálfstæðismönnum að taka þátt í n.-störfum. — Ég mun svo ekki fara fleiri orðum um þetta atriði. En það sýnir bezt, hvað sósíalistarnir hafa meint með öllu sínu tali um þetta mál, að þeir skuli ekki hafa notað aðstöðu sína til þess að segja norsku samningunum upp. Og það er ekki einungis, að ráðh. sósíalistanna hafi setið á norsku samningunum, heldur hefir hann gert samning við aðra þjóð, sem mjög fer í sömu átt og samningur sá, sem þeir á sínum tíma töldu landráð. Þetta sýnir bezt alvöruna, sem á bak við hefir staðið hjá þessum mönnum.

Þá skal ég snúa mér að aðalumr. og fara fljótt yfir sögu. — Hv. 6. landsk. byrjaði dálítið einkennilega sína ræðu. Hann sagði, að það, sem ræki mest eftir, væri að fá samræmi í l. Við skulum nú athuga þá aðferð, sem beitt hefir verið í þessu máli. Fyrst var byrjað á að opna landhelgina við lítinn hluta landsins, og svo koma menn og segja, að það þurfi að opna landhelgina fyrir öllu landinu, til þess að samræma 1. Það er sama aðferð og sagt er að fjandinn noti, að smeygja inn litla fingrinum, en svo kemur öll höndin á eftir. M. ö. o., hér á að nota þann fleyg, sem búið var að koma inn í l., til þess að opna landhelgina upp á gátt. Sjálfsagt hefir tilgangurinn átt að helga meðalið hjá hv. þm., sem taldi hag að slíkri löggjöf sem þetta frv. fer fram á, og vildi hann halda því fram, að sú veiði, sem þar er leyfð, gerði ungviðinu ekkert tjón. En nú er vitað, að ungviðið er allt sumarið á grunnsævi nálægt landi, en fer ekki í dýpri sjó fyrr en á haustin, er kólnar. Till. um opnun landhelginnar er því til þess að auka stórkostlega skaðsemi fyrir ungviðið og því í algerri mótsögn við tal þessara manna. Það eru því auðsjáanlega tvö öfl, sem berjast um hv. þm., — annarsvegar sannfæringin fyrir því, að það þurfi að vernda ungviðið, og hinsvegar tilhneigingin til þess að ganga algerlega í berhögg við það, vegna stundarhagnaðar. Hv. þm. var að líkja veiðibanninu við það, að banna að slá fullsprottið tún. En dæmið er algerlega öfugt eins og hann setur það fram. Okkar till. er alveg hliðstæð því að vernda nýgræðinginn og slá ekki grasið fyrr en það er fullsprottið.

Þá var auðfundið, að hv. þm. hafði dálítið viðkvæma tilfinningu fyrir því, sem ég sagði, að hér væri verið að greiða götu Dana. En það er vitanlegt, að það er því erfiðara fyrir Dani að stunda veiðina, sem hún er opnuð seinna að sumrinu. En aftur eru það tvö öfl, sem slást um hv. þm. Annars þykir mér vænt um, ef orð mín hafa orðið til þess að vekja athugun hv. þm. á þeirri skaðsemi, sem það getur valdið að opna landhelgina svo snemma sumars fyrir Dönum, auk þess tjóns, sem það veldur ungviðinu.

Ég þarf fáu að svara hv. 3. landsk. Þó að hann hoppaði hátt í loft, smeygði hann sér algerlega hjá að tala um málið, og sýnir það bezt, hvernig hans aðstaða er, og mun hann því tæplega vera fær um að taka á sínar herðar það tjón og þá skaðsemi, sem af því getur hlotizt, ef sú till., sem hann hefir mælt með, yrði samþ. hér á Alþingi. Mun hv. þm. kikna undan þunga þessa alvörumáls, og verða þar að klessu, sem lítið verður eftir tekið.

Þá vitnaði hv. þm. í löggjöf, sem væri í gildi í Danmörku. Ég skal benda á l., sem þar voru sett 1931 og banna alla dragnótaveiði við Limafjörðinn í 7 mánuði, eða frá 15. sept. til 15. apríl. Þannig er það hjá þeirri þjóð, sem mesta reynslu hefir í þessum efnum, þó hv. þm. gali um að opna veiðina hér við Ísland fyrir hverjum, sem hafa vill fyrir því að nota sér hana. Það er líka svo, að flest í okkar l., þar á meðal héraðabönnin, er sótt í dönsk l., og get ég því fært hv. þm. fullar sönnur á, að þar er fullkomið samræmi á milli, en að hann fer þar með rangt mál. (PÞ: Mínar upplýsingar eru frá 1936).

Þá var hv. þm. að tala um, að náttúruöflin og ýmsar gráðugar skepnur eyddu ungviðinu. En eins og ég sagði áðan, þá er einmitt helzta vörnin fyrir þessi vanmáttugu dýr inni á fjörðum og flóum, en svo ætlar hv. þm. að yfirganga allan þennan gráðuga stórfisk, með því að sópa ungviðinu upp með dragnót, sem er hættulegasta morðtól, sem hægt er að nota.

Þá má minnast aflaleysisáranna, sem komið hafa og geta komið, og hvernig þá muni verða umhorfs. Áður stunduðu þó aðeins smábátar veiðina, sem ekki sóttu nema á næstu mið, en nú er fiskurinn veiddur af vélbátum og togurum með öllum fullkomnustu tækjum, sem þekkjast, og því verða öll fiskimiðin í sömu hættu. Þess vegna er óhjákvæmilegt, til þess að halda fiskimiðunum, að vernda landhelgina. En eigi að auka á alla þá hættu, sem steðjar að seiðunum, með því að leyfa dragnætur í landhelginni, er fyllsta ástæða til að búast við, að slík ránveiði hefni sín í framtíðinni. Og það er þetta, sem á milli ber, hvort leyfa eigi slíkt og afnema landhelgina, eða leggja áherzlu á að vernda ungviðið.

Hv. þm. var að tala um, hvort ég vildi þá ekki einnig banna Færeyingum handfæraveiðar. En slíkt er ekki sambærilegt; handfærin gera engri skepnu mein nema þeim nytjafiskum, sem dregnir eru. Sýnir það bezt rökþrot þeirra sálufélaga, að bera dragnæturnar saman við jafnóskaðleg veiðarfæri og handfærin.

Hv. 3. landsk. þóttist vera að benda á, að Danir gætu komið hingað á minni skipum til þess að stunda veiði á því svæði, sem nú er opið. En hv. þm. skýtur þar framhjá marki, því nú er í l., að þar mega ekki önnur skip stunda veiði en þau, sem skrásett eru við Faxaflóa eða Breiðafjörð, og þess vegna er ekki hægt fyrir Dani að stunda þá veiði, nema láta skrá skipin hér og hafa hér fasta útgerð. Nú hafa Danir reynt að stunda hér veiðar á djúpmiðum, en reynslan hefir sýnt, að þeir eru ekki færir um það. En hitt er vitað, að þeir hafa næga leikni og manndóm til þess að skafa víkur og voga í blíðskaparveðrum um hásumarið. Og þeir hv. þm. Ísaf. og hv. 3. landsk. vilja gera þeim svo létt fyrir sem hægt er, með því að kippa í burtu öllum hindrunum, sem Fiskifélagið hefir ráðlagt að taka upp í l. Hv. þm. Ísaf. fannst, úr því hann var kominn af stað, að hann þyrfti að reyna kattarþvott á þeim, sem honum standa næst, sósíalistunum. En svo vildi hann halda sprettinum lengra. Honum fannst það einkennilegt, að ég skyldi vera að vitna til hv. þm. N.-Þ., sem ekki væri sjómaður. En það er vegna þess, að þó hv. þm. sé ekki sjómaður, hefir hann nægilega mikið vit og skilning til þess að taka til greina álit sjómannanna og fordæma það athæfi, að hrifsaður sé af héruðunum sjálfsákvörðunarrétturinn í þessum efnum.

Þá var hv. þm. Ísaf. að tala um, að hv. þm. N.-Þ. mundi ekki vita, hvað dragnót væri. En ég verð að segja, að það leit helzt út fyrir, að hv. þm. Ísaf. vissi ekki, hvað dragnót er, eða a. m. k. að hann vissi ekki, hvaða afleiðingar yrðu af því að nota hana við veiðina. Hv. þm. talaði svo fávíslega um það, að undrun sætti. Það er vitað, að dragnótin dregur jöfnum höndum seiðin og nytjafiskana, og í því er hættan fólgin. Það getur verið, ef hv. þm. Ísaf. tekst að opna landhelgina upp á gátt fyrir Dönum, svo að þeir sigli hingað sínum skipastól, að hann læri svo af því, að hann yrði dómbær í málinu. Þá fengi hv. þm. bókstaflega að komast í dragnót hjá Dönum. En Danir mundu skemma svo fiskiveiðarnar, að landsmenn fengju að súpa seyðið af því síðar. Og samanburður hv. þm. á fyrirdráttarnetum og dragnót náði ekki nokkurri átt. (FJ: Hvers vegna?). Vegna þess að það er algerlega ósambærilegt.

Þá var sami hv. þm. að tala um, að það væri leitt að eyða dýrmætum tíma þingsins í svona óþarfar umr., og að þær hefðu vakið hlátur. Þessu hefði hann gjarnan mátt sleppa, því það mun aðeins einn maður hafa hlegið, hv. 3. landsk., sálufélagi hv. síðasta ræðumanns, og ef hann vildi gefa lýsingu á því, af hverju hláturinn var sprottinn, gæti það út af fyrir sig borið nokkurt vitni um, af hve mikilli skynsemi málið er flutt. Og þá mundu hinir vel geta unað athlæginu.

Hv. þm. Ísaf. var eitthvað að tala um skynsemina, að það gæti kannske borið út af með hana í sambandi við minn málflutning. Ég ætla nú ekki að fara út í þetta. En ég held, að þessi hv. þm., ef hann vill ekki höggva nærri sjálfum sér, ætti að tala sem minnst um skynsemi í sambandi við málflutning í þessu efni. Hv. þm. Ísaf. sagði, að dragnótaveiðar hefðu ekki verið stundaðar á Faxaflóa nema 2–3 ár. En þessar veiðar er búið að stunda þar í 10 ár. Tilraunir hv. þm. í þá átt að hnekkja mínu máli um lúðu- og ýsuveiðar á Faxaflóa verða einnig árangurslausar, því að þar er það reynslan, sem talar.

Ég vil líka benda á það, að það er ekki alveg þýðingarlaust fyrir önnur svæði en flóana, sem liggja næst hrygningarsvæðunum, Faxaflóa og a. n. l. Breiðafjörð, hvernig farið er með ungfiskinn, heldur hefir það einnig áhrif á fiskveiðarnar kringum landið.

Þarf ég svo ekki að fara frekar út í þetta mál að sinni, enda mun fundartími nú vera útrunninn. Vænti ég þess vegna, ef umr. verður ekki lokið nú, að hæstv. forseti veiti mér leyfi til að gera stuttu aths. við framhald þessarar umr. síðar, til þess að sýna hv. þm., sem talað hafa hér um dönsk l. í þessu sambandi, framan í þessi dönsku lög.