06.03.1936
Neðri deild: 17. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (2174)

60. mál, sauðfjárbaðanir

Jón Pálmason:

Eins og hv. þm. muna, var töluvert harður slagur hér í hv. d. á fyrri hl. síðasta Alþ. um fjárkláðamálið í heild. Endirinn varð sá, eins og kunnugt er, að samþ. voru l. um útrýmingu fjárkláðans.

Þeir menn, sem flytja þetta frv. hér, og hafa manna á milli fengið nafnið „kláðafriðunarmenn“, börðust mjög hart gegn því að frv. um útrýmingu fjárkláðans, sem samþ. var í fyrra, næði fram að ganga. Þá fluttu þeir í sambandi við það frv. svipað frv. þessu, sem hér liggur nú fyrir. En einnig fluttu þeir á síðari hl. síðasta Alþ. shlj. frv. því, sem hér liggur nú fyrir, og það fékk þá afgreiðslu í landbn., sem hér er getið um. En það lítur svo út, sem flm. frv. vilji ekki hika við að tefja störf hæstv. Alþ. áfram með því að ræða þetta mál og stofna til að halda uppi deilum um það. Hversu mikið flaustursverk hjá þessum hv. flm. þessa frv. er á því, sýnir m. a. það, að þegar þeir lögðu þetta frv. fram, þá vitnuðu þeir í l., sem búið er að afnema, og töluðu um, að dagskrá um þetta mál hefði verið samþ. á síðasta þingi, en sú dagskrártill. kom aldrei inn á þing til umr. Þegar þeim, sem fluttu frv., hafði verið bent á þessar villur, láta þeir fyrst taka þær burt, þegar það er prentað upp. Þetta sýnir, hvernig starfsemin er hjá þessum hv. þm. að því er þetta mál snertir.

Ég mun greiða atkv. á móti því, að þessu frv. verði vísað til n. En verði því vísað til n., þá á ég sæti í þeirri n. og á því kost á að fylgjast með gangi málsins þar.

Aðalgrundvöllur þessa frv. er sú kenning, sem þessir menn og nokkrir aðrir hafa haldið fram, og vonlaust verk sé fyrir okkur Íslendinga að reyna að losna við fjárkláðann. Um þetta stendur deilan, og um þetta hlýtur deilan að standa þangað til fengin er um þetta full reynsla.