13.03.1936
Neðri deild: 23. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í C-deild Alþingistíðinda. (2183)

60. mál, sauðfjárbaðanir

*Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen):

Ég verð mjög að taka undir með hv. þm. N.-Þ. um, að ég skil ekki afstöðu meiri hl. landbn. í þessu máli. Sérstaklega verður afstaða þeirra óskiljanleg, þegar þess er gætt, að þeir eru valdir hér í Nd. Alþingis til þess að hugsa um og undirbúa þau mál, er sérstaklega snerta hagsmuni landbúnaðarins. — En hverju eru þessir menn að berjast á móti? Ég skal nefna þrjú atriði eða fjögur, sem þeir eru að berjast á móti. Er þá fyrsta atriðið, sem þeir eru á móti, að forstöðumaður rannsóknarstofu háskólans skuli vera hafður með í ráðum um val á baðlyfi. Við vitum, að þessi maður hefir þegar fengið viðurkenningu fyrir störf sín í þágu landbúnaðarins, og þó sérstaklega hvað snertir sauðfjáreign landsmanna. — Í öðru lagi berjast þeir gegn því, að hreppsnefndum skuli lögð sú skylda á herðar að sjá um, að til séu nægilega margar sundþrær í hreppi hverjum til að baða í sauðfénað hreppsbúa. Og nú er það almennt viðurkennt, að ekki er hægt að baða nema í sundþró, svo að vel sé. Í þriðja lagi berjast þeir gegn því, að sýslunefndir skipi baðstjóra í hverjum hreppi, einn eða fleiri eftir þörfum, til að líta eftir því, að sauðfjárbaðanir séu framkvæmdar. Þetta felur í sér meira öryggi en að hreppsnefndir tilnefni þessa menn, því eins og við vitum, kemur oft upp ýmiskonar kritur, sem alveg yrði útilokað, ef sýslunefnd hefði þessa tilnefningu með höndum. Í fjórða lagi berjast þeir gegn því, að baðað sé samtímis á þeim svæðum, þar sem sauðfé manna gengur saman, eins og skýrt er tekið fram í frv. þessu, en er alls ekkert ákvæði um í gildandi lögum. En vitanlegt er, að það getur gersamlega ónýtt alla böðun, ef baðaða féð nær að ganga saman við óbaðað þegar eftir böðun.

Þessi 4 atriði eru það, sem meiri hl. landbn. gengur nú gegn, allt saman atriði, er þessir sömu menn komu með í lagafrv. sínu um útrýmingarböðun, atriði, sem þeir töldu þar sjálfsögð og voru samþ.. en þeir ekkert vilja hafa með að gera nú. Ég vil ekki skangast á við þessa menn, því að framkoma þeirra er þannig í þessu máli, að þeir þrælstangast þar við sjálfa sig, svo að sannarlega er ekki á bætandi, enda ekki menn fyrir meira. Ég vænti þess, að meiri hl. hv. þdm. hafi vit fyrir meiri hl. landbn. og sporni ekki við því, að jafnsjálfsögð ákvæði og þessi séu í lög tekin.

Ég vil enn undirstrika ummæli hv. þm. N.- Þ., að afstaða þessara manna er gersamlega óskiljanleg, þ. e. a. s. frá sjónarmiði landbúnaðarins. Það getur verið, að á síðasta þingi — í fyrra — hafi þeir litið á þetta frv. sem „konkurrent“ við sitt frv. um útrýmingarböðun, en nú eru þeir búnir að fá sínum gráðuga vilja framgengt hvað það snertir, svo ekki ætti það lengur að vera til fyrirstöðu.

Ég er sannfærður um, að útrýmingarböðun er óþörf, ef þrifaböðunin er framkvæmd eins og vera ber. Með því móti að hafa framkvæmd þrifabaða í fullkomnu lagi mætti því spara það fé, sem fer til útrýmingarböðunarinnar, og sé ég nú ekki, að það væri skaði skeður, þó að sparaðist töluvert af því fé, sem ætlað er til útrýmingarböðunar. Ég vil ætla, að hv. þdm. séu ekki á móti því, að fé, sem á að kasta í sjóinn, verði bjargað, hvað sem meiri hl. landbn. álítur um þá hlið málsins.

Ég ætla ekki, hvað snertir útrýmingu kláðans, að ræða það atriði hér, en eins og við vitum, fór hér fram útrýmingarböðun undir eftirliti norsks sérfræðings. Og það fór eins og fór, að hann kom strax upp aftur. Víðar en hér er pottur brotinn í þessu efni. Í því mikla sauðfjárlandi Skotlandi hefir ekki tekizt að útrýma kláðanum, og eru þó öll vísindi þar komin á hærra stig en hjá okkur; þeir treysta sér ekki lengra en að halda kláðanum niðri með þrifaböðun.

Ég treysti því og vildi mega vænta þess, að stór meiri hl. hv. þdm. samþ. frv. þetta, því eins og ég hefi sagt, þá felur það í sér ákaflega miklu meira öryggi um góða framkvæmd þrifabaðanna en með bezta vilja er unnt að finna í gildandi lögum.