13.03.1936
Neðri deild: 23. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í C-deild Alþingistíðinda. (2185)

60. mál, sauðfjárbaðanir

Páll Zóphóníasson:

Ég skal ekki lengja mikið þessar umr., en mig langar til að taka fram nokkur atriði. Er þá fyrst, að tveir af flm. þessa frv. eru af þeim svæðum, þar sem fjárkláðinn er minnstur, en ég vil minna hv. þm. A.-Sk. á það, að kláðinn er kominn í Geithellnahreppinn, og er þá ekki nema Lónsheiðin á milli yfir til hans.

Hv. þm. Borgf. tók það fram, að útrýmingarböðunin hefði ekki komið að gagni, og af því dró hann þá ályktun, að kláðanum yrði ekki útrýmt. Hinsvegar er eitt aðalatriðið hjá honum í þessu frv. ákvæði um sundþrær, því öll þrifaböð væru ómöguleg, nema þær væru notaðar. Þegar útrýmingarböðunin fór fram, var ekki til ein einasta sundþró. Var þá undarlegt, þó ekki kæmi að fullu haldi útrýmingin? Þetta er víst ekki að stangast! — Sýnilegt er, hvað sem hv. flm. segja um frv., að það er fram komið til að tefja fyrir útrýmingarböðuninni, eins og líka sést á því, að ef lögin um útrýmingarböðun eru framkvæmd, þá er ákvæði í 7. gr. þessa frv. um að framkvæmd þessara laga skuli frestað. Í hvaða skyni er þá þetta frv. borið fram, þegar ekki á að framkvæma það, ef að lögum verður, svo framarlega sem lögin um útrýmingarböðun verða framkvæmd? Þetta var þá líka fyrst sem breyting við lögin um útrýmingu fjárkláðans, og þá réttlætt með því að þau spöruðu ríkissjóði 25 þús. kr. útgjöld. Síðan kemur frv. sjálfstætt, og því helzt talið til gildis, að ekki þurfi að framkvæma útrýmingarböðun, verði það að lögum. En nú er breytt um tón; nú er það til þess að gera þrifaböðunina betri, eftir að búið er að útrýma kláðanum. Og þó er í 7. gr. ákvæði um að fresta því, ef útrýmingarböðun fer fram. Ef þetta er ekki að stangast, þá veit ég ekki, hvað getur heitið því nafni, enda er það öllum vitanlegt, að tilgangurinn er enginn annar en von um, að samþykkt þessa frv. verði til þess að útrýmingarböðuninni verði þá frestað. Ég skil ekki, að grundvöllur þessa frv. geti verið nokkur annar en ég hefi nú lýst, og því á að fella það.