20.03.1936
Neðri deild: 29. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í C-deild Alþingistíðinda. (2192)

60. mál, sauðfjárbaðanir

Frsm. meiri hl. (Jón Pálmason):

Ég hefi leyft mér ásamt hv. þm. Ak. að flytja hér brtt. við frv. það, sem fyrir liggur til umr. Brtt. er á þskj. 181. Skal ég nú nokkuð gera grein fyrir orsökinni, sem liggur til þess, að við flytjum þessa brtt.

Það er dálítið sérstakt við þetta mál, sem hér liggur fyrir, að það var flutt á síðasta þingi, og þá var samhljóða lagt á móti því af öllum mönnum í landbn. Dagaði málið síðan uppi, eins og menn muna. Og það fékk nú þá afgr., að 4 af 5 nm. í landbn. leggja á móti frv., en einn með, hv. 1. flm. Það kom fram við 2. umr. málsins hér í hv. d., að líkur virðast til, að málið verði afgr. í Nd. með meiri hl. atkv. Við 2. umr. sýndi ég fram á það fyrir hönd landbn., að í þessu frv. fælust engin ákvæði, sem væru til umbóta frá því, sem ákveðið er í núgildandi löggjöf, eða ákvæði, sem gengju í þá átt að koma nokkru til leiðar, sem ekki væri unnt og heimilt að gera samkv. núgildandi löggjöf.

En það er þó eitt nýtt í þessu frv. að því er snýr að kostnaðarhlið þessara mála, og það er það, að lögskipa á með ákvæðum 6. gr. frv., að baðstjórar skuli vera viðstaddir hverja böðun á landinu og að þeim skuli vera greitt kaup úr sveitar- eða bæjarsjóði. Ég veit ekki, hvort allir, sem fylgzt hafa með þessu máli, hafa gert sér grein fyrir því, hvað það er, sem hér er um að ræða. Samkv. núgildandi löggjöf er það ekki lagaskylda, að baðstjórar séu viðstaddir hverja böðun, heldur er það lagt í vald sveitarstjórna að hafa eftirlit með öllum framkvæmdum þrifabaðana í hverri sveit fyrir sig. Nú eru um 700 þús. fjár á öllu landinu. Ef t. d. 200 fjár væri baðað á dag á hverjum stað, þar sem baðað væri, þá yrði þetta, sem baðstjóranum er ætlað að vinna, 3500 dagsverk. Nú má ætla, að það mundi ekki verða minna kaup, sem baðstjórunum væri ætlað, en 6 kr. á dag. Þá yrðu þau útgjöld, sem sveitar- og bæjarfélögin mundu hafa af því að gjalda baðstjórunum þetta kaup, a. m. k. 21 þús. kr. árlega. Það var mælt svo fyrir þessu frv. hér á dögunum, að með því ætti að spara ríkissjóði að leggja fram 24 þús. kr. í eitt skipti fyrir öll til útrýmingarböðunar. En ég hygg, að ég megi segja, að meiri hl. landbn. sé okkur flm. fyllilega samþykkur um, að þeir menn, sem vilja leggja þessi nýju gjöld á sveitarsjóðina — að óþörfu að okkar áliti —, eigi að vera sjálfum sér samkvæmir og láta þau gjöld falla á ríkissjóðinn, sem kostnaður við baðstjórana mundi skapa. Og þess vegna er þessi brtt. á þskj. 181 flutt.

En ég tek það fram, fyrir hönd okkar flm. brtt. og annara, sem ég geri ráð fyrir, að greiði brtt. atkv., að þar með er engan veginn sagt, að við fylgjum frv., þó að brtt. okkar yrði samþ. Því að við erum á móti því eins eftir sem áður í heild sinni.

Að svo mæltu legg ég brtt. undir dóm hv. d.