20.03.1936
Neðri deild: 29. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (2195)

60. mál, sauðfjárbaðanir

*Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen):

Hv. þm. A.-Húnv. hefir sýnilega mikla ánægju af að tala um þetta mál. Vil ég alls ekki svipta hann þeirri ánægju. Hann byrjar alltaf á því að lýsa gangi þessa máls og rekja það hér við hverja einustu umr., og tínir þá til allt, sem fyrir hefir komið í því frá því þetta mál komst inn á þing. Hann er búinn að gera þetta hér nú á þremur þingum í röð, þegar þetta mál hefir legið fyrir. Og nú við 3. umr. málsins fann hann enn ástæðu til þess að tala um þetta mál og rekja sögu þess. Það er náttúrlega ekkert um það að segja, þó að honum þyki svona gaman að tala um þetta mál; og þó að hann kunni að dreyma um það á nóttunni, þá er náttúrlega ekkert um það að segja. En ég er mjög ánægður yfir því, að þrátt fyrir allan bægslagang hv. þm. A.-Húnv. kunni nú hæstv. Alþ. að hafa fullan skilning á því, að þetta mál felur í sér mikið öryggi, og miklu meira öryggi heldur en núgildandi löggjöf um þetta, til þess að halda niðri þeim vágesti, sem fjárkláðinn er í sveitum landsins.

Ég ætla svo ekki að fara frekar inn á þetta, en út af því, sem hv. þm. sagði um þann kostnað, sem lagður væri á herðar sveitar- og bæjarfélögum með þessu frv., þá vil ég taka það fram, að ég ætla, að í þessu felist ekki þau viðbótarútgjöld fyrir bændur, sem ekki margborga sig.

Sumstaðar hefir verið viðhaft það fyrirkomulag, að fengnir hafa verið sérstakir baðstjórar til að vera við baðanir og sjá um framkvæmd á þrifaböðun; og ég hygg, að það megi rekja slóðina og að fjárkláðinn hafi ekki gert vart við sig á þeim svæðum, þar sem þrifaböð hafa verið framkvæmd með þeim hætti, sem við viljum tryggja með ákvæðum þessa frv., að verði viðhafður. Það er tryggt, að eftirlit með böðunum með þessum hætti margborgar sig fyrir íslenzka bændur, og það eru menn, vegna reynslunnar, farnir að skilja betur en áður og af því koma þau straumhvörf, sem valda því, að þetta frv. virðist eiga fyrir sér greiða götu í gegnum þingið.

Ég ætla ekki að öfunda hv. þm. A.-Húnv., þegar hann kemur út í sveitir landsins og segir við bændur: „Ég ætlaði að láta ríkissjóð borga fyrir ykkur eftirlitið með böðuninni“. En svo er hægt að minna hann á, að það átti engin áhrif að hafa á gang málsins, þótt þessi kjör fengjust sett í frv., — það átti aðeins að vera til að sýnast!